Færsluflokkur: Bloggar

1.533 dagar

„Sett­ur sak­sókn­ari í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu hef­ur farið fram á að sak­born­ing­ar í þessu máli sem skók ís­lensku þjóðina árum sam­an, verði sýknaðir. Ég vona að það verði niðurstaðan.

Ekki að ég geti tal­ist neinn sér­fræðing­ur í þessu máli. Ég var nýorðinn sjö ára þegar Guðmund­ur Ein­ars­son hvarf og rétt að verða átta ára þegar síðast sást til Geirfinns.

Ég var ný­fermd­ur þegar sex­menn­ing­arn­ir voru dæmd­ir í Hæsta­rétti og 28 ára þegar Sæv­ar Ciesi­elski fór fram á end­urupp­töku máls­ins. Ég var 45 ára þegar hann lést.

Alla ævi hef­ur þetta mál fylgt mér og alltaf hafa komið upp frétt­ir af því sem hafa hreyft við mér. Sjálf­ur hef ég, eins og flest­ir blaðamenn, átt tíma­bil þar sem ég hef orðið gagn­tek­inn af þessu máli. Ég hef lesið málskjöl­in og allt sem ég hef kom­ist yfir um það. Og alltaf hef ég fundið af því sömu ólykt­ina.

Mín kyn­slóð og þær sem á eft­ir mér koma skilja ekki hvernig hægt var að reka mál svona. Eng­ar sann­an­ir, ekk­ert lík, ekk­ert vopn og eng­in vitni. Harðræði, ómann­eskju­leg ein­angr­un­ar­vist og ótrú­lega langt gæslu­v­arðhald. Þvingaðar játn­ing­ar.

Ég hitti Sæv­ar nokkr­um sinn­um og reynd­ar fleiri sak­born­inga. Þau voru orðin þreytt á að halda fram sak­leysi sínu og þreytt á að eng­inn vildi hlusta á þau. Þetta mál var eins og óþægi­leg uppá­koma sem átti bara að sópa und­ir teppið og gleyma.

Ég hef hitt fólk sem er sann­fært um sekt sex­menn­ing­anna. Sann­fært á þeim for­send­um að þetta „hafi nú ekki verið merki­leg­ir papp­ír­ar“. En fyrst og fremst blindað af þörf­inni í ís­lensku þjóðfé­lagi fyr­ir að finna sak­born­inga. Blindað af rann­sókn sem var rek­in áfram með fyr­ir­fram gef­inni niður­stöðu á ógeðsleg­an hátt. Og knú­in áfram af síðdeg­is­blöðunum sem tóku öllu feg­ins hendi frá lög­regl­unni og rann­sak­end­um.

Það sést vel þegar maður renn­ir í gegn­um blöðin á þess­um tíma og sér tón­inn í um­fjöll­un um sak­born­inga. Sann­fær­ing­una um að þeir hafi gert þetta og gleðina þegar þeir voru loks dæmd­ir. Það er erfitt að finna í þess­um frétt­um gagn­rýni á rann­sókn­ina eða óþarf­lega og ómannúðlega langt gæslu­v­arðhald. Hún átti ekki hljóm­grunn á þess­um tíma.

Sæv­ar Marinó Ciesi­elski sat í gæslu­v­arðhaldi í 1.533 daga. Þar af í ein­angr­un í tæp tvö ár. Hon­um var haldið vak­andi, hann hrædd­ur og pyntaður. Tryggvi Rún­ar sat degi skem­ur í gæslu­v­arðhaldi og Kristján Viðar í 1.522 daga. Það er nán­ast ómögu­legt að setja þetta í sam­hengi. Tími Sæv­ars er vel á fimmta ár. Hann var heil fram­halds­skóla­ganga og rúm­lega það. Hann var tím­inn frá fyrstu koppa­ferð barns þar til það byrj­ar í skóla. Það er eng­in leið að ná utan um hvernig svona gat gerst. Og gleym­um því ekki að þetta voru krakk­ar um tví­tugt þegar þetta byrjaði sem máttu sæta harðræði í mörg ár.

Sam­tals sátu sex­menn­ing­arn­ir í gæslu­v­arðhaldi í tæp sautján ár. Þá tók við fang­elsis­vist­in eft­ir dóm og svo bar­átt­an utan múr­anna sem dæmd­ir morðing­ar. Það hef­ur verið þung­ur kross að bera.

Ég veit ekki hver myrti Guðmund og Geirfinn. Ég veit ekki einu sinni hvort þeir voru myrt­ir og lík­lega mun­um við aldrei kom­ast að því sanna. En þetta mál hef­ur nógu lengi verið til skamm­ar fyr­ir okk­ur sem þjóð og legið á okk­ur í 44 ár. Það er kom­inn tími til að ljúka því.“

Logi Bergmann


Nýjar teoríur

INJUSTICE

Settur saksóknari hefur nú gert þá kröfu að aðilar verði sýknaðir, krafan er í samræmi við niðurstöðu Endurupptökunefndar.

Mælt er með endurupptöku og sýknu  vegna aðildar að tveimur mannshvörfum. Beiðni um endurupptöku á dómum vegna rangra sakargifta er hinsvegar hafnað.

Hugmynd Endurupptökunefndar (og nú Saksóknara) um málavöxtu virðist því vera eftirfarandi:

 

Maður hverfur í Keflavík, síðar annar í Hafnarfirði. 19 ára gamlir krakkar lesa um mannshvörfin í fjölmiðlum eins og aðrir. En sinna  að öðru leyti  sínum daglegu hugðarefnum og hversdagslegu heimilishaldi eins og gengur og gerist. Fylgjast af áhuga með íslenskri kvikmyndagerð, fara í bíltúr og skreppa í bíó einstaka sinnum, taka mömmu stundum með. En samkvæmt nýrri útgáfu Endurupptökunefndar sem nú er komin fram, héldu þau engu að síður fund með manni, jafnaldra sínum, heima hjá honum á Grettisgötu. Þar tóku þau saman ráð sín um að ef þau yrðu einhverntíma handtekin vegna þessa mannshvarfs sem þau komu hvergi nærri og höfðu engar hugmyndir um fremur en aðrir, þá skyldu þau bera sakir á fjóra menn en játa þó jafnframt sakir á sig sjálf. Gestgjafinn á fundinum skyldi þó í byrjun aðeins nefna einn af fjórmenningunum. Þessi áætlun skyldi framkvæmd af þeim öllum í einu, 43 dögum eftir að þau yrðu handtekin og sett í einangrun.      

Annaðhvort trúum við þessu, eða við endurupptökum einnig sakargiftamálið og finnum haldbetri skýringar á
 tilurð hinna röngu sakargifta.

TH


Stærsta skipbrot íslenska réttarkerfisins

HR 1980

Eins og allir eiga að vita er ein af grundvallarforsendum réttlætis í lýðræðisríki þrískipting valdsins, þ.e. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Helstu birtingarmyndir þess á Íslandi eru Alþingi, héraðs- og hæstaréttardómstólar og rannsóknaraðilar (lögregla).

Til þess að forðast mistök og/eða spillingu verða þessir þrír þættir að vera aðskildir með því sem næst vatnsheldum skilrúmum. Það er ekki farsælt að einn geti haft áhrif á hinn til að hagræða aðgerðum eða niðurstöðum. 

Ef svo kann að verða er grafið undan hornsteinum réttarríkisins og afleiðingarnar algerlega fyrirsjáanlegar. 

Því miður er svokallað Geirfinns/Guðmundarmál skólabókardæmi yfir þvílíkt skipbrot réttarríkisins  og þessi mannshvörf aðeins ásteitingarsteinn þessa.

En hlutir gerast ekki án fyrirvara og Guðmundar og Geirfinnsmál varð ekki til úr engu. Mergurinn málsins var að það hafði þegar verið átt við skilrúm valdakerfisins og gerð þar á glufa sem hlaut auðvitað að enda með stórslysi. 

Í upphafi 8. áratugarins hafði þáverandi dómsmálaráðherra komið á laggirnar svokölluðum fíkniefnadómstól, dómstóll skipuðum sérstökum dómara sem jafnframt sá um rannsóknir á ætluðum brotum á fíkniefnalöggjöf sem var í smíðum.OlafurJohannesson1913

Þetta kann að virka lítilvægt við fyrstu sýn, en var svo afgerandi þegar Guðmundar og Geirfinnsmál fóru á flug. Með stofnun fíkniefnadómstólsins, þar sem sami aðili rannsakaði og dæmdi sakborninga var komið hættulegt fordæmi. Fíkniefnadómarinn gat sem sagt rannsakað málin algerlega á eigin forsendum og dæmt síðan í þeim sjálfur. Sjálfsagt hafa margir aðrir dómarar litið þennan gjörning hornauga, eða öfundaraugum, en viðbrögð valdhafa og almennings voru lítil eða engin, enda var viðnám og kvartanir dæmdra sakborninga metið léttvægt.

Þegar Guðmundar og Geirfinnsmál kom til skjalanna höfðu slúðursögur gengið um samfélagið í rúmt ár. Örlög þessara tveggja manna virtust algjör ráðgáta og engin skýring sennilegri en önnur. Tilviljun réði því að eftir að leit/rannsókn á hvarfi Guðmundar Einarssonar var lögreglan í Keflavík að rannsaka hvarf Geirfinns Einarssonar. Þar á bæ höfðu menn metnaðarfulla einstaklinga sem voru fullir bjartsýni fyrst í stað, en svo fjaraði hratt undan öllum stóru yfirlýsingunum þegar frá leið. Tilburðir við rannsóknina voru líka með ólíkindum, þar átti helst að styðjast við lýsingu á grunsamlegum manni sem hringdi símtal úr Hafnarbúðinni í Keflavík. Búin var til leirmynd af grunsamlegum manni, en við smíði hennar var notast við ljósmynd af þekktri persónu en ekki lýsingu vitnis. Engu líkara en væri verið að hanna persónur og atburði. Við skoðun gagna úr þessum rannsóknum sést líka að lögreglan var komin með ákveðna hugmynd um atburði en vantaði aðeins persónur til að fylla í gefin hlutverk. Engar rannsóknir voru vitanlega gerðar á símanotkun á heimili Geirfinns Einarssonar, né um ferðir leigubíla á svæðinu eða báta og skipa. Bíll ge fannst örskammt frá en rannsókn á honum skilaði engu,- var hann læstur? Voru engin fingraför í eða á honum?

Við mannshvörf er líka oftast horft til þeirra sem síðast sáu viðkomandi,- hvernig var þeirri rannsókn háttað? Það fáum við aldrei að vita. Greinilegt var að rannsakendur höfðu sameiginlega skapað sér raunverulega hugmynd um hvarf Geirfinns Einarssonar, en höfðu þó enn ekki burði til að setja hana hreint fram. Þessir Keflvísku rannsóknarmenn höfðu sumir hverjir sterk ítök hjá lögreglunni í Reykjavík og gátu vel miðlað skoðunum sínum og hugmyndum þar á bæ. Ekki síst hjá fíkniefnadómstólnum.

Það var því engin tilviljun þegar Erla Bolladóttir var spurð hvort hún vissi hvort Sævar vinur hennar hefði ekki þetta mannshvarf á samviskunni. Hún hafði verið handtekin vegna annara rannsókna, en þegar átti að láta hana lausa eftir yfirheyrslu þótti rétt að láta þessa spurningu fljóta með í lokin. Erlu langaði greinilega svo mjög útí frelsið að hún sagði bara það sem menn vildu heyra. Sama hvað. Og þar með var fjandinn laus.

Rannsóknarmönnum fannst eins og þeir hefðu fundi gull. Hér var komið hálmstrá sem vert var að halda í, kannski var einhver fótur fyrir öllum sögusögnum, komin skýring á atburðum sem höfðu legið eins og mara ekki bara á aðstandendum og almenningi, heldur dómsmálaráðherra og lögreglu, en það var meðal annars vegna slúðursins í dagblöðums.

Athugið að þetta er á tímum þar sem fólk fær allar sínar upplýsingar frá ríkisútvarpinu, úr 4 flokksblöðum eða tveimur síðdegisblöðum sem börðust grimmilega um hylli lesenda með því að ganga fram hvort af öðru. Síðdegisblöðin voru óhrædd að birta alls konar bull og þvælu fyrir lesendur ef það seldi fleiri blöð. Slúðurfréttir af Guðmundar og Geirfinnsmál skiptu þar tugum eða hundruðum.

Fljótlega eftir að Guðmundar og Geirfinnsmál komast í rannsókn í Reykjavík er Keflavíkurmönnum sparkað og illu heilli stofnaður rannsóknardómstóll fyrir þetta sérstaka mál. Fyrirmyndin er þegar til staðar og nú gefst mönnum tækifæri á því að láta hugmyndir sínar verða að veruleika með nánast óskorað vald.

Uppskriftin að lausn málsins var mjög einföld: Grunaður sakborningur verður hafður í einangrun frá tilverunni þangað til dómstóllinn er sáttur við lýsingar hans á fyrirfram mótaðri hugmynd sinni!

Eins og reyndin varð gekk þetta þó ekki átakalaust fyrir sig - vegna fjölda ætlaðra sakborninga og engra sönnunargagna né hlutlausra vitna virtist þetta allt komið í hnút eftir ár af einangrun. 

Ein slúðursagan sprakk líka í andlit rannsakenda, þá átti að fullkomna heildarmyndina með því að draga 4 blásaklausa menn inn í samskonar meðferð og ungmennin höfðu fengið. Það tókst þó sem betur fer ekki, hvort tilviljun réði því eða að þar áttu rannsakendur við örlítið þroskaðri menn, menn sem létu ekki kveða sig í kútinn, þó ekki hafi miklu mátt muna. 

Þegar rannsóknardómari var orðinn ráðalaus, þáverandi dómsmálaráðherra í miklum vanda vegna þessa máls og annara var gripið til þess ráðs að fá til halds og trausts útlendan mann, Þjóðverja að nafni Karl Schütz sem hafði starfað við rannsóknir á glæpum hryðjuverkamanna í Þýskalandi. Sá hafði getið sér gott orð í þeim starfa en var nú kominn á eftirlaun og eftir ýmsum pólítískum krókaleiðum var haft upp á honum og gefið færi á að bjarga misheppnaðri íslenskri glæparannsókn sem hafði siglt í strand. 

Það var mikið í húfi. Ferill og framtíð dómsmálaráðherra var í hættu, skipaður rannsóknardómari leit mjög illa út í samhenginu og ótaldir lögreglumenn og aðrir sem höfðu kastað sér yfir málið virtust algerir aular. Í raun og veru stóð ekki steinn yfir steini í rannsókn málsins. Augljóst stjórnarskrárbrot við skiptingu valdsins hafði gert þetta mögulegt. Það hafði leyft rannsóknardómstólnum að ganga lengra en annars í aðgerðum og harðræði sem flestir voru beittir, hvort sem voru ætluð vitni eða sakborningar. 

SchützNiðurstaða Þjóðverjans var því augljóslega pöntuð vara, stimpill óhlutdrægs aðila sem enginn Íslendingur gat véfengt. Allt til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Að lokum drógst allt réttarkerfi Íslands með á þessu feigðarfleyi, siglingu sem hófst á kæruleysilegu svari Erlu við lúmskri spurningu lauk með endanlegu skipbroti íslenska réttarkerfisins í hæstarétti.

Niðurstaða:

Þrískipting valdsins er grundvallaratriði í lýðræðislegu réttarfari. Öll frávik frá þeirri reglu er uppskrift að óleysanlegum vandamálum við réttláta stjórnsýslu.

Ef menn hafa áhuga á glæparannsóknum og vilja kynna sér málið í hnotskurn er hægt að lesa málsskjölin á síðum mal214.com 

 

Svíþjóð, 2017

G.Einarsson

 


Ný teoría Endurupptökunefndar

INJUSTICE

Endurupptökunefnd hefur skilað niðurstöðu.
Mælt er fyrir um endurupptöku á dómum vegna aðildar að tveimur mannshvörfum. Beiðni um endurupptöku á dómum vegna rangra sakargifta er hafnað.

Hugmynd Endurupptökunefndar um málið virðist því vera eftirfarandi:

 

Maður hverfur í Keflavík. 19 ára gamlir krakkar lesa um mannshvarfið í fjölmiðlum eins og aðrir. En sinna  að öðru leyti  sínum daglegu hugðarefnum og hversdagslegu heimilishaldi eins og gengur og gerist. Fylgjast af áhuga með íslenskri kvikmyndagerð, fara í bíltúr og skreppa í bíó einstaka sinnum, taka mömmu stundum með. En samkvæmt nýrri útgáfu Endurupptökunefndar sem nú er komin fram, héldu þau engu að síður fund með manni, jafnaldra sínum,á kaffihúsinu Mokka. Þar tóku þau saman ráð sín um að ef þau yrðu einhverntíma handtekin vegna þessa mannshvarfs sem þau komu hvergi nærri og höfðu engar hugmyndir um fremur en aðrir, þá skyldu þau bera sakir á fjóra menn en játa þó jafnframt sakir á sig sjálf. Gestgjafinn á fundinum skyldi þó í byrjun aðeins nefna einn af fjórmenningunum. Þessi áætlun skyldi framkvæmd af þeim öllum í einu, 43 dögum eftir að þau yrðu handtekin og sett í einangrun.     

Annaðhvort trúum við þessu, eða við endurupptökum einnig mál stúlkunnar og finnum haldbetri skýringar á tilurð hinna röngu sakargifta.

TH


Staðan í dag

OUT OF THIN AIR2
Kvikmyndin "Out of thin air" eftir Dylan Howitt var sýnd í kvöld í RUV. Eins og gjarnan er með kvikmyndir, eru skoðanir sjálfsagt nokkuð skiptar um ágæti hennar. Frá bæjardyrum undirritaðs er myndin vel heppnuð heimildarmynd að því leyti að hún vekur áhorfandann til umhugsunar um þá sannkölluðu martröð sem 6 sakborningar í GG málum upplifðu, frá miðjum desembermánuði 1975 og allt til dagsins í dag, þ.e. þeir 4 sem eftir lifa. Þetta skapar myndinni nokkra sérstöðu miðað við aðrar myndir bækur og sjónvarpsþætti sem fjallað hafa um málið.

Hins vegar fjallar hún nánast ekkert um sakamálið sjálft, þ.e.a.s. gögn málsins, hvað bendir til sektar eða sýknu. 
 
Á fimmta áratug er liðið frá mannshvörfunum. Loks nú, 2017 hillir undir að réttarkerfið opni þetta mál að nýju og geri hreint fyrir sínum dyrum að því leyti sem unnt er. 

En hver er staðan í dag?
Endurupptökunefnd lauk störfum að málinu í febrúar 2017 með úrskurði þess efnis að mælt var fyrir um endurupptöku á dómum sem féllu fyrir meintan þátt ákærðu í 2 mannshvörfum. Hins vegar var ákvörðun nefndarinnar sú, að ekki skyldi taka upp þátt þriggja sem dómfelld höfðu verið fyrir rangar sakargiftir gegn fjórum annáluðum heiðursmönnum sem haldið var saklausum í gæsluvarðhaldi allt að 105 daga. Þessi þáttur málsins er í raun sá eini sem eftir stendur. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar 1980 áttu ungmennin þrjú alla sök á því að fjórmenningarnir voru hnepptir í varðhaldið. Öll gagnaöflun var að sjálfsögðu í höndum rannsóknarmanna sjálfra. Gögn sem sýndu fram á að þeir voru sjálfir 100% ábyrgðarlausir af þessum mistökum: Skýlausar játningar sakborninga á röngum sakargiftum. Þetta var játað síðla hausts 1977, nánast 2 árum eftir að sakborningar voru handteknir.   

Því er verðugt tilefni til að benda á það að fimmtudaginn 14. september verður sýndur á RUV þátturinn "Meinsærið" Í þættinum verður fjallað sérstaklega um þennan afmarkaða þátt málsins. Umsjónarmaður þáttarins verður Helga Arnardóttir.

Óhætt er að hvetja alla til að fylgjast vel með þættinum, þarna mun ýmislegt koma á óvart. En til umhugsunar er hér grein sem undirritaður skrifaði 1997:

Um tilurð rangra sakargifta í Geirfinnsmáli


TH


Af furðulegum forsendum Endurupptökunefndar

AR-649260032

Eva Hauksdóttir skrifar:  


Það er vissulega fagnaðarefni að Endurupptökunefnd skuli sjá ástæður til þess að dómar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum verði endurskoðaðir. Sakborningar hafa þó ekki verið hreinsaðir af einu eða neinu ennþá enda hefur Endurupptökunefnd ekki neitt vald til þess, það er dómstóla að úrskurða um sekt eða sýknu.

Nefndin hefur reyndar ekki einu sinni vald til þess að ákveða að málin verði tekin upp aftur, hún hefur aðeins vald til þess að mæla með því. Að vísu er tekið fram í dómstólalögum að Endurupptökunefnd taki þá ákvörðun en það lagaákvæði er andstætt þrígreiningu ríkisvaldsins sem gert er ráð fyrir í stjórnarskrá. Hæstiréttur getur því sagt Endurupptökunefnd að skeina sig á þessum úrskurði, ef honum sýnist svo, rétt eins og hann gerði (að vísu með kurteislegra orðalagi) í máli nr. 628/2015.
HR

Það er hinsvegar blessunarlega ólíklegt að Hæstiréttur vísi málinu frá og fari málið aftur fyrir dóm án þess að fleiri gögn komi fram er sýkna líklegasta niðurstaðan. Það er að segja sýkna af manndrápum. Skiljanlega hneykslar það marga að Endurupptökunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé einnig ástæða til að taka aftur upp þann þátt málanna sem lýtur að röngum sakargiftum.

Skilyrði endurupptöku

Í 1. mgr. 215. gr. sbr. 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála er fjallað um skilyrði til endurupptöku sakamáls. Til þess að mál verði endurupptekið þarf eitthvert eftirfarandi skilyrða að vera uppfyllt:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Rök Endurupptökunefndar fyrir því að taka ekki upp dóma um rangar sakargiftir eru þau að ekkert ofangreindra skilyrða sé uppfyllt. Ekki sé umdeilt að þrír sakborninga báru saklausa menn sökum og að ekki sé fram komið að þeir vitnisburðir sem leiddu til gæsluvarðhalds fjórmenninganna hafi verið þvingaðir fram.

Sýknudómur hlýtur að flokkast sem ný gögn

Hvað a-liðinn varðar er það undarleg afstaða hjá Endurupptökunefnd að líta ekki á rannsóknir á fölskum játningum og sálfræðilegt mat á sakborningum í ljósi þeirra, sem ný gögn í málinu. Ennþá undarlegra er að slíta játningar sakborninga úr samhengi við vitnisburði þeirra um aðild annarra manna sem allir reyndust saklausir.

Með því að fallast á að efni séu til þess að taka manndrápsmálin upp fyrir Hæstarétti, hlýtur Endurupptökunefnd að telja umtalsverðar líkur á því að dómfelldu verði sýknuð. Verði það niðurstaðan (sem verður að teljast sennilegt í ljósi þeirra gagna sem Endurupptökunefnd leggur til grundvallar) er mótífið fyrir því að klína sökinni á óviðkomandi menn, hvað þá að sammælast um það áður en sakborningar voru handteknir, fallið um sjálft sig. Þar með væru komin fram ný gögn sem gæfu ástæðu til endurupptöku þeirra mála sem lúta sérstaklega að röngum sakargiftum. Þannig gæti sú staða komið upp að fara þyrfti með hluta málsins aftur fyrir Endurupptökunefnd og Hæstarétt, með tilheyrandi vinnu og kostnaði, í stað þess að afgreiða þessi mál í einu lagi. 

Mál Sævars

Gögn málsins gefa vísbendingar um refsiverða háttsemi af hálfu rannsakenda, svo sem að gögn hafi verið fölsuð og valdi misbeitt við rannsókn málsins. Engu að síður hafnar Endurupptökunefnd beiðni erfingja Sævars um endurupptöku málanna á þeim grundvelli. Hinsvegar er fallist á endurupptöku manndrápsmálanna á grundvelli a- c- og d-liða. En þótt nefndin fallist á að fyrir liggi vísbendingar um gallaða málsmeðferð í manndrápsmálunum, telur hún að það eigi ekki við um hina fölsku vitnisburði sakborninga um aðild fjórmenninganna. Virðist þetta að nokkru leyti byggt á því að ekki hafa fundist sannanir fyrir því að rannsakendur hafi misnotað aðstöðu sína til þess að fá Erlu Bolladóttur til þess að bera menn röngum sökum og Kristján Viðar og Sævar til að staðfesta þann vitnisburð að hluta. Það er þó ekki skortur á sönnunum sem Endurupptökunefnd ber fyrir sig í máli Sævars Ciesielski. Nefndin telur að Sævari hafi raunverulega ætlað sér að bera rangar sakir á fjórmenningana en ástæðan hafi verið sú að hann taldi Erlu stafa hætta af þeim:

Þá rakti endurupptökubeiðandi í áðurnefndu bréfi til verjanda síns að hann hafi haft í hyggju með sakaráburði sínum að tryggja öryggi dómfelldu Erlu sem rannsóknaryfirvöld hafi talið í raunverulegri hættu. Skilja má bréfið þannig að endurupptökubeiðandi hafi viljað draga framburð sinn til baka þegar fyrrnefndir þrír menn höfðu verið fangelsaðir þar sem þeirri hættu sem hann taldi steðja að dómfelldu Erlu hefði þá verið afstýrt. Að mati endurupptökunefndar geta skýringar sem varða ástæður þess að mennirnir voru ranglega bornir sökum ekki haft þýðingu við mat á refsinæmi rangra sakargifta í skilningi 148. gr. hegningarlaga. [1]

Það væri kannski hægt að fallast á þau rök að sannanir um brot í opinberu starfi og/eða verulega galla á málsmeðferð skorti en Endurupptökunefnd byggir ekki á því að þær skýringar Sævars að rannsakendur hafi komið því inn hjá honum að Erla væri í lífshættu, séu ósannaðar, heldur eru forsendur hennar þær að mótífið skipti bara ekki máli og því litlar líkur á að sakargögn hafi verið rangt metin. Endurupptökunefnd telur það semsagt EKKI verulegan galla á meðferð máls að telja gæsluvarðhaldsfanga (nánar tiltekið manni sem þá hafði sætt einangrun í 42 daga) trú um að barnsmóðir hans sé í lífshættu. 

Mál Erlu

Hugmynd Endurupptökunefndar um ásetning sakborninga til rangra sakargrifta er sv athugunarefni út af fyrir sig. Sakfellingu til grundvallar lá 1. ml. 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvæðið hljóðar svo:

Hver, sem með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, skal sæta fangelsi allt að 10 árum.
Ákvæðið felur í sér það skilyrði fyrir því að manni verði refsað, að hann sé beinlínis að reyna að fá fram rannsókn eða dóm gagnvart saklausum manni. Ásetningur er áskilinn eins og dómaframkvæmd Hæstaréttar staðfestir sbr. Hrd. 831/2014, 
Hrd. 632/2009,

og Hrd. 306/2001.

Það er því ekki refsivert að bera mann röngum sökum ef vitnið trúir því sjálft að maðurinn sé sekur.

Eftir að Erla benti á fjölda manna sem áttu að hafa verið viðstaddir, hélt hún því fram að hún sjálf hefði skotið Geirfinn. Hún hefði væntanlega ekki játað á sig manndráp nema vegna þess að hún trúði því sjálf að sá atburður sem hún lýsti hefði átt sér stað. Engu að síður heldur Endurupptökunefnd því fram að sönnunargögn í sakargiftamálinu hafi ekki verið rangt metin. Vísað er til þess að þar sem játningar um rangar sakargiftir lágu fyrir, hafi ekki verið forsendur til annarrar niðurstöðu. Þetta rímar illa við ýmsar aðrar niðurstöður nefndarinnar svosem þá að skilyrði endurupptöku máls Guðjóns Skarphéðinssonar séu uppfyllt enda þótt hann hafi ekki dregið játningu sína til baka fyrir dómi.

Það er útilokað að túlka þá afstöðu Endurupptökunefndar að gögn hafi verið rétt metin á annan veg en þann að allar líkur séu á að Erla yrði sakfelld aftur ef málið yrði tekið upp. Samkvæmt því telur nefndin að Erla hafi af ásetningi komið fjórmenningnum í gæsluvarðhald. Hvernig í ósköpunum komast menn að þeirri niðurstöðu að manneskja sem er í nógu slæmu andlegu ástandi til þess staðhæfa ranglega að hún hafi orðið manni að bana, hafi að öðru leyti verið meðvituð um ruglið í sjálfri sér? Eða að hún hafi verið í betra jafnvægi viku eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi en fjórum mánuðum síðar þegar hún felldi ranglega sök á sjálfa sig? 

Mál Kristjáns

Kannski er þó athyglisverðast af öllu að Endurupptökunefnd trúir því ekki að Kristján Viðar hafi vísvitandi logið um það sem hann sagði að gerst hefði í Dráttarbrautinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf og þar með þá sem hann sagði hafa verið viðstadda. Eða eins og Endurupptökunefnd orðar það sjálf:

Eins má geta þess að endurupptökubeiðandi bar um að Geirfinnur hefði beðið bana á mjög margvíslegan hátt, fallið útbyrðis, verið barinn til dauða af hópi manna, skotinn eða fallið fram af hamri. Loks bar hann um að mjög margir hefðu átt hlut að máli í ferðinni til Keflavíkur og það mun fleiri en títtnefndir fjórmenningar. Virðist endurupptökubeiðandi hafa verið svo sannfærður um framburð sinn í þessu tilliti að hann rakti orðrétt samtöl milli manna og bauðst til að vinna eið að framburði sínum í einu tilviki. [2]
Kristján Viðar hafði samkvæmt þessu engan ásetning um að ljúga, hann var sannfærður um framburð sinn. Engu að síður telur Endurupptökunefnd að sönnunargögn um vísvitandi rangar sakargiftir hafi verið rétt metin! Þetta er mótsagnakennd ályktun svo ekki sé meira sagt.

Skilningsleysi á aðstæðum dómfelldu

Við getum vonandi verið sammála um að ekki sé forsvaranlegt að dæma fólk til refsingar á grundvelli þvingaðra játninga eða falskra minninga um eigin sök, sem rannsakendur bera ábyrgð á. Sú afstaða Endurupptökunefndar að sömu ástæður séu ekki efni til endurupptöku þegar vitnisburður beinist gegn öðrum, er í besta falli óskiljanleg. Í versta falli bendir hún til víðtæks skilningsleysis á aðstæðum sakborninga í málinu og áhugaleysi um rannsóknir á sönnunargildi vitnisburða.

Því miður er í úrskurðum nefndarinnar að finna athugasemd sem styður síðari möguleikann en þar segir um skýrslu Starfshóps innanríkisráðuneytisins um Guðmundar- og Geirfinnsmál: [3]

… alveg er látið hjá líða að víkja að forsendum þess að fjórmenningarnir, sem sátu allt að 105 daga í gæsluvarðhaldi áður en þeim var sleppt, játuðu ekki þrátt fyrir langvarandi gæsluvarðhaldsvist. Dómfelldu, aðrir en endurupptökubeiðandi, játuðu hins vegar einhverja aðkomu að Guðmundarmálinu mjög fljótlega eins og áður gat. Sýnist þar hafa verið kjörið tækifæri til að greina trúverðugleikamat gagnvart dómfelldu með tilliti til viðmiðunarhóps. [4]
Endurupptökunefnd telur semsagt farsæla bissnissmenn sem nutu töluvert mannúðlegri meðferðar en dómfelldu í þessum málum heppilega til viðmiðunar við afbrotaunglinga, á kafi í vímuefnaneyslu. Ennfremur að viðbrögð fjórmenninganna bendi til þess að betri forsendur en langvarandi einangrun þurfi til þess að saklausir menn játi á sig glæpi. Það er einstaklega hæpin niðurstaða í ljósi þess að Einar Bollason lýsti því yfir opinberlega eftir að hann losnaði úr haldi að hann hefði verið farinn að velta því fyrir sér hvort hann hefði flækst í morðmál án þess að muna það.

Vandséð er að þær forsendur sem liggja niðurstöðu um endurupptöku manndrápsmálanna eigi síður við um sakargiftamálin. Sakborningar nutu ekki í þeim málum, frekar en manndrápsmálunum, eðlilegs aðgangs að lögmönnum sínum og ekki var virt sú meginregla að horfa jafnt til atriða sem bentu til sýknu og sakleysis (ath. að það ber að sýkna ef ásetning skortir). Það er ekki til þess fallið að auka virðingu almennings fyrir réttarkerfinu að Endurupptökunefnd skuli ekki geta stutt úrskurði sína sannfærandi rökum. Því síður eykur það traust manna á dómskerfinu og stjórnsýslunni að fólk sem afrekar það að kynna sér öll gögn þessara ömurlegu dómsmála, án þess að öðlast skilning á þeim aðstæðum sem knúðu sakborninga til fullkomlega ómarktækra framburða, skuli ráða úrslitum um endurupptöku.

[1] Úrskurður Endutökunefndar í máli nr. 5/2015 – Beiðni erfingja Sævars Marinós Ciesielski um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978, grein nr. 3140.

[2] Úrskurður Endutökunefndar í máli nr. 15/2015 – Beiðni setts ríkissaksóknara um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978 til hagsbóta fyrir Kristján Viðar Júlíusson, grein nr. 2842.

[3] Áhrif falskra játninga eru ágætlega reifuð í 19. kafla skýrslu Starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál, sem Endurupptökunefnd hafði að eigin sögn til hliðsjónar við matið.

[4] Úrskurður Endutökunefndar í máli nr. 7/2014 – Beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978, grein nr. 2429.

Fyrst birt 02 mar 2017 
www.kvennabladid.is 


Hvað brást hjá endurupptökunefnd?

 

Hvað brást hjá endurupptökunefnd?

Í kjölfar láts Sævars Marinó Ciesielski 2011 tveimur árum eftir lát Tryggva Rúnars Leifssonar, sýndi Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra með fádæma kjarki að „kerfið“ getur virkað.   Stofnun Starfshópsins um mál 214 sama ár 2011 og vinna hans undir stjórn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur sem skilaði af sér tímamóta skýrslu 2013 sýndi sömuleiðis að hægt er að fá heiðarlegar og vandaðar niðurstöður úr kerfinu, sem er hvurt eð er okkar í öllu falli.

Ögmundur og Arndís

Niðurstaða Starfshópsins var að miðað við gögn málsins bæri að taka málið upp.  Starfshópurinn benti á þrjár mögulegar leiðir: Að Ríkissaksóknari mæli með endurupptöku, að dómþolar gætu höfðað einkamál (mjög dýrt) og að Alþingi gæti gripið inní með eigin rannsókn. 

Einn stærsti hvatinn að stofnun Endurupptökunefndarinnar árið 2013 var getuleysi hæstaréttar til að taka á máli 214/80, svokallað Guðmundar og Geirfinnsmál fyrir utan þá augljósu réttarfarsbót sem nefndin felur í sér almennt, samanber að nefndin er búin að afgreiða á þremur árum um 50 mál, þó svo að nefndin síðan hverfi við ræsingu millidómstigs.

Endurupptökunefnd er skipuð þremur fulltrúum, einum frá Alþingi, einum frá dómstólaráði og svo einum frá hæstarétti.  Alþingi kýs sinn fulltrúa til 5 ára.   Upphaflega skipun nefndarinnar var sú að fulltrúi Alþingis var formaður hennar eðli málsins samkvæmt þar sem þingið er æðst þessara aðila og hlutlaust og hinir í raun aðilar máls og málsmeðferðar. 

Við úrsögn fyrsta fulltrúa Alþingis tekur fulltrúi hæstaréttar við sem formaður sem getur ekki verið eðlilegt því þá er hæstiréttur aftur orðin foræðisaðili og er það sérdeilis bagalegt í tilfelli máls 214/80 þar sem hæstiréttur er á sakabekk beinlínis og hefur alltaf sýnt endurupptöku málsins sérstakan fjandskap. 

Að vera kosin af Alþingi er að öllu jöfnu alvarlegt mál og gerist ekki á hverjum degi en þó hefur Alþingi fjórum sinnum þurft að kjósa í nefndina á þremur árum.  Svo er að sjá að kosnir fulltrúar Alþingis hrökklist út einn af öðrum.   Hvað veldur? 

Ragna Árnadóttir fyrrverandi dómsmálaráðherra fyrsti fulltrúi Alþingis og formaður nefndarinnar var talin nógu sterk og heiðarleg til að standast hugsanlegan þrýsting t.d. frá hæstarétti.  Því miður þurfti Ragna að taka af einhverjum ástæðum fyrsta flug út aftur og fara í annað mikilvægt verkefni og síðan tók við einn og svo einn annar og síðan sá fjórði sem tók svo þátt í niðurlægjandi hneisu endurupptökunefndar ásamt hinum tveimur upphaflegum fulltrúum dómstólaráðs og hæstaréttar.

Niðurstaða nefndarinnar 2017, sem tók um þrjú ár að fá, er þó í raun formleg uppgjöf „kerfisins“ þó svo að hún neiti að horfast í augu við þriðja þátt málsins svokallaðar „rangar sakargiftir“.   Hinir tveir þættirnir Guðmundarmál og síðan Geirfinnsmál sem endurupptökunefnd mælir með að tekin verði upp að nýju snúast einmitt um rangar sakargiftir „rannsóknarmanna“ á hendur ungmennum við „rannsókn“ málsins sem og mannshvarfs „rannsóknirnar“ á sínum tíma.

Ríkissaksóknari þessu máli sem fer með æðsta ákæruvald í kerfinu mælir með endurupptöku málsins í heild en nefndin kýs að leggja stein í götu þar sem bæði dómþolar og sérstakur ríkissaksóknari eru sammála um að fara saman um. Þar sem endurupptökunefnd hefur það hlutverk að velja leið ef endurupptökubeiðandi og ríkissaksóknari eru ekki sammála en ef báðir aðilar eru sammála er hlutverki nefndarinnar búið og ber að greiða götu til endurupptöku.

Þrjóska nefndarinnar eftir þá skynsömu ákvörðun ríkissaksóknara 2016, að mæla með upptöku málsins í heild er mögulega stjórnsýslubrot og tafir nefndarinnar eftir þennan tíma voru vægast sagt ómálefnalegar og ónauðsynlegar með öllu enda kom af sjálfsögðu ekkert úr þeim töfum nema tafir og frestir.

Ef frestur er brestur að þá eru margir frestir margir brestir eða hvað veldur því að svo margir fulltrúar  Alþingis bregðast og hlaupa frá því trausti sem þeir eru kosnir til?   Vildu þeir ekki taka þátt í þessum ósóma?  

  Hægt væri að ímynda sér að þróun starfsmannahalds og yfirtaka fulltrúa hæstaréttar á formannsstöðunni sé til komin vegna þrýstings frá aðilum innan réttarins og smá hóps embættismanna en ekki frá „kerfinu“ í sjálfu sér, sem þegar hefur formlega gefist upp fyrir kröfunni um endurupptöku í gegnum ríkissaksóknara og síðan endurupptökunefndar að hluta í loka áliti sínu.

Vandamálið við svona hópa „freka kalla“ aka „smákónga“ er að þeir blása sig út í stöðum sínum af gömlum vana, taka og þykjast hafa meiri völd en þeim ber.   Ein megin aðferð valdníðinga er að reyna að hindra umræðu um óþægileg mál, að þagga, beita þöggun.  Óvinir þessa freku smákónga eru stjórnsýslulögin um upplýsinga og svaraskyldu yfirvalda.  Önnur aðferð þessara valdadólga er að halda því fram að lög á einn eða annan veg heimila ekki að taka upp réttlæti.  Þá er að búa til rétt lög.

Þessi fáránlega niðurstaða nefndarinnar er ekki sjálfstæð niðurstaða byggð á skynsemi og almennri rökvísi heldur áframhaldandi vonlausri þöggun þar sem látið er eftir nokkrum frekum köllum.

Það er leiðinlegt fyrir sögu endurupptökunefndar að hún hafi frekar verið að snatta fyrir einhverja ómerkilega bankstera aftur og aftur heldur en að sinna sögulegri skyldu sinni með sóma.  Þar fóru ærur fyrir lítið. 

Niðurstaða endurupptökunefndar nær ekki að jafnast á við réttarvitund almennings í landinu sem ætti þó að vera algjör lágmarkskrafa á hendur fulltrúum nefndarinnar og ekki síst nú þegar traust fólks til réttarfars þarf að reisa en ekki rífa.
 

Sigurþór Stefánsson.

 

 

 

 

 


Ný teoría

INJUSTICE

Endurupptökunefnd hefur skilað niðurstöðu.
Mælt er með endurupptöku á dómum vegna aðildar að tveimur mannshvörfum. Beiðni um endurupptöku á dómum vegna rangra sakargifta er hafnað.

Hugmynd Endurupptökunefndar um málið virðist því vera eftirfarandi:

 

Maður hverfur í Keflavík. 19 ára gamlir krakkar lesa um mannshvarfið í fjölmiðlum eins og aðrir. En sinna  að öðru leyti  sínum daglegu hugðarefnum og hversdagslegu heimilishaldi eins og gengur og gerist. Fylgjast af áhuga með íslenskri kvikmyndagerð, fara í bíltúr og skreppa í bíó einstaka sinnum, taka mömmu stundum með. En samkvæmt nýrri útgáfu Endurupptökunefndar sem nú er komin fram, héldu þau engu að síður fund með manni, jafnaldra sínum, heima hjá honum á Grettisgötu. Þar tóku þau saman ráð sín um að ef þau yrðu einhverntíma handtekin vegna þessa mannshvarfs sem þau komu hvergi nærri og höfðu engar hugmyndir um fremur en aðrir, þá skyldu þau bera sakir á fjóra menn en játa þó jafnframt sakir á sig sjálf. Gestgjafinn á fundinum skyldi þó í byrjun aðeins nefna einn af fjórmenningunum. Þessi áætlun skyldi framkvæmd af þeim öllum í einu, 43 dögum eftir að þau yrðu handtekin og sett í einangrun.     

Annaðhvort trúum við þessu, eða við endurupptökum einnig mál stúlkunnar og finnum haldbetri skýringar á tilurð hinna röngu sakargifta.

TH


Um úrskurð Endurupptökunefndar

 

HRSamkvæmt heimildum fréttastofu mal214.com verður niðurstaða Endurupptökunefndar (E.N) gerð heyrinkunnug innan tíðar og að líkindum í þessari viku. Um er að ræða stærsta sakamál íslandssögunnar, þar sem 6 ungmenni hlutu samtals sextíu ára fangelsisdóm í Hæstarétti Íslands 1980. Þeir sem fara fram á endurupptöku eru dómþolarnir Erla Bolladóttir, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Skaftason. Einnig aðstandendur þeirra Tryggva R. Leifssonar og Sævars M. Ciesielskis, sem eru látnir. Kristján V. Viðarsson hefur ekki gert kröfu um endurupptöku en settur Ríkissaksóknari, Davíð Þór Björgvinsson fer engu að síður fram á endurupptöku á máli hans.
SakbornHver sem niðurstaða E.N. verður, er hér um sögulegan réttarfarsviðburð að ræða.

E.N. hefur haft málið með höndum síðan í júní 2014, hlýtt á málflutning talsmanna endurupptökubeiðenda annarsvegar og metið gegn röksemdum Ríkissaksóknara hins vegar. Nú ber svo við að eftir að hafa kynnt sér þau gögn sem lögð hafa verið fram, þar á meðal verulegt magn nýrra gagna, tekur Ríkissaksóknari undir með talsmönnum endurupptökubeiðenda og mælir með endurupptöku á málinu í heild, öllum þáttum þess, einnig dómum vegna rangra sakargifta.
Með hliðsjón af framansögðu er vandséð hvernig E.N. gæti synjað kröfu um endurupptöku, hún þyrfti þá að leita rökstuðnings fyrir slíkri ákvörðun annars staðar en í þeim gögnum sem málsaðilar hafa lagt fram.
Þess má geta að svo seint sem um miðjan febrúar 2017 komu í leitirnar ný gögn sem fundust í Þjóðskjalasafni. Um er að ræða gögn sem benda til að harðræði hafi verið beitt í meira mæli en áður var talið. Ennfremur sýna sömu gögn að ólögmætum aðgerðum var beitt til að hindra að slíkar upplýsingar yrðu lagðar fram áður en dómur var kveðinn upp.


T.H.

 


Endurupptökunefnd á hálum ís

jondan
Jón Daníelsson skrifar:

Það er auðvitað hárrétt hjá Erlu Bolladóttur að endurupptökunefnd er komin út fyrir verksvið sitt, þegar hún ákveður að bíða eftir mögulegum nýjum upplýsingum um hvarf Geirfinns Einarssonar. Auðvitað væri ljómandi gott ef svo ólíklega færi að þetta óhugnanlega mannshvarf upplýstist á endanum, en það er endurupptökunefnd bara alveg óviðkomandi.

Fyrir því er sú einfalda ástæða, að hið svokallað Geirfinnsmál á ekkert skylt við hvarf Geirfinns Einarssonar og hefur aldrei átt. Bæði Sævar heitinn Ciesielski og Erla Bolladóttir höfðu í rauninni ekki bara eina fjarvistarsönnun heldur tvær. Og án þeirra tveggja var útilokað að Guðjón Skarphéðinsson eða Kristján Viðar Kristjánsson hefðu farið til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974.

Þetta lá fyrir þegar dómar voru kveðnir upp á sínum tíma. Dómararnir hunsuðu afgerandi framburði móður Sævars og systur og þóttust ekki sjá að tímatafla lögreglunnar um Keflavíkurferðina gat ekki með nokkru móti gengið upp. Til að bæta gráu ofan á svart vanræktu þeir að athuga hvort sjónvarpið hefði sýnt tiltekna fréttamynd um vínhneyksli í Frakklandi þetta kvöld. Sævar lýsti atriðum úr myndinni í bréfi til dómaranna um mánuði áður en réttarhöldin hófust og þær lýsingar duga ágætlega til að sanna að hann var að horfa á sjónvarpið á nákvæmlega sama tíma og hann átti að hafa verið að berja Geirfinn með spýtu í Dráttarbrautinni í Keflavík.

Með því einu að láta undir höfuð leggjast að kanna þetta atriði, brutu dómararnir gegn meginreglum sakamálaréttarfars. Þeir gerðust þar með sjálfir sekir um afbrot. Að gögnum málsins skoðuðum (og ég hef svo sannarlega skoðað þau) er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að dómararnir hafi vísvitandi kveðið upp ranga dóma.

Og það er um þetta sem málið snýst. Viðfangsefni endurupptökunefndar er ekki að leysa Geirfinnsmálið. Sé á annað borð gerlegt að upplýsa það, verður það að sjálfsögðu verkefni dómstóla. Viðfangsefni endurupptökunefndar er aðeins eitt og og það er meira að segja tiltölulega einfalt. Að ákvarða hvort lagaskilyrði séu til að taka þessi gömlu sakamál upp að nýju eða ekki. Þessi lagaskilyrði eru heldur ekkert mjög flókin.

* Eru komin fram ný gögn, sem hefðu getað skipt verulegu máli, þegar dómur var kveðinn upp?

* Varð dómurinn sá sem hann varð vegna refsiverðrar háttsemi?

* Er mögulegt eða jafnvel líklegt að gögn málsins hafi á sínum tíma verið rangt metin?

Þetta eru þær meginspurningar sem endurupptökunefnd þarf að svara. Og svörin ættu ekki að þurfa að vefjast neitt verulega fyrir fólki. Þau eru nefnilega já í öllum tilvikum.

Já, það eru komin fram ný gögn, sem hefðu hreinlega átt að hafa úrslitaáhrif.

Já, dómararnir sjálfir gerðust augljóslega sekir um refsiverða háttsemi. Og nokkuð örugglega talsvert fleiri.

Já, gögn málsins voru rangt metin, reyndar svo kolrangt, að þau gögn sem bentu til sýknu voru alls ekki metin. Á megnið af raunverulegum vísbendinum var aldrei lagt neitt mat, heldur létu menn bara eins og öll þessi gögn væru ekki til.

„The question it is this: If James Bentley dit not kill mrs. McGinty, then who did?“

Þessa spurningu lagði Agatha Christie söguhetjunni Hercule Poirot í munn í „Mrs. McGinty‘s Death“. Þessi setning kom mér stundum í hug meðan ég vann að bókinni „Sá sem flýr undan dýri“, sem kom út fyrir skemmstu.

Svo furðulegt sem það er, hefur tilvitnunin þó sótt harðar að mér eftir að bókin kom úr. Ég hef sem sé stöku sinnum verið spurður að því hvort mér hafi „virkilega tekist að leysa Geirfinnsmálið“ eftir öll þessi ár.

En það er munur á skáldskap og veruleika. Skáldskapurinn virðist eiginlega ekki kunna aðra leið til að bjarga saklausu fólki úr snörunni, en þá að sanna sekt einhvers annars. Sakamálasögur eru fínasta skemmtilesning, en það er líka allt og sumt. Veruleikinn er satt að segja oftast dálítið öðruvísi.

Við vinnslu þessarar bókar hvarflaði aldrei að mér að reyna að leysa Geirfinnsmálið. Ég fór vandlega yfir málsgögnin og reyndi að meta þau. Það sem benti til sektar í þessum málum reyndist aldrei hafa verið neitt annað en játningar, sem þvingaðar voru fram með einangrun, lyfjagjöfum, stanslausum yfirheyrslum, offorsi og jafnvel barsmíðum.

Meðal málsgagnanna fann ég á hinn bóginn fjölmargar vísbendingar og jafnvel beinar sannanir fyrir sakleysi sakborninganna. Til viðbótar fann ég reyndar dálitlar upplýsingar, sem ekki höfðu komið fram áður. Það er niðurstaða þessarar vinnu, sem er umfjöllunarefni bókarinnar.

Og viðfangsefni endurupptökunefndar er í rauninni nákvæmlega hið sama. Að fara yfir þessi gögn og meta þau. Það sem kom mér einna helst á óvart var hversu augljós og óhjákvæmileg niðurstaðan hlaut að verða. Og endurupptökunefnd hlýtur fyrir löngu að hafa komist að sömu niðurstöðu.

Þess vegna vekur það furðu að nefndin skuli enn eina ferðina fresta því að kveða upp úrskurð.

Á því hlýtur að vera einhver skýring og hún er kannski ekki endilega mjög langsótt. Það virðist nokkuð augljóst að tregðulögmálið er gríðarlega rótfast innan réttarkerfisins. Það er engu líkara en menn geti hreinlega ekki fengið sig til að viðurkenna, að innan þess kerfis hafi verið gerð mistök, hvað þá að virðulegir dómarar hafi beinlínis brotið af sér.

Og ef nú skyldu allt í koma fram í dagsljósið nýjar vísbendingar um að hvarf Geirfinns hafi borið að með einhverjum allt öðrum hætti, verður þetta kannski léttbærara. Þá verður hægt að vísa til þessara nýju upplýsinga og um leið verður kannski sársaukaminna að viðurkenna að einhver mistök hafi jú greinilega verið gerð fyrir 40 árum.

En endurupptökunefnd getur ekki hummað þetta fram af sér endalaust. Og það gildir einu þótt nefndin kunni að vera undir þrýstingi innan úr réttarkerfinu. Það er algerlega ógerlegt að rökstyðja neina aðra ákvörðun en þá, að málin skuli tekin upp að nýju.

Svo mikið veit ég. Ég hef nefnilega lesið málsgögnin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband