Stærsta skipbrot íslenska réttarkerfisins

HR 1980

Eins og allir eiga að vita er ein af grundvallarforsendum réttlætis í lýðræðisríki þrískipting valdsins, þ.e. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Helstu birtingarmyndir þess á Íslandi eru Alþingi, héraðs- og hæstaréttardómstólar og rannsóknaraðilar (lögregla).

Til þess að forðast mistök og/eða spillingu verða þessir þrír þættir að vera aðskildir með því sem næst vatnsheldum skilrúmum. Það er ekki farsælt að einn geti haft áhrif á hinn til að hagræða aðgerðum eða niðurstöðum. 

Ef svo kann að verða er grafið undan hornsteinum réttarríkisins og afleiðingarnar algerlega fyrirsjáanlegar. 

Því miður er svokallað Geirfinns/Guðmundarmál skólabókardæmi yfir þvílíkt skipbrot réttarríkisins  og þessi mannshvörf aðeins ásteitingarsteinn þessa.

En hlutir gerast ekki án fyrirvara og Guðmundar og Geirfinnsmál varð ekki til úr engu. Mergurinn málsins var að það hafði þegar verið átt við skilrúm valdakerfisins og gerð þar á glufa sem hlaut auðvitað að enda með stórslysi. 

Í upphafi 8. áratugarins hafði þáverandi dómsmálaráðherra komið á laggirnar svokölluðum fíkniefnadómstól, dómstóll skipuðum sérstökum dómara sem jafnframt sá um rannsóknir á ætluðum brotum á fíkniefnalöggjöf sem var í smíðum.OlafurJohannesson1913

Þetta kann að virka lítilvægt við fyrstu sýn, en var svo afgerandi þegar Guðmundar og Geirfinnsmál fóru á flug. Með stofnun fíkniefnadómstólsins, þar sem sami aðili rannsakaði og dæmdi sakborninga var komið hættulegt fordæmi. Fíkniefnadómarinn gat sem sagt rannsakað málin algerlega á eigin forsendum og dæmt síðan í þeim sjálfur. Sjálfsagt hafa margir aðrir dómarar litið þennan gjörning hornauga, eða öfundaraugum, en viðbrögð valdhafa og almennings voru lítil eða engin, enda var viðnám og kvartanir dæmdra sakborninga metið léttvægt.

Þegar Guðmundar og Geirfinnsmál kom til skjalanna höfðu slúðursögur gengið um samfélagið í rúmt ár. Örlög þessara tveggja manna virtust algjör ráðgáta og engin skýring sennilegri en önnur. Tilviljun réði því að eftir að leit/rannsókn á hvarfi Guðmundar Einarssonar var lögreglan í Keflavík að rannsaka hvarf Geirfinns Einarssonar. Þar á bæ höfðu menn metnaðarfulla einstaklinga sem voru fullir bjartsýni fyrst í stað, en svo fjaraði hratt undan öllum stóru yfirlýsingunum þegar frá leið. Tilburðir við rannsóknina voru líka með ólíkindum, þar átti helst að styðjast við lýsingu á grunsamlegum manni sem hringdi símtal úr Hafnarbúðinni í Keflavík. Búin var til leirmynd af grunsamlegum manni, en við smíði hennar var notast við ljósmynd af þekktri persónu en ekki lýsingu vitnis. Engu líkara en væri verið að hanna persónur og atburði. Við skoðun gagna úr þessum rannsóknum sést líka að lögreglan var komin með ákveðna hugmynd um atburði en vantaði aðeins persónur til að fylla í gefin hlutverk. Engar rannsóknir voru vitanlega gerðar á símanotkun á heimili Geirfinns Einarssonar, né um ferðir leigubíla á svæðinu eða báta og skipa. Bíll ge fannst örskammt frá en rannsókn á honum skilaði engu,- var hann læstur? Voru engin fingraför í eða á honum?

Við mannshvörf er líka oftast horft til þeirra sem síðast sáu viðkomandi,- hvernig var þeirri rannsókn háttað? Það fáum við aldrei að vita. Greinilegt var að rannsakendur höfðu sameiginlega skapað sér raunverulega hugmynd um hvarf Geirfinns Einarssonar, en höfðu þó enn ekki burði til að setja hana hreint fram. Þessir Keflvísku rannsóknarmenn höfðu sumir hverjir sterk ítök hjá lögreglunni í Reykjavík og gátu vel miðlað skoðunum sínum og hugmyndum þar á bæ. Ekki síst hjá fíkniefnadómstólnum.

Það var því engin tilviljun þegar Erla Bolladóttir var spurð hvort hún vissi hvort Sævar vinur hennar hefði ekki þetta mannshvarf á samviskunni. Hún hafði verið handtekin vegna annara rannsókna, en þegar átti að láta hana lausa eftir yfirheyrslu þótti rétt að láta þessa spurningu fljóta með í lokin. Erlu langaði greinilega svo mjög útí frelsið að hún sagði bara það sem menn vildu heyra. Sama hvað. Og þar með var fjandinn laus.

Rannsóknarmönnum fannst eins og þeir hefðu fundi gull. Hér var komið hálmstrá sem vert var að halda í, kannski var einhver fótur fyrir öllum sögusögnum, komin skýring á atburðum sem höfðu legið eins og mara ekki bara á aðstandendum og almenningi, heldur dómsmálaráðherra og lögreglu, en það var meðal annars vegna slúðursins í dagblöðums.

Athugið að þetta er á tímum þar sem fólk fær allar sínar upplýsingar frá ríkisútvarpinu, úr 4 flokksblöðum eða tveimur síðdegisblöðum sem börðust grimmilega um hylli lesenda með því að ganga fram hvort af öðru. Síðdegisblöðin voru óhrædd að birta alls konar bull og þvælu fyrir lesendur ef það seldi fleiri blöð. Slúðurfréttir af Guðmundar og Geirfinnsmál skiptu þar tugum eða hundruðum.

Fljótlega eftir að Guðmundar og Geirfinnsmál komast í rannsókn í Reykjavík er Keflavíkurmönnum sparkað og illu heilli stofnaður rannsóknardómstóll fyrir þetta sérstaka mál. Fyrirmyndin er þegar til staðar og nú gefst mönnum tækifæri á því að láta hugmyndir sínar verða að veruleika með nánast óskorað vald.

Uppskriftin að lausn málsins var mjög einföld: Grunaður sakborningur verður hafður í einangrun frá tilverunni þangað til dómstóllinn er sáttur við lýsingar hans á fyrirfram mótaðri hugmynd sinni!

Eins og reyndin varð gekk þetta þó ekki átakalaust fyrir sig - vegna fjölda ætlaðra sakborninga og engra sönnunargagna né hlutlausra vitna virtist þetta allt komið í hnút eftir ár af einangrun. 

Ein slúðursagan sprakk líka í andlit rannsakenda, þá átti að fullkomna heildarmyndina með því að draga 4 blásaklausa menn inn í samskonar meðferð og ungmennin höfðu fengið. Það tókst þó sem betur fer ekki, hvort tilviljun réði því eða að þar áttu rannsakendur við örlítið þroskaðri menn, menn sem létu ekki kveða sig í kútinn, þó ekki hafi miklu mátt muna. 

Þegar rannsóknardómari var orðinn ráðalaus, þáverandi dómsmálaráðherra í miklum vanda vegna þessa máls og annara var gripið til þess ráðs að fá til halds og trausts útlendan mann, Þjóðverja að nafni Karl Schütz sem hafði starfað við rannsóknir á glæpum hryðjuverkamanna í Þýskalandi. Sá hafði getið sér gott orð í þeim starfa en var nú kominn á eftirlaun og eftir ýmsum pólítískum krókaleiðum var haft upp á honum og gefið færi á að bjarga misheppnaðri íslenskri glæparannsókn sem hafði siglt í strand. 

Það var mikið í húfi. Ferill og framtíð dómsmálaráðherra var í hættu, skipaður rannsóknardómari leit mjög illa út í samhenginu og ótaldir lögreglumenn og aðrir sem höfðu kastað sér yfir málið virtust algerir aular. Í raun og veru stóð ekki steinn yfir steini í rannsókn málsins. Augljóst stjórnarskrárbrot við skiptingu valdsins hafði gert þetta mögulegt. Það hafði leyft rannsóknardómstólnum að ganga lengra en annars í aðgerðum og harðræði sem flestir voru beittir, hvort sem voru ætluð vitni eða sakborningar. 

SchützNiðurstaða Þjóðverjans var því augljóslega pöntuð vara, stimpill óhlutdrægs aðila sem enginn Íslendingur gat véfengt. Allt til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Að lokum drógst allt réttarkerfi Íslands með á þessu feigðarfleyi, siglingu sem hófst á kæruleysilegu svari Erlu við lúmskri spurningu lauk með endanlegu skipbroti íslenska réttarkerfisins í hæstarétti.

Niðurstaða:

Þrískipting valdsins er grundvallaratriði í lýðræðislegu réttarfari. Öll frávik frá þeirri reglu er uppskrift að óleysanlegum vandamálum við réttláta stjórnsýslu.

Ef menn hafa áhuga á glæparannsóknum og vilja kynna sér málið í hnotskurn er hægt að lesa málsskjölin á síðum mal214.com 

 

Svíþjóð, 2017

G.Einarsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband