Sævar Ciesielski er dáinn. Hann lést af slysförum í Kaupmannahöfn aðfararnótt miðvikudags, en þar hafði hann verið búsettur undanfarin ár.
Þetta er sorglegur dagur, ekki aðeins fyrir ættingja Sævars, vini og kunningja, heldur og fyrir þá sem reyna að halda í trú á réttlæti í þessu landi.
Saga Sævars var í örstuttu máli svona:
Hann ólst upp við heldur erfiðar aðstæður og var um tíma vistaður á því alræmda barnahæli Breiðuvík.
Um tvítugt var hann smákrimmi í Reykjavík.
Þá blönduðust hann og nokkrir kunningjar hans á einhvern furðulegan hátt inn í rannsókn á tveim mannshvörfum, og lögreglan ákvað að Sævar og félagar hefðu drepið báða mennina.
Í reynd var nákvæmlega ekkert sem benti til þess, auk þess sem ekki er einu sinni víst að mennirnir tveir Geirfinnur og Guðmundur hafi endilega verið drepnir.
Einu sönnunargögnin voru mjög mótsagnakenndar játningar sem tókst að fá upp úr ýmsum sakborningum á ýmsum tímum, yfirleitt eftir mjög langa einangrun í fangelsi eða alls konar þvinganir aðrar.
Málatilbúnaðurinn var í raun fullkomlega fráleitur en af ýmsum ástæðum hentaði það yfirvöldunum að afgreiða málin með því að koma sök á Sævar og félaga.
Sævar var útmálaður sem eitthvert versta fól Íslandssögunnar, ígildi Axlar-Bjarnar.
Þegar Sævar var kominn í fangelsi, um 1980, sagði hann sögu sína í bókinni Stattu þig strákur.
Þar má nefna að hann sagði sannleikann um heimilið að Breiðuvík og ef einhver hefði verið reiðubúinn að hlusta, þá hefðu þeir drengir sem þar liðu þjáningar ekki þurft að bíða í 30 ár eftir því að fá að segja sögu sína, og fá einhvers konar úrlausn sinna mála.
En enginn hlustaði náttúrlega á Sævar Ciesielski, hinn forherta glæpamann!
Eftir að Sævar losnaði úr fangelsi hóf hann, flestum á óvart, mikla baráttu fyrir því að mál hans og félaga yrðu endurupptekin.
Hann stóð einn tugthúslimur, fyrrverandi smáglæpamaður, dæmdur morðingi, úthrópað illmenni! gegn gervöllu íslenska kerfinu sem ætlaði sko ekki að viðurkenna mistök!
Með hjálp frá nokkrum góðum manneskjum tókst Sævar að koma endurupptökubeiðni fyrir Hæstarétt.
Þá var orðið deginum ljósara að á Sævari og félögum höfðu verið framin skelfileg réttarmorð.
Meira að segja Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra viðurkenndi það í ræðustól á Alþingi.
En enginn var samt til í að GERA neitt. Hæstiréttur hafnaði beiðni um endurupptöku.
Það dugði ekki að sýna fram á að rannsókn málsins var rugl, meðferð þess hraksmánarleg og niðurstaðan augljós og svívirðileg skopstæling á réttlæti.
Lesið bara málsskjölin.
Í bókinni Ísland í aldanna rás 1900-2000 skrifaði ég nokkrar samantektir um málið það gæti dugað sem inngangur fyrir þá sem ekki þekkja til.
Margar aðrar heimildir eru til, og þær sýna allar sömu niðurstöðu.
En Hæstiréttur blés á þetta allt saman, og hafi hann ævarandi skömm fyrir.
Hið ofurmannlega átak Sævars Ciesielski mátti sín einskis.
Kerfið hugsaði um sína að ekki skyldi falla blettur á orðstír þeirra sem um málið véluðu.
Það skipti engu máli þótt líf Sævars og félaga hefði verið eyðilagt.
Það skipti engu máli þótt réttlætisgyðjan hefði fengið á sig risastóran drullublett.
Það skipti engu þótt réttarfarið í landinu væri stórlega flekkað.
Bara ef ekki yrðu viðurkennd mistök kerfiskalla og klíkubræðra.
Bara ef nokkrir fauskar fengju að hverfa til feðra sinna án þess að horfast í augu við réttarmorðið sem þeir tóku þátt í fremja á nokkrum ungmennum.
Svei, osvei.
Sævar íhugaði um tíma að reyna að halda baráttunni áfram, en hafði ekki þrek til þess og skyldi engan undra.
Menn reyndu að halda málinu gangandi eftir það, en með litlum árangri.
Kerfið virtist staðráðið í að hreyfa ekki málinu kannski ekki fyrr en allir málsaðilar væru dánir.
Og málið væri bara orð á gömlu blaði, en engar manneskjur kæmu við sögu.
Eftir ríkisstjórnarskipti 2009 vonaði ég satt að segja að eitthvað myndi gerast.
Með nýjum dómsmálaráðherrum sem komu úr öðru umhverfi en flestir hinir fyrri, fyrst Ragna Árnadóttir, svo Ögmundur Jónasson.
En það gerðist ekkert.
Og nú er Sævar dáinn.
Ég þekkti Sævar svolítið og auðvitað var hann alls ekki heilagur maður. Langt frá því.
En hinar betri hliðar hans sýndu opinn og glaðlyndan persónuleika. Hann var gáfaður, forvitinn og naskur og vildi fólki vel.
Hann reyndi að standa sig sem manneskja þótt stundum væri við ofurefli að etja.
Og í honum bjó meiri vilji til réttlætis en í mörgum samanlögðum íslenskum réttarkerfisfauskum.
Nú hafa þeir staðið Sævar Ciesielski af sér, og anda sjálfsagt léttar.
Ég votta aðstandendum hans innilega samúð.
Hann hefði átt að vinna.