Um úrskurð Endurupptökunefndar
Mánudagur, 20. febrúar 2017
Samkvæmt heimildum fréttastofu mal214.com verður niðurstaða Endurupptökunefndar (E.N) gerð heyrinkunnug innan tíðar og að líkindum í þessari viku. Um er að ræða stærsta sakamál íslandssögunnar, þar sem 6 ungmenni hlutu samtals sextíu ára fangelsisdóm í Hæstarétti Íslands 1980. Þeir sem fara fram á endurupptöku eru dómþolarnir Erla Bolladóttir, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Skaftason. Einnig aðstandendur þeirra Tryggva R. Leifssonar og Sævars M. Ciesielskis, sem eru látnir. Kristján V. Viðarsson hefur ekki gert kröfu um endurupptöku en settur Ríkissaksóknari, Davíð Þór Björgvinsson fer engu að síður fram á endurupptöku á máli hans.
Hver sem niðurstaða E.N. verður, er hér um sögulegan réttarfarsviðburð að ræða.
E.N. hefur haft málið með höndum síðan í júní 2014, hlýtt á málflutning talsmanna endurupptökubeiðenda annarsvegar og metið gegn röksemdum Ríkissaksóknara hins vegar. Nú ber svo við að eftir að hafa kynnt sér þau gögn sem lögð hafa verið fram, þar á meðal verulegt magn nýrra gagna, tekur Ríkissaksóknari undir með talsmönnum endurupptökubeiðenda og mælir með endurupptöku á málinu í heild, öllum þáttum þess, einnig dómum vegna rangra sakargifta.
Með hliðsjón af framansögðu er vandséð hvernig E.N. gæti synjað kröfu um endurupptöku, hún þyrfti þá að leita rökstuðnings fyrir slíkri ákvörðun annars staðar en í þeim gögnum sem málsaðilar hafa lagt fram.
Þess má geta að svo seint sem um miðjan febrúar 2017 komu í leitirnar ný gögn sem fundust í Þjóðskjalasafni. Um er að ræða gögn sem benda til að harðræði hafi verið beitt í meira mæli en áður var talið. Ennfremur sýna sömu gögn að ólögmætum aðgerðum var beitt til að hindra að slíkar upplýsingar yrðu lagðar fram áður en dómur var kveðinn upp.
T.H.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning