Nokkrar tilvitnanir
Miðvikudagur, 17. september 2008
"Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Reyndar tek ég undir með hæstv. dómsmrh. að slíkir hlutir gætu ekki gerst í dag eins og þarna gerðust. En þeir gerðust. Ég held að þó að það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn."
"mér hefur verið falið
að flytja yður þessi tíðindi
án þess ég ætli sjálfum mér
að uppskeru nein fríðindi
ég hef verið hér ég hef villst þar
og jafnvel víðar
það var enginn ekki neinn
þessa nótt á dráttarbrautinni
né heldur síðar"
"Það er hagsmunamál okkar allra að að hreinsað verði til í því réttarkerfi sem nú hefur reynst vera í senn svo feyskið og þó svo rammlega víggirt, og kórdrengjunum verði úthýst úr þeirri fermingarveislu sem er í raun lokið í hugum allra annara en þeirra sjálfra. En hvort heldur formlegt réttlæti næst fram eður ei, þá mun framtíðin fella sinn dóm og sá verður harður."
"Í raun og veru hefur aldrei verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnin við hvarf þessara tveggja manna. Fjöldi fólks hefur horfið á undanförnum áratugum á Íslandi án þess að skýringar hafi fundist. Mér finnst eins standa á um þessa tvo menn."
"Þegar háttsettir embættismenn bregðast svo hrapalega sem Hæstiréttur gerði í þessu máli og er síðan umbunað af vinum sínum í lögmannafélaginu með tuttugu prósenta launahækkun, þá ber íslenskum almenningi að láta í sér heyra."
"Gallinn við Geirfinns- og Guðmundarmálin er sá, að þau eru enn óupplýst. Ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun, að það nægi varla til sakfella menn fyrir morð, að fyrir liggi játning þeirra, sem þeir hafa síðan tekið aftur, en hvort tveggja vantar, líkið af hinum myrta og einhver skiljanleg ástæða til verknaðarins. Það hefur aldrei tekist að sanna, að þeir Geirfinnur og Guðmundur hafi í raun verið myrtir. Fólk hverfur, án þess að það hafi verið myrt."
"Endurupptökumálið snýst ekki bara um endurupptöku. Það snýst ekki bara um það hvort saklaust fólk hafi verið dæmt. Ef horft er aðeins lengra fram kemur í ljós að þetta mál snýst jafnframt um "starfsheiður" þeirra manna sem unnu að rannsókninni og dæmdu í málinu."
"Einangrun óráðleg lengur en 3 - 4 vikur"
"Hann var hafður í hámarkseinangrun í tvö ár. Ljós var látið loga í klefanum allan sólarhringinn, vikum saman. Haldið var vöku fyrir honum með háreysti og ryskingum. Honum var meinað um útivist og sviptur tóbaki, lesefni og skriffærum mánuðum saman. Tvívegis var hann hafður í fótjárnum í sex vikur alls og í níu mánuði þurfti hann að vera án sængurfatnaðar. Hann var hafður á sterkum lyfjum, þunglyndis- og vöðvaslakandi án þess að gangast undir læknisskoðun sérfræðings. Þegar hann losnaði úr einangruninni var hann því sem næst mállaus sökum fásinnis. (-) Hæstiréttur Íslands lét hafa sig í það að flokka slíka meðhöndlun ekki undir harðræði."
"Kom sannleikur málsins nokkurn tíma í ljós?
Ein leiðin til að svara þeirri spurningu er að setja sig í spor dómaranna og líta á málsgögnin hlutlausum augum."
"Þótt snærisþjófur frá Akranesi hafi að lokum verið sýknaður af gamalli ákæru yfirvalds um að myrða böðul Sívert Snorresen, kallaður frjáls maður og sendur aftur til Íslands, eru ekki allir sýknaðir í Hæstarétti. Og það er eðlilegt. Hitt er jafneðlilegt og hlýtur að vera hluti af réttindum þegnanna, að óháður aðili kveði upp dóm, ef um dómstól er að ræða, eða taki stjórnvaldsákvörðun ef um stjórnvald er að ræða, um það hvort efni séu til að endurupptaka mál eður ei, og ekki síst að dómendur séu alltaf dómendur en ekki stundum stjórnvald."
"Þegar málið kom fyrir Sakadóm og síðar Hæstarétt vað það löngu hætt að vera venjulegt sakamál sem snerist um sannanlega sekt sakborninga. Ef sakborningar hefðu fengið að njóta þess mikla vafa sem leikur á sekt þeirra og skort á sönnunum hefðu dómarnir í raun fellt ægi þungan dóm yfir íslensku réttarkerfi."
"Maður líttu þér nær... Og skammist ykkar svo til að taka mál 214 upp aftur svo hreinsa megi þá einstaklinga sem þar voru bornir röngum sökum og þjóðina alla af þeirri svívirðu sem Guðmundar-og Geirfinnsmálin voru í heild sinni."
"Dæmt af fullkomnum vanefnum"
"Menn hafa játað til að komast úr gæsluvarðhaldi"
Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur
"Dómur féll í Geirfinnsmáli 22. Febrúar 1980. Þó einstaka "kverúlanti" þætti á þeim tíma að seilst væri um skör fram í að dæma menn seka án fullnægjandi gagna, ríkti einhugur með þjóðinni um að dæma skyldi. Hvatinn að þessari samstöðu íslendinga var þó fremur sá að þjóðin var langþreytt á þessu vafstri, en að fólk hefði raunverulega skilning á málatilbúnaðinum. Hafi venjulegir íslendingar dottað yfir hinni 15 klst. löngu sóknarræðu ríkissaksóknara gátu þeir varla efast um að öllum spurningum hafi þar verið svarað. Almenningur treysti einfaldlega fagmönnum til verksins."
Bloggar | Breytt 18.9.2008 kl. 04:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Var jarðað eða skírt ?
Miðvikudagur, 17. september 2008
Um þær mundir sem endurupptökubeiðni SMC var tekin fyrir af Hæstarétti heyrðust fljótlega þær raddir að Hæstiréttur Íslands kæmi fram sem stjórnvald í þessu máli. Um yrði að ræða stjórnvaldsákvörðun en ekki dómsathöfn. Engar raddir heyrðust mæla þessu fyrirkomulagi bót, hins vegar fylgdi gagnrýni þeirri sem fram kom á þetta þær upplýsingar að aðeins tvö Evrópuríki: Ísland og Tyrkland byggju við slíkt fyrirkomulag. Minnst var á þetta m.a. í umræðuþættinum "Undir sönnunarbyrðinni" í ríkissjónvarpinu og mátti þar heyra á dómsmálaráðherra, Þorsteini Pálssyni að hann áliti að þetta ríkjandi fyrirkomulag þarfnaðist etv. endurskoðunar. Lögfræðingar tjáðu sig um þetta í fjölmiðlum, t.d. skrifaði Baldvin Haraldsson grein í Mbl: "Réttindi þegnanna og æðri stjórnvöld"Það sem allir virtust hinsvegar vissir um; lögfræðingar, fræðimenn og Dómsmálaráðherra var: Að þetta væri stjórnvaldsákvörðun.Það þótti því óneitanlega nokkur tíðindi þegar, í lok sept.1997, u.þ.b. 3 mánuðum eftir að HR skilaði úrlausninni, barst talsmanni SMC bréf frá forseta Hæstaréttar, þess efnis að um hefði verið að ræða dómsákvörðun en ekki stjórnsýsluákvörðun. Það er vissulega utan þekkingarsviðs þess leikmanns sem hér ritar, að útskýra til neinnar hlítar mun á stjórnvaldsákvörðun og dómsákvörðun. Það er þó ljóst að gagnvart þeim sem endurupptöku óskar er munurinn m.a. sá, að ákvörðun stjórnvalds má kæra til umboðsmanns Alþingis en dómsákvörðun Hæstaréttar er endanleg og verður ekki áfrýjað, amk. ekki innanlands. Grein Ragnars Halldórs Hall í Úlfljóti 3.tlbl. nefnist "Er þörf á breytingu efnisreglna laga um heimildir til endurupptöku dæmdra opinberra mála" Í greininni kemst Ragnar að þeirri niðurstöðu að svo geti verið og segir: "Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að rétt sé að huga að því, hvort ástæða sé til að breyta reglum um meðferð endurupptökubeiðna. Þar á ég við, hvort rétt kunni að vera að leysa úr endurupptökukröfu með dómi í stað þess að fjalla um hana sem stjórnsýsluákvörðun"Með þessum ummælum Ragnars Hall virðist ljóst að hann álítur enn eftir að úrlausn HR liggur fyrir að um hafi verið að ræða stjórnvaldsákvörðun. Þar sem í ljós kom með bréfi forseta Hæstaréttar til talsmanns SMC í septemberlok að svo var ekki vaknar í huga leikmanns spurningin: Var meðferð málsins fyrir Hæstarétti ekki í samræmi við efnisreglur laga um heimildir til endurupptöku dæmdra opinberra mála? Skv. ummælum Ragnars Hall virðist svo ekki vera. Eins og bent hefur verið á hafa ýmsir lögfróðir menn tjáð sig um þetta atriði. Það hafa einnig ýmsir leikmenn gert. Haft er eftir einum slíkum: "Biskup jarðsöng mann við hátíðlega athöfn. Á fremsta bekk í kirkjunni sátu ráðherra kirkjumála, prestar og sérfræðingar í kirkjulegum athöfnum og fylgdust með í andagt sem og almenningur á aftari bekkjum. Þremur mánuðum síðar barst bréf frá biskupnum, þess efnis að í raun hefði ekki verið um að ræða útför mannsins, heldur hafi í raun verið um skírnarathöfn að ræða, maðurinn verið skírður Jón. T.H.Í grein sinni í Úlfljóti segir Ragnar Aðalsteinsson m.a:"Um meðferð málsins fyrir Hæstarétti og niðurstöðu Hæstaréttar er það að segja að augljóslega var ekki um dómsmeðferð að ræða í þeim skilningi sem lagt er í það hugtak nú. Sjö manna nefnd var falið að fara með málið, skipuð sex dómurum Hæstaréttar og einum héraðsdómara. Beiðni SMC var aðeins tekin fyrir á einum stuttum bókuðum fundi þessara sjö nefndarmanna, er 250 blaðsíðna löng úrlausnin var lögð fram og samþykkt sem úrlausn en ekki dómur. Þar af leiðandi er ekki vitað hvernig haldið var á málinu fram að því og hverjir tóku þátt í málsmeðferðinni á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði ekki um það sjónarmið, að SMC ætti rétt á málsmeðferð fyrir dómi, en ekki stjórnvaldi. Hæstiréttur fór með málið sem stjórnvald, en braut jafnframt margar af meginreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem rannsóknarregluna. Nefndarmennirnir sjö virðast því hvorki hafa gætt sjónarmiða réttarfars né stjórnsýslureglna. Hæstiréttur skipaði SMC talsmann en ekki verjanda við meðferð málsins. Dómsmálaráðherra fól settum ríkissaksóknara að fara með málið af ákæruvaldsins hálfu. Sá meinaði talsmanni SMC um aðgang að þeim gögnum sem voru í fórum ríkissaksóknara á þeim forsendum m.a. að óljóst væri hver staða talsmannsins væri í málinu. Settur ríkissaksóknari tók ekki að sér sjálfstætt né í samvinnu við talsmann að afla gagna til að leiða í ljós m.a. þau atriði sem horfðu SMC til sýknu eins og honum ber að gera við rannsókn máls og meðferð fyrir dómi skv. 31.gr. laga nr.19/1991 heldur skildi hlutverk sitt þannig að hann ætti að verja þá meðferð og þá úrlausn sem fyrir lá við upphaf endurupptökumeðferðar."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kirkjan og mál 214
Miðvikudagur, 17. september 2008
Um þessar mundir sem endranær, fara fram umræður á breiðum grundvelli um stöðu kirkjunnar sem stofnunar og afstöðu hennar til ýmissa mála. Íslenska þjóðkirkjan hefur sýnt það á ýmsum sviðum að hún er frjálslynd og umburðarlynd stofnun. Þó afstaða stofnunarinnar til samkynhneigðra og grínista hafi að sumra áliti ekki alltaf sýnt þetta frjálslyndi í raun, eru önnur atriði sem virðast taka af öll tvímæli þaraðlútandi. Dæmi um slíkt er afstaða stofnunarinnar til eins af sínum eigin þjónum. Vestur á Snæfellsnesi starfar um þessar mundir prestur nokkur sem nýtur mikillar hylli, bæði meðal sóknarbarna sinna og annara sem til starfs hans þekkja. Þessi ágæti prestur var fyrst skipaður í embættið, síðan kosinn með fáheyrðum yfirburðum og hlaut vígslu 30.júní 1996. Ekki væri þetta í frásögur færandi nema etv. vegna þess að 22. febrúar 1980 varð þessi ágæti maður fyrir því óláni ásamt fjölda annara að vera dæmdur af Hæstarétti Íslands í frægasta sakamáli Íslandssögunnar. Þar sem þessi sorglega staðreynd varð ekki að neinu leyti til að torvelda Biskupi að veita prestinum blessun til starfans, væri fróðlegt að fá fram afstöðu kirkjulegra yfirvalda til mannsins og þess fræga sakamáls sem hann var dæmdur í. Í fljótu bragði mætti ætla að kristilegt umburðarlyndi kirkjunnar sé slíkt að það þarfnist engrar umræðu að maður með slíkan dóm hljóti prestvígslu. Fyrirgefning syndanna sé nokkuð sem öllum veitist fyrir náð Drottins, að því tilskyldu að menn játi og iðrist. En þar sem umræddur kirkjunnar þjónn hefur gert hvorugt, heldur lýst því í helstu fjölmiðlum hvernig hann var með einangrun og geðlyfjagjöf þvingaður til að játa glæpi sem hann kom hvergi nærri, getur aðeins verið ein skýring á fálæti kirkjulegra yfirvalda hvað varðar þetta mál:
Að stofnunin hafi ekki fremur en aðrir trú á málatilbúnaði á hendur þessum manni hér fyrr á öldinni í svonefndu Geirfinns og Guðmundarmáli. Með hliðsjón af framansögðu er það eðlileg og skýlaus krafa til Ráðherra kirkjumála að hann skipi sér þegar í stað í fylkingarbrjóst í baráttunni fyrir endurupptöku fyrrnefndra þátta Hæstaréttarmáls 214/1978.
Tryggvi Hübner.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér er komið að því.
Miðvikudagur, 17. september 2008
Hér er komið að því að opna Bloggsíðu um "mál214" eins og það er stundum nefnt, Hæstaréttarmálið nr. 214/1978 , eða "Guðmundar og Geirfinnsmál"
Tilgangur bloggsins er fyrst og fremst að skapa vettvang fyrir umræðu um þessi alræmdu og umdeildu sakamál. Í tenglasafni hægra megin á forsíðu bloggsins er aðgangur að gífurlegu magni upplýsinga um málið, t.d. Dómi Hæstaréttar frá 1980, úrlausn Hæstaréttar um endurupptökubeiðni 1997, þingræður um málið og fjölda aðsendra greina frá leikum sem lærðum. Mestur fengur fyrir áhugamenn um þessi mál er þó ótvírætt í því að nú er hægt að nálgast öll þau málsskjöl sem lögð voru fyrir Sakadóm í PDF formi. Semsagt ekki bara dóm Hæstaréttar, heldur öll rannsóknargögnin 24 bækur.
Áhugasömum er vinsamlegast bent á að hér er um nokkuð stór skjöl að ræða, (100 til 200 Mb hver bók) enda telja þessi skjöl þúsundir blaðsíðna.
Lesendum bloggsins gefst kostur á að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri í formi athugasemda. Þar sem um er að ræða viðkvæm og erfið mál fyrir marga, er þeim tilmælum beint til lesenda að þeir gæti hófs í yfirlýsingum og almenns velsæmis í orðavali í athugasemdum sínum. Til að skrifa athugasemdir þarf að vera innskráður í blogg kerfið eða fara inn á staðfestingarslóð sem berst í tölvupósti. Allar IP tölur eru skráðar. Ritstjórn áskilur sér rétt til að fjarlægja athugasemdir ef þær innihalda persónulegar árásir að nafngreindum mönnum, sér í lagi ef skrifað er undir nafnleynd. En allri málefnalegri umræðu um þessi mál er fagnað.
Sé um að ræða umfangsmiklar greinar sem ekki komast í athugasemdadálka bloggsins er þeim sem vilja koma slíku á framfæri bent á að senda þær á netfangið:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)