Sakbending fjögurra vitna
Mánudagur, 20. júlí 2015
Fjögur vitni sáu manninn sem hringdi. Í dómi HR 1980 er fjallað um þau:
- Um vitnið Á.E.G. segir:
Vitnið mætti tvisvar í sakbendingu hjá lögreglu en ekki sá það neinn í þeim hópum manna sem það taldi sig geta bent á sem mann þann sem komið hefði í Hafnarbúðina umrætt sinn og hringt.
- Um vitnið H. B. Ó. segir :
Vitninu voru sýndar myndir af Kristjáni, Sævari og Guðjóni. Vitnið kveðst ekki geta staðhæft hvort einhver þeirra hafi komið í Hafnarbúðina til að hringja.
- Um vitnið J.G. segir:
Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari. Vitnið kveðst ekki geta sagt um hvort þessir menn hafi komið inn í Hafnarbúðina.
- Um vitnið G.K.J. segir:
Vitnið kveðst hafa mætt í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu en ekki hafa séð neinn mann þar, sem það taldi vera umræddan mann. Það kveðst hafa séð að Kristján Viðar var í hópnum við sakbendingu en það hafði séð hann áður og vissi hver hann var. Vitnið segir að framangreindur maður hafi ekki verið Kristján Viðar.
Ekki var um fleiri vitni að ræða en þessi fjögur samhljóða vitni. Með framburði þeirra er ljóst að það var enginn sakborninganna sem hringdi í Geirfinn að kvöldi 19. nóv. 1976. Hér liggur fyrir stöðugur og samhljóða framburður fjögurra vitna þess efnis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lausn póstsvikamálsins
Sunnudagur, 19. júlí 2015
Póstsvikin fóru fram 28. ágúst og 18. október 1974.
Fyrra póstsvikamálið var kært 6. nóvember 1974 og hið seinna 9. nóv. Lögreglumaðurinn N.S. hóf þegar rannsókn, tók í framhaldinu ýmsar skýrslur af starfsmönnum á útibúum Pósts og Síma í Umferðarmiðstöðinni í Reykjavík og útibúi P&S á Selfossi.
Samkvæmt þessari vinnuskýrslu N.S.frá desember 1974, liggur lausn póstsvikamálsins fyrir ári áður en sakborningar voru handteknir og yfirheyrðir um mannshvörf. A.m.k. 4 vitni benda á mynd af E.B.
Hlýtur þá að vakna spurningin:
Hversvegna voru hin grunuðu ekki handtekin fyrr en ári síðar ?
Og hversvegna voru þau þá yfirheyrð um mannshvarf sem engin gögn bentu til að þau væru viðriðin ?
Bloggar | Breytt 20.7.2015 kl. 04:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alþýðublaðið 9.janúar 1976
Sunnudagur, 19. júlí 2015
Þessi frétt birtist í Alþýðublaðinu 9. jan. 1976:
Fyrsta skýrsla stúlkunnar kom þó ekki fyrr en 22. jan 1976. Hvergi hefur komið fram hvaðan sú hugmynd kom að ræða mannshvarfið í Keflavík við hana. Af ýmsum gögnum má þó ráða að málið hafði mikið verið rætt við hana á heimili hennar meðan hún var laus úr gæsluvarðhaldi um og eftir jól 1975.
Þessi frétt birtist 12 dögum áður en fyrsta skýrsla sakbornings kom fram í málinu. Alla tíð hefur því verið haldið fram af rannsóknarmönnum, ákæruvaldi og nú síðast í úrskurði setts saksóknara 2015, að fyrsti framburður stúlkunnar hafi komið fyrirvaralaust og að hennar frumkvæði 22.jan. Samkvæmt þessari frétt er það ekki svo, heldur var vinna þá þegar hafin við að tengja þessi mál saman.
Bloggar | Breytt 20.7.2015 kl. 04:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1. júní 2015
Mánudagur, 1. júní 2015
Í dag, fyrsta júní 2015 er liðinn sá frestur sem settur saksóknari, prófessor Davíð Þór Björgvinsson fékk, til að skila niðurstöðu vegna kröfu Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar um endurupptöku á HR máli 214/1978. Heimildir herma að í dag megi vænta niðurstöðu hvað varðar mál Erlu og Guðjóns en Davíð Þór hefur unnið að málinu frá 3. október 2014.
Þvíer ekki úr vegi að velta fyrir sér framhaldinu.
Í grein Mbl 3. okt 2014 er fjallað um ummæli Davíðs í umræðuþættinum Undir sönnunarbyrðinni á RUV 1997.:
"Það sem einkennir þetta sakamál er það að niðurstaðan er nánast eingöngu byggð á játningum sakborninga. Það er reynt með ýmsum hætti að styðja þessar játningar sýnilegum sönnunargögnum, og það gengur mjög illa. Þetta er allt mjög rækilega rakið í héraðsdóminum og tekið svo til orða að þessi sýnilegu sönnunargögn, önnur en játningar sakborninga, tengi ekki sakborninga með óyggjandi hætti við þessa atburði." "Kjarninn er þessi: Þetta mál hangir allt á þessum játningum, og því skiptir það höfuðmáli þegar verið er að meta það hvort skilyrði séu til fyrir endurupptöku, að það komi fram nýjar upplýsingar til viðbótar þeim sem lágu fyrir þegar dómarnir voru kveðnir upp sem sýni það og sanni að það hafi verið stórfelldar brotalamir við rannsókn málsins. Þegar ég sagði að Hæstarétti yrði vandi á höndum, þá átti ég einfaldlega við það, að það kann að koma upp sú staða að það verði mjög erfitt fyrir þá að endurupptaka málið ekki"
Davíð sagði einnig að útlit væri fyrir að auk þess sem sakborningarnir hefðu verið beittir harðræði hefðu ýmsar réttarfarsreglur og reglur um rannsókn brotamála verið brotnar.
Þarna kemur fram að DÞB telur erfitt að neita um endurupptöku ef nýjar upplýsingar koma fram. Skýrsla IRR nefndarinnar kom fram 21.mars 2013.
Þar er fjallað um málið af mikilli nákvæmni og í fyrsta sinn af réttarsálfræðilegri nútímaþekkingu. Aldrei áður í 40 ára ferli þessa máls hefur slík skoðun farið fram Einnig inniheldur skýrslan mikilvæg ný gögn hvað varðar framferði rannsóknarmanna í Síðumúla á bilinu des. 1975 til feb. 1977 Skýrslan byggir á öllum eldri gögnum og greinargerðum sem fram hafa komið. Niðurstaða skýrslunnar er mjög afgerandi og ótvíræð:
Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að þeir framburðir sem sakfelling byggir á eru ýmist óáreiðanlegir eða falskir. Nefndin leggur til 3 hugsanlegar leiðir til endurupptöku málsins:
1. Að saksóknari hlutist að eigin frumkvæði til um endurupptöku.
2. Að sakborningar fari fram á endurupptöku. (Sú leið sem nú er í ferli)
3. Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Þær raddir hafa heyrst að ekki komi til álita að heimila endurupptöku á þætti Erlu Bolladóttur í málinu, þar sem sakarefnið að baki þriggja ára fangelsisdómi yfir henni hafi einungis verið vegna hinna röngu sakargifta. Það verður þó að telja ólíklegt að sú verði niðurstaðan. Skv. dómi Hæstaréttar frá 1980 eru 4 sakfelldir fyrir samantekin ráð um rangar sakargiftir. Verði dómurinn ómerktur hvað varðar aðild hinna dæmdu að mannshvarfi í Keflavík, er ekki lengur um að ræða neitt tilefni (motiv) til samantekinna ráða um slíkt samsæri. Það væri undarlegt ef niðurstaðan ætti að verða sú að fólk sem ekki á aðild að mannshvarfinu hafi tekið saman ráð um að varpa sök á þá sem lögreglan handtók saklausa í janúar 1976 og hafði í haldi í 105 daga, allt þar til Erla játaði að hafa myrt hinn horfna með riffli.
En þá var hinum fjórum saklausu mönnum loks sleppt.
Verði niðurstaða setts saksóknara sú að mæla ekki með endurupptöku allra þátta dómsins, er ljóst að þá munu umræður og deilur halda áfram, líkt og verið hefur allar götur síðan 1980. Sú gjá sem að margra mati hefur verið hefur milli dómskerfis og þjóðar mun verða óbrúuð. Þeir dómfelldu sem nú krefjast endurupptöku og sýknu munu ekki leggja árar í bát. Skýrsla IRR nefndarinnar talar sínu máli og fram hjá henni verður ekki litið. Réttarúrræði eru til staðar, auk þess möguleika sem IRR nefndin leggur nr. 3: Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Mörgum kann að þykja sá möguleiki nokkuð langsóttur, að hann skuli nefndur í upptalningunni sýnir hins vegar hvílíka áherslu nefndin leggur á mikilvægi endurupptökunnar.
Einnig má nefna að vér vesælir Bloggarar sem ritstýrum síðu þessari, höfum starfað sem maurar um árabil að því að vinna gagnagrunn sem inniheldur allar skráðar lögregluskýrslur í HR málinu nr 214/1978. Sá grunnur verður í textaskjölum sem tengd verða stafrænni leitarvél. Áætlað er að þessari vinnu ljúki í júlí 2015. Augljóst er að gagnagrunnur þessi mun verða öflugt tæki og gjörbreyta aðstöðu og möguleikum þeirra sem vilja kynna sér málið og fjalla um það í framtíðinni.
TH.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Martröðin og fálkaorðurnar 6
Mánudagur, 30. mars 2015
Fleyg eru ummæli Ólafs Jóhannessonar: Martröð er létt af þjóðinni Eins og hér hefur verið bent á, féllu þessu ummæli 2. febrúar 1977 eftir blaðamannafund með Karl Shütz og fleirum, þar sem tilkynnt var að rannsókn þessa mikla sakamáls væri lokið og málið leyst.
Nú skyldi lögð fram ákæra og dæmt.
Miðað við yfirlýsingu ráðherrans var þó varla þörf á því...
Hins vegar er ýmislegt sem bendir til að martröð hafi verið létt af stjórnvöldum. Þýskir fjölmiðlar höfðu til að mynda greint frá því að Karl Shütz hafi bjargað ríkisstjórn Íslands frá falli.
"Ein Deutscher Agentjager rettet Islands regierung" (Sontag Abendpost 13.mars 1977)
Annað sem vitnar um þakklæti íslenskra yfirvalda fyrir þá vinnu sem framkvæmd hafði verið í Síðumúlafangelsi er orðuveitingar til nokkurra þýskra embættismanna, í júlí 1977.
Fyrsta stig orðunnar er riddarakrossinn og flestir orðuþegar eru sæmdir honum. Annað stigið er stórriddarakross, síðan stórriddarakross með stjörnu og loks stórkross. Æðsta stig orðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu en hana bera einungis þjóðhöfðingjar.
Sex fálkaorður voru veittar þýzkum embættismönnum 15.júlí 1977:
Horst H. Driesen, aðalforstjóri vísindadeildar Bundeskriminalamt :
Stórriddarakross
Siegfried Fröhlich, ráðuneytisstjóri:
Stórkross
Horst Herold, forseti Bundeskriminalamt:
Stórriddarakross með stjörnu
Ekkehard Kissling, forstjóri Bundeskriminalamt:
Stórriddarakross
Chrisfried Leszeynski, deildarforseti Bundeskriminalamt:
Stórriddarakross
Karl Schütz, fyrrverandi deildarforseti:
Stórriddarakross
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn er frestað
Mánudagur, 2. mars 2015
Eins og fram hefur komið, hefur Davíð Þór Björgvinsson,settur saksóknari farið fram á frest til að skila niðurstöðu sinni til endurupptökunefndar. Beðið er um frest fram í miðjan apríl og telur Björn L. Bergsson talsmaður nefndarinnar líklegt að fresturinn verði veittur. Af þessu tilefni er ekki úr vegi að fara lauslega yfir það hvað gerst hefur í málinu á undanförnum árum.
Starfshópur Innanríkisráðuneytisins (Irr nefndin) var skipaður 7.október 2011. Skv frétt mbl.is stóð til að hópurinn skilaði skýrslu sinni 1. nóvember 2012. Sá tími nægði ekki og fékk hópurinn frest fram í miðjan febrúar 2013:
Í febrúar 2013 fékk Irr nefndin mánaðar frest til viðbótar og skilaði greinargerð sinni 21.mars 2013. Meginniðurstaðan var sú að nefndin taldi framburði sakborninganna ýmist óáreiðanlega eða falska og lagði til þrjár leiðir að endurupptöku málsins:
- Að saksóknari hlutist að eigin frumkvæði til um endurupptöku.
- Að sakborningar fari fram á endurupptöku. (Sú leið sem nú er í ferli)
- Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson sendi Saksóknara Ríkisins, Sigríði Friðjónsdóttur erindi um málið í mars 2013. 26.mars 2013 er haft eftir Sigríði að málið sé komið inn á borð til hennar. 9. október sama ár er haft eftir henni að hún hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort málið verði tekið upp að frumkvæði embættisins. 4 janúar 2014 leitaði Mbl.is enn eftir upplýsingum og var staðan þá óbreytt að þessu leyti.
- júní var síðan lögð fram formleg beiðni Erlu og Guðjóns.
Haft var eftir Ragnari Aðalsteinssyni á mbl.is af því tilefni að næsta skref væri að senda málið ásamt gögnum til ríkissaksóknara til umsagnar. Það væri síðan embættisins að ákveða í kjölfarið hvort endurupptaka yrði veitt.
Um miðjan ágúst var málið enn í biðstöðu á borði endurupptökunefndar.
Ástæða þess var sú að gögnum vegna málsins hafði verið skilað inn rafrænt til nefndarinnar en hún farið fram á að þau væru útprentuð. Haft var eftir Ragnari á mbl.is að fyrir vikið hefði málið ekki enn verið sent ríkissaksóknara. Enn væri verið að útbúa skjöl sem nefndin heimtaði. Gagnrýndi hann að ekki teldist fullnægjandi að senda gögnin rafrænt. Það væri dýrt að prenta út tugi þúsunda síðna. Reiknaði hann með því að ljúka verkinu 20. ágúst.
Endurupptökubeiðnin var loks send til ríkissaksóknara 4. september.
Fékk embættið frest til 22. september til þess að taka afstöðu til málsins. Haft var eftir Ragnari að það væri afar naumur tími til að fara yfir öll gögn málsins. Þann 22. september greindi mbl.is frá því að ríkissaksóknari hefði óskað eftir framlengdum fresti til 1. október til þess að taka afstöðu til þess. Þegar sá frestur var liðinn greindi Sigríður frá því að hún teldi sig vanhæfa til þess að fjalla um málið vegna fjölskyldutengsla.
Þetta hefði mátt koma fram fyrir nokkuð löngu vegna þess að ríkissaksóknari hafði tiltekin afskipti af þessu máli fyrir einu eða tveimur árum, eftir að hafa fengið erindi frá þáverandi innanríkisráðherra, sagði Ragnar Aðalsteinsson af þessu tilefni.
Mbl.is birti grein 3. okt 2014 undir fyrirsögninni:
- október var síðan Davíð þór Björgvinsson settur sérstakur saksóknari í stað Sigríðar.
- nóvember 2014 kom fram á Mbl.is að Davíð Þór hafi beðið um frest fram í janúar til að skila niðurstöðu sinni.
RUV greinir frá því 19. janúar að Davíð hafi fengið frest til 1. Mars:
Skv. frétt mbl.is 27.febrúar hafði það staðið til að niðurstöðu yrði skilað í janúar en frestur hafi verið veittur til 1. Mars
Davíð Þór Björgvinsson. Ljósmynd:visir.is
Þann fyrsta mars 2015 óskaði síðan settur saksóknari eftir fresti til 15.apríl til að vinna frekar í málinu. RUV.is birtir grein af þessu tilefni.
Þar kemur fram að vinna sé í fullum gangi.
Þeir sem hafa óskað eftir endurupptöku málsins eru Erla Bolladóttir og séra Guðjón Skarphéðinsson. Lögmaður þeirra er Ragnar Aðalsteinsson Hrl.
Ritnefnd vefsíðunnar mal214.blog.is setti sig í samband við Erlu Bolladóttur.
Í spjalli við hana kom m.a. fram að aldrei hafi starfsmenn þeirra embætta sem í hlut eiga, haft samband við þá sem farið hafa fram á endurupptökuna, til að láta vita um frestanir. Hvorki við þá persónulega, né í gegnum lögmann þeirra. Endurupptökubeiðendur hafi frétt af þessum frestunum í fjölmiðlum eins og aðrir.
Alltént er ljóst að margir velta fyrir sér hvað muni gerast 15. apríl.
Stóra spurningin er þó enn þessi:
Hver skyldi verða niðurstaða saksóknarans ?
T.H.
Bloggar | Breytt 3.3.2015 kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Frestur saksóknara liðinn.
Föstudagur, 27. febrúar 2015
Um þessar mundir er liðinn mánuður síðan settur saksóknari, prófessor Davíð Þór Björgvinsson fékk frest til að skila niðurstöðu vegna kröfu Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar um endurupptöku á HR máli 214/1978. Skv. frásögn fjölmiðla ætlaði hann sér tíma fram að 1. mars 2015. Davíð Þór hefur unnið að málinu frá 3. október 2014.
Þar sem nú styttist í að niðurstaða liggi fyrir er ekki úr vegi að velta fyrir sér framhaldinu.
Í grein Mbl 3. okt 2014 er fjallað um ummæli Davíðs í umræðuþættinum Undir sönnunarbyrðinni á RUV 1997.:
"Það sem einkennir þetta sakamál er það að niðurstaðan er nánast eingöngu byggð á játningum sakborninga. Það er reynt með ýmsum hætti að styðja þessar játningar sýnilegum sönnunargögnum, og það gengur mjög illa. Þetta er allt mjög rækilega rakið í héraðsdóminum og tekið svo til orða að þessi sýnilegu sönnunargögn, önnur en játningar sakborninga, tengi ekki sakborninga með óyggjandi hætti við þessa atburði." "Kjarninn er þessi: Þetta mál hangir allt á þessum játningum, og því skiptir það höfuðmáli þegar verið er að meta það hvort skilyrði séu til fyrir endurupptöku, að það komi fram nýjar upplýsingar til viðbótar þeim sem lágu fyrir þegar dómarnir voru kveðnir upp sem sýni það og sanni að það hafi verið stórfelldar brotalamir við rannsókn málsins. Þegar ég sagði að Hæstarétti yrði vandi á höndum, þá átti ég einfaldlega við það, að það kann að koma upp sú staða að það verði mjög erfitt fyrir þá að endurupptaka málið ekki"
Davíð sagði einnig að útlit væri fyrir að auk þess sem sakborningarnir hefðu verið beittir harðræði hefðu ýmsar réttarfarsreglur og reglur um rannsókn brotamála verið brotnar.
Þarna kemur fram að DÞB telur erfitt að neita um endurupptöku ef nýjar upplýsingar koma fram. Skýrsla IRR nefndarinnar kom fram 21.mars 2013.
Þar er fjallað um málið af mikilli nákvæmni og í fyrsta sinn af réttarsálfræðilegri nútímaþekkingu. Aldrei áður í 40 ára ferli þessa máls hefur slík skoðun farið fram Einnig inniheldur skýrslan mikilvæg ný gögn hvað varðar framferði rannsóknarmanna í Síðumúla á bilinu des. 1975 til feb. 1977 Skýrslan byggir á öllum eldri gögnum og greinargerðum sem fram hafa komið. Niðurstaða skýrslunnar er mjög afgerandi og ótvíræð:
Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að þeir framburðir sem sakfelling byggir á eru ýmist óáreiðanlegir eða falskir. Nefndin leggur til 3 hugsanlegar leiðir til endurupptöku málsins:
1. Að saksóknari hlutist að eigin frumkvæði til um endurupptöku.
2. Að sakborningar fari fram á endurupptöku. (Sú leið sem nú er í ferli)
3. Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Þær raddir hafa heyrst að ekki komi til álita að heimila endurupptöku á þætti Erlu Bolladóttur í málinu, þar sem sakarefnið að baki þriggja ára fangelsisdómi yfir henni hafi einungis verið vegna hinna röngu sakargifta. Það verður þó að telja ólíklegt að sú verði niðurstaðan. Skv. dómi Hæstaréttar frá 1980 eru 4 sakfelldir fyrir samantekin ráð um rangar sakargiftir. Verði dómurinn ómerktur hvað varðar aðild hinna dæmdu að mannshvarfi í Keflavík, er ekki lengur um að ræða neitt tilefni (motiv) til samantekinna ráða um slíkt samsæri. Það væri undarlegt ef niðurstaðan ætti að verða sú að fólk sem ekki á aðild að mannshvarfinu hafi tekið saman ráð um að varpa sök á þá sem lögreglan handtók saklausa í janúar 1976 og hafði í haldi í 105 daga, allt þar til Erla játaði að hafa myrt hinn horfna með riffli.
En þá var hinum fjórum saklausu mönnum loks sleppt.
Verði niðurstaða setts saksóknara sú að mæla ekki með endurupptöku allra þátta dómsins, er ljóst að þá munu umræður og deilur halda áfram, líkt og verið hefur allar götur síðan 1980. Sú gjá sem að margra mati hefur verið hefur milli dómskerfis og þjóðar mun verða óbrúuð. Þeir dómfelldu sem nú krefjast endurupptöku og sýknu munu ekki leggja árar í bát. Skýrsla IRR nefndarinnar talar sínu máli og fram hjá henni verður ekki litið. Réttarúrræði eru til staðar, auk þess möguleika sem IRR nefndin leggur nr. 3: Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Mörgum kann að þykja sá möguleiki nokkuð langsóttur, að hann skuli nefndur í upptalningunni sýnir hins vegar hvílíka áherslu nefndin leggur á mikilvægi endurupptökunnar.
Einnig má nefna að vér vesælir Bloggarar sem ritstýrum síðu þessari, höfum starfað sem maurar um árabil að því að vinna gagnagrunn sem inniheldur allar skráðar lögregluskýrslur í HR málinu nr 214/1978. Sá grunnur verður í textaskjölum sem tengd verða stafrænni leitarvél. Áætlað er að þessari vinnu ljúki í maí 2015. Augljóst er að gagnagrunnur þessi mun verða öflugt tæki og gjörbreyta aðstöðu og möguleikum þeirra sem vilja kynna sér málið og fjalla um það í framtíðinni.
TH.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Valtýr Sigurðsson á BBC: "We have lot of proofs..."
Þriðjudagur, 10. febrúar 2015
Þann 15. maí 2014 var fluttur á BBC Radio World Service útvarpsþátturinn The Reykjavik Confessions, þar sem fréttamaðurinn Simon Cox fjallaði um svonefnd Guðmundar og Geirfinnsmál.
Simon Cox tekur það skýrt fram í þættinum að hann hafi reynt mikið að fá viðbrögð þeirra sem störfuðu við rannsókn málanna á sínum tíma en ekki haft erindi sem erfiði, nema hvað hann náði tali af Valtý Sigurðssyni. Valtýr var einmitt yfirmaður frumrannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík.. Fátt af því sem Valtýr segir kemur á óvart, hann er greinilega sáttur við dóm Hæstaréttar og telur að hinir dæmdu séu sekir. Í lok viðtalsins talar hann um að margar vísbendingar hafi verið um að atburðir hafi gerst með ákveðnum hætti í Keflavík. Yes, clues but no proof segir Simon Cox og innir Valtý eftir sönnunum.
Þá segir Valtýr:
We have lot of proofs that Erla was in Keflavík
Við höfum margar sannanir fyrir því að Erla Bolladóttir var í Keflavík.
Frá bæjardyrum undirritaðs er tilefni til að staldra við og hugleiða aðeins þessa fullyrðingu Valtýs.
Þarna er yfirstjórnandi frumrannsóknarinnar í viðtali við BBC World service. Ætla má að við þessar kringumstæður nefni Valtýr þann þátt málsins sem hann telur öruggastan, og telur helst styðja þá fullyrðingu að hinir dæmdu séu sekir. Þannig að við skulum athuga nánar hversu öruggar eru þessar mörgu sannanir ("lot of proofs") sem Valtýr nefnir.
Erla var fyrst hneppt í gæsluvarðhald vegna Geirfinnsmáls í des. 1975 og var síðan í haldi samfellt frá 4. maí til 22. desember 1976. Á þessu tímabili eru skráðar 105 yfirheyrslur yfir Erlu. Réttargæslumaður Erlu var þó aðeins viðstaddur samskipti hennar við rannsakendur í eitt skipti af þessum 105.Í þessum 105 (skráðu) yfirheyrslum yfir Erlu ber ýmislegt á góma, eins og vænta má. Til dæmis ferð til Keflavíkur. Framburður hennar og annarra sakborninga var mjög reikull. Þannig koma fram í þessum yfirheyrslum nokkrar útgáfur af meintri ferð Erlu til baka frá Keflavík. Á tímabili virtist svo sem hún hefði verið samferða öðrum sakborningum til Reykjavíkur á Land Rover bifreið en á öðrum tímabilum útskýrir hún ferð sína til baka með því að hún hafi farið ¨á puttanum til Reykjavíkur. Í niðurstöðu Hæstaréttar er notuð sú útgáfa sögunnar að Erla hafi dvalist næturlangt í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni og síðan húkkað sér far til Reykjavíkur. Skýrsla er tekin af EB 23. jan 1976. Þrátt fyrir að flestu sem þar kemur fram um atvik, sé hafnað í dómi Hæstaréttar, er þetta atriði látið halda sér, þ.e. að Erla hafi farið á puttanum til Reykjavíkur að morgni 20.nóv. Hún segist hafa farið með Moskvitch bifreið fyrri hluta leiðarinnar, að Grindavíkurafleggjara en fengið far með vörubíl þaðan og til Hafnarfjarðar. Hún tekur ekki fram tegund né lit vörubílsins en í síðari skýrslum talar hún um að ökumaðurinn hafi sagst hafa starfað við malar eða grjótnám og hafi reykt pípu.
Vörubílstjórinn
Snemma vors 1976 lýsti lögregla eftir malar eða grjótflutningabifreið sem gæti hafa tekið stúlku upp í að morgni 20. nóv.1974 Þann 11. apríl 1976 gefur sig fram maður (Á.R.) sem oft átti þarna leið um þetta leyti á vörubifreið. Hann starfaði um þetta leyti við að flytja síldartunnur frá Siglufirði til Keflavíkur og ók þessa leið því oft og reglulega. Fram kemur í ökudagbók mannsins að hann hafði ekið þessa leið 20. nóv. Í skýrslunni segir hann:
Í einni af þessum ferðum man ég eftir því að ég tók upp í bifreiðina stúlku á Reykjanesbrautinni. Maðurinn heldur því hvergi fram að hann muni hvaða dag hann tók stúlkuna upp í. Í dagbókinni kemur fram að hann hafi ekið þessa leið þennan dag. En það gerði hann líka marga aðra daga haustið 1974, jafnvel oft í hverri viku, þar sem hann hafði þann starfa að keyra leiðina. Í framhaldi af skýrslunni fór fram sakbending þar sem Á.R. sá Erlu Bolladóttur ásamt fjórum öðrum stúlkum. (20% líkur m. v. random.)
Ekki gat hann bent á neina þeirra sem stúlkuna sem hann kvaðst hafa tekið upp í.
Eftir stendur:
- Samkvæmt dagbók mannsins ók hann þessa leið 20. nóv.
- Maðurinn ók leiðina oft og reglulega um þetta leyti.
- Í einni af þessum ferðum þá um haustið tók hann stúlku upp í.
- Hann þekkti stúlkuna ekki við sakbendingu.
Nóg um þetta, varla er þetta sönnunin sem Valtýr talar um.
Moskvitch maðurinn:
Auglýst var einnig eftir ökumanni Moskvitch bifreiðar sem Erla hafði sagst hafa fengið far með að Grindavíkurafleggjaranum. Ökumaðurinn G.S.J. gaf sig fram og gaf skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 30. mars. 1976.
Í skýrslu hans kemur fram að hann muni eftir að hafa tekið stúlku upp í einhverntíma um haustið 1974 og ekið henni þessa leið, frá afleggjaranum að Höfnum og að Grindavíkurafleggjara. Hann geti ekki dagsett það nákvæmlega hvenær hann hafi tekið stúlkuna upp í né heldur á hvaða tíma dags.
Í skýrslunni segir: Ég minnist þess að ég var hjá dóttur minni í Sandgerði eina nótt haustið 1974 og þá gæti þetta komið heim og saman við þann atburð sem um er rætt
Í þessari skýrslu sem tekin er 30. mars 1976 kveðst hann hafa ekið á Skoda bifreið sem hann átti. Hvergi er minnst á Moskvitch.Þó hafði lögreglan ekki lýst eftir ökumanni Skoda bifreiðar, heldur Moskvitch.
Að skýrslutöku lokinni fór fram sakbending þar sem nokkrar stúlkur stilltu sér upp.Ekki er tekið fram hve margar. Maðurinn kveðst telja að ein þeirra stúlkna sem stillt var upp kæmi til greina og benti á Erlu Bolladóttur.
Ökumaður Skoda/Moskvitch bifreiðarinnar mætti síðan fyrir Dómþing Sakadóms Reykjavíkur þann 26. maí 1977. Hann hefur mál sitt á því að hann hafi: Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974 tekið stúlku upp í bifreið sína í Keflavík Vitnið staðfestir að bifreið þess hafi verið af gerðinni Skoda 1000. Einnig segist hann nú hafa eitt sinn um þetta leyti fengið lánaða bifreið hjá vinnufélaga sínum og hafi þetta verið Moskvitch og gulgræn að lit að vitnið minnir og frekar illa farin."Telur vitnið jafnvel sennilegt að það hafi verið á þeirri bifreið. Hann kveðst nú ekki hafa gist í Sandgerði,heldur hafi fóstra hans átt afmæli 19. nóvember 1974. Hann hafi verið í afmælisveislunni í Garðabæ ásamt fjölda fólks um kvöldið en síðan farið af stað árla morguns og ekið suður í Sandgerði.
Sakbendingin frá 30. mars er rifjuð upp og staðfestir maðurinn að í sakbendingunni hafi Erla hafi verið: líkust stúlkunni", af þeim stúlkum sem stillt var upp.
Maðurinn þekkir Erlu á mynd sem honum er sýnd í þessu dómþingi sem fram fór eins og áður sagði 26. maí 1977.
*****
Í þessum tveimur skýrslum er margt athyglisvert.
Í sakbendingunni 30.mars 1976 heldur hann því hvergi framað Erla sé sú sem hann tók upp í bílinn. Hann kveðst hinsvegar telja að ein stúlknanna komi til greina. Hann bendir á Erlu og er honum þá sagt að þetta sé Erla Bolladóttir.
Í skýrslunni fyrir dómi lýsir hann því þannig að honumhafi þótt Erla líkust stúlkunni, af þeim stúlkum sem stillt var upp.
Einnig vekur það nokkra athygli að bifreið sú sem var í eigu mannsins á þessum tíma var alls ekki af Moskvitch gerð. Skv. bifreiðaskrá 1974 ók hann um á bifreið af gerðinni Skoda 1000. Fyrir dómi hefur hann mál sitt á því að hann hafi "Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974" tekið stúlku upp í. Talar síðan um afmælisveisluna og segist síðan "eitt sinn um þetta leyti" hafa fengið lánaða Moskvitch bifreið hjá vini sínum og er vitnið óklárt á því hvor tegundin var notuð, annaðhvort Moskvitch eða Skoda
Athyglisvert er í þessu samhengi að í beinu framhaldi af því að þessar upplýsingar komu fram breyttist framburður Erlu á þann veg að hún hættir að tala um Moskvitch bifreið, heldur hafi verið um að ræða annaðhvort Moskvitch eða Skoda
Ekki aðeins er samræmi milli tegundanna sem þau nefna, heldur er einnig samræmi í óvissu þeirra, um hvaða tegund var um að ræða. Þetta samræmi hlýtur að teljast sérkennilega fullkomið. Allavega er umhugsunarefni hvernig slíkt samræmi getur myndast.
Þetta atriði minnir óneitanlega nokkuð á atriði sem margir kannast við úr svonefndu Guðmundarmáli en þar áttu bifreiðir það til að breytast úr einni tegund í aðra. Þá vekur það furðu hve stutt og ónákvæm skýrslan um sakbendinguna er. Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp. Maðurinn segist hvergi í skýrslunni hafa tekið Erlu upp í bílinn. En hann telur að Erla komi til greina. Sú "niðurstaða" virðist fullnægja allri forvitni, ekkert meira er skráð og maðurinn fer.Maðurinn þekki Erlu af mynd sem honum var sýnd í dómþinginu 26. maí 1977.Þar virðist eiga að vera um einhverkonar stuðning að ræða við sakbendinguna. Varla hafði þó liðið dagur um nokkurra mánaða skeið að ekki væru myndir af Erlu og öðrum sakborningum á forsíðum dagblaða, ásamt frásögnum af glæpaverkum þeirra. Það hefði því líklega verið meiri leitun um þessar mundir að þeim Íslendingi sem ekki hefði þekkt persónuna á myndinni.
Eftir stendur:
- Hann man ekki hvar:
Hann segist í fyrstu skýrslunni muna, að hafa tekið stúlku upp í við afleggjarann að Höfnum, nokkuð fyrir utan Keflavík, ofan við Njarðvík. Í þeirri síðari segir hann að það hafi verið á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu, inni í miðbæ Keflavíkur.
- Hann man ekki hvenær:
Í fyrstu skýrslunni segir hann:
Ég get ekki fullyrt á hvaða tíma dags,né heldur get ég dagsett þennan atburð Þ.e.a.s. hvenær hann tók stúlku upp í Skoda/Moskvitch bifreiðina.Í þeirri síðari talar hann um afmælisveisluna 19. nóv. En segir jafnframt að þetta hafi verið einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974
Þarna er mótsögn, þannig virðist hann ekki viss um það hvort hann sé öruggur eða óöruggur hvað varðar dagsetninguna. (Þetta minnir óneitanlega nokkuð á lýsingu eins sakborninga í málinu, þegar hann kvaðst eftir langt gæsluvarðhald, vera orðinn "50% viss" um að hafa drepið mann.)
- Fyrir dómi breytir maðurinn framburði um ferðir sínar þessa daga í grundvallaratriðum frá lögregluskýrslunni.
Í fyrri skýrslunni segist hann hafa gist í Sandgerði. Í síðari skýrslunni segist hann hafa farið árla morguns til Sandgerðis, stoppað þar í örstutta stund og haldið síðan af stað til Reykjavíkur.
Hvergi kemur fram hver hafi verið tilgangur ferðarinnar um morguninn, né hvaðan hann fór, eða hvar hann gisti um nóttina, þ.e.a.s. samkvæmt síðari framburði sínum. En hann var búsettur á Seltjarnarnesi.
Samkvæmt síðari framburði mannsins, 26. maí 1977, ók hann til Sandgerðis, morguninn eftir afmælið, síðan aftur til Reykjavíkur (Seltjarnarness?) Síðan suður aftur til Grindavíkur. Hann var mættur til vinnu í Grindavík samdægurs skv. sama framburði sínum fyrir dómi.
- Hvergi í sakbendingunni heldur hann því fram að Erla sé stúlkan sem hann tók upp í, haustið 1974. Einungis að það "komi til greina" og orðar það svo fyrir dómi að honum hafi þótt Erla "líkust stúlkunni" af þeim sem stillt var upp.
- Sakbending eftir myndum fyrir dómi er augljóslega merkingarlaus vegna spilliáhrifa frá fjölmiðlum.
Ekki aðeins höfðu myndirnar verið birtar, heldur einnig játningar sakborninga og yfirlýsingar frá Karl Shütz um að málið væri "algjörlega öruggt". Hvergi sást örla á vafa um sekt sakborninga. Einnig hafði birst yfirlýsing frá ráðherra dómsmála: "Martröð er létt af þjóðinni" Vitnið hefur þannig ýmis tilefni til að telja málið öruggt, með eða án síns framburðar og hefur engar forsendur til að gera sér grein fyrir því að hvorki er um efnisleg gögn né önnur vitni að ræða.
- Sakbendingin og skýrslan um hana er stórkostlega gölluð, ónákvæm og furðulega knöpp, m.v. hugsanlegt mikilvægi vitnisins. Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp.(Í hinni árangurslausu sakbendingu þegar vörubílstjórinn mætti voru þær fjórar auk Erlu. Með því eru 20% líkur á "árangri" m.v. slembiaðferð)
- Hann man ekki hvaða tegundar bifreiðin var sem hann ók. En nefnir þó við yfirheyrsluna báðar sömu tegundir og Erla telur koma til greina. Hafi maðurinn tekið farþega upp í bílinn einhverntíma þarna um haustið eða veturinn, hefur væntanlega verið um eina tegund bifreiðar að ræða, af einni tegund. Í dómsniðurstöðu Hæstaréttar eru báðar tegundir enn nefndar.Að maðurinn skuli ekki muna hvaða tegund bíllinn var, rýrir vissulega trúverðugleika vitnisins. Hitt hlýtur þó að teljast mun merkilegra: Að samræmi skuli vera í óvissu þeirra um hvora tegundina var um að ræða.
Þar sem ekki er um önnur vitni að ræða, þá er komið að hinum efnislegu sönnunargögnum:
Í einni af yfirheyrslunum 105 yfir Erlu Bolladóttur kemur fram að hún segist hafa beðið í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni aðfaranótt 20. nóv. 1974. Þar hafi hún reykt nokkrar sígarettur. Rannsóknarmenn miðuðu við að um væri að ræða Rauða húsið nálægt Dráttarbraut Keflavíkur. Húsið var mannlaust og opið og hafði verið það lengi. (Tilvalið t.d. fyrir unglinga að reykja þar inni.) Rúmlega 26 mánuðum eftir meinta atburði, 23. janúar 1977 fór lögregla á vettvang ásamt Erlu. Gat hún bent á ákveðið herbergi og taldi sennilegt að hún hafi beðið þar. Ekki fundust neinir stubbar í því herbergi sem Erla nefndi. Hinsvegar er skýrt tekið fram í skýrslunni að 5 sígarettustubbar hafi fundist í húsinu. Athygli vekur að ekki er minnst á áætlaðan aldur þeirra né tegund. En hafi þeir verið á að giska tveggja til þriggja ára gamlir og af Winston gerð, er hér ef til vill komin ein af þeim mörgu sönnunum sem Valtýr nefnir í BBC viðtalinu.
Varla getur það þó verið. Erla er talin hafa reykt Winston en það mun reyndar hafa verið vinsæl tegund á þessum árum.
Eftir stendur að sannað er með þessum efnislegu sönnunargögnum:
- Að sígarettur hafi verið reyktar á þessum slóðum á árunum ca. 1974 1977. Ekki er þó vitað af hvaða tegund.
Þar sem ekki er um aðrar vísbendingar (clues) að ræða en þá framburði vitna sem hér hafa verið raktir og þau efnislegu sönnunargögn sem nefnd hafa verið:
Er því hér með virðingarfyllst og staðfastlega haldið fram að það sé með öllu ósannað að Erla Bolladóttir hafi verið í Keflavík aðfaranótt 20. nóvember 1974.
***
T.H.
Nánar:
Bloggar | Breytt 11.2.2015 kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Minnisvafi og falskar játningar
Fimmtudagur, 15. janúar 2015
Í fyrsta tölublaði 101. árgangs,jan. 2015 birtist í Læknablaðinu eftirfarandi viðtal sem Hávar Sigurjónsson tók við Dr. Jón Friðrik Sigurðsson og er það endurbirt hér af slóðinni:
http://www.laeknabladid.is/tolublod/2015/01/nr/5393
Minnisvafi og falskar játningar
Höfundur: Hávar Sigurjónsson
Dr. Jón Friðrik Sigurðsson. (Ljósmynd: Læknablaðið)
Fá eða engin sakamál hafa fengið viðlíka athygli meðal þjóðarinnar og Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Rannsókn þeirra stóð í nokkur ár, en Guðmundur Einarsson hvarf í janúar 1974 og og Geirfinnur Einarsson í nóvember sama ár. Lokaniðurstaða fékkst með dómi Hæstaréttar árið 1980 er sex manns voru sakfelld. Fyrir morð á Guðmundi Einarssyni hlutu dóm Sævar Marinó Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Albert Klahn Skaftason. Fyrir morð á Geirfinni Einarssyni hlutu dóm Sævar, Kristján Viðar, Guðjón Skarphéðinsson og Erla Bolladóttir. Strax meðan á rannsóknunum stóð og allar götur síðan hefur verið rætt um að margt hafi misfarist, saklausir einstaklingar drógust inn í þær, og allt frá dómsniðurstöðu hefur sá grunur leynst með þjóðinni að saklaust fólk hafi verið dæmt.
Lögreglumennirnir virðast ekki hafa gert sér neina grein fyrir því hvað það er sem ræður því
að einangrunarfangar játa eða neita sök og þarna voru gerð grundvallarmistök," segir prófessor
Jón Friðrik Sigurðsson um rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna.
Þetta varð til þess að árið 2011 tók þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, þá ákvörðun að skipa starfshóp er fara skyldi yfir málin í heild sinni en sérstaklega þá þætti er snertu rannsókn málanna og framkvæmd þeirra á sínum tíma. Starfshópnum var jafnframt falið að taka til athugunar þau gögn sem komið hafa fram á síðustu árum. Starfshópinn skipuðu Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og lögreglumaður, formaður hópsins. Haraldur Steinþórsson lögfræðingur og Jón Friðrik Sigurðsson prófessor. Með starfshópnum starfaði Gísli H. Guðjónsson prófessor og Valgerður María Sigurðardóttir lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu.
Skýrsla starfshópsins, sem er mjög ítarleg uppá tæpar 500 blaðsíður, hefur legið fyrir frá því mars 2013 og kemur á óvart hversu litla umræðu hún hefur vakið, en viðmælandi Læknablaðsins, prófessor Jón Friðrik Sigurðsson, segir frekar lítið hafa verið fjallað um skýrsluna opinberlega. Einhverjir lýstu ánægju með hana en gagnrýnisraddir hafa ekki komið fram, segir hann.
Mun umfangsmeira en búist var við
Að sögn Jóns Friðriks var upphaflega gert ráð fyrir að verkefnið yrði nokkurra mánaða vinna fyrir starfshópinn, en það kom fljótt í ljós að gögnin voru ekki aðgengileg og mikil vinna fór í að afla upplýsinga um hvar þau væri að finna, fá leyfi til að skoða þau, safna þeim saman og greina. Allir brugðust á endanum mjög vel við og við fengum aðgang að öllum skjölum sem við óskuðum eftir, en það tók langan tíma og þetta var mikið magn af gögnum. Við þurftum að leita víða og sumt fannst ekki, eins og til dæmis minnispunktar lögreglumanna sem yfirheyrðu sakborningana á sínum tíma. Lögregluskýrslur voru ekki alltaf skrifaðar eftir hverja yfirheyrslu, heldur að loknum yfirheyrslum, jafnvel eftir nokkra daga, en við göngum útfrá því að minnispunktar hafi verið skrifaðir. Á þessum tíma voru hljóðbönd ekki notuð við yfirheyrslur. Meðal gagna í málunum voru geðheilbrigðisskýrslur sem gerðar voru af geðlæknum um fimm sakborninganna á meðan þeir voru vistaðir í gæsluvarðhaldi. Þær komu að góðu gagni við mat á sálrænu ástandi sakborninganna og áreiðanleika framburðar þeirra.
Jón Friðrik leggur áherslu á að í öllum gögnum málsins sé tilfinnanlegur skortur á yfirheyrsluskýrslum, Við vitum af öðrum gögnum að yfirheyrslur stóðu oft klukkutímum saman, stundum á nóttunni og stundum var farið með þau út úr húsi til að skoða einhverja staði sem sakborningar höfðu nefnt. Skýrslur um margar þessara yfirheyrslna og vettvangsferða finnast hvergi og engir minnispunktar heldur. Við höfum hins vegar engar vísbendingar um að reynt hafi verið að eyða gögnum af ásettu ráði. Þetta er kannski fremur til marks um hversu illa var staðið að rannsókninni og svo kannski í framhaldinu hversu skjalavörslu var ábótavant. Okkur var vísað fram og til baka í leit að gögnum og stundum vissi enginn hvar tiltekin gögn voru geymd. Skráningu gagna nokkra áratugi aftur í tímann er verulega áfátt svo ekki sé meira sagt. Jafnvel gögn í svo þekktu máli voru ekki skráð nema að hluta og þess vegna var vinna okkar miklu tímafrekari en við áætluðum í upphafi því það fór langur tími í safna gögnunum og skrá þau.
En það voru ekki bara skjalleg gögn sem starfshópurinn notaði, Við ræddum við alla sakborningana sem eru á lífi og einnig við nokkra rannsakendur málsins. Það kom okkur að sumu leyti á óvart að flestir rannsakendanna voru tilbúnir að ræða við okkur því við höfðum engar heimildir til að boða þá í viðtöl. Allir komu af fúsum og frjálsum vilja. Sumir þeirra höfðu ennþá mjög ákveðnar skoðanir á rannsókn málanna og lokaniðurstöðu og sumir þeirra greinilega mjög ósammála niðurstöðu okkar eins og hún liggur nú fyrir. Þeir voru sumir ennþá sannfærðir um þessir einstaklingar hefðu verið sekir og að ekkert benti til annars. Við ræddum einnig við fyrrum fangaverði Síðumúlafangelsisins þar sem sakborningarnir voru hafðir í einangrun mánuðum saman.
Allir þeir rannsakendur og fangaverðir er komu til viðtals við starfshópinn gáfu mikilvægar upplýsingar og sumir þeirra staðfestu margt af því sem kom fram í gögnum málanna. Jón Friðrik nefnir sem dæmi staðfestingu á ýmsu sem Sævar skrifaði um einangrunarvistina í Síðumúlafangelsinu er hann var vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg árið 1977. Sumt af því sem hann skrifaði er mjög reyfarakennt og ekki í samræmi við hugmyndir okkar um fangavist í íslenskum fangelsum. Með því að bera saman dagbækur fangelsisins og minnispunkta Sævars áttuðum við okkur á því að þetta voru trúverðugar lýsingar sem voru síðan staðfestar í ákveðnum atriðum af fangavörðum. Það eru því miklar líkur á því að Sævar hafi sagt satt og rétt frá. Athuganir starfshópsins staðfestu því sumar af lýsingum Sævars og sem dæmi má nefna lýsti Sævar því að um tíma hefði ljós verið látið loga stöðugt, allan sólarhringinn, í fangaklefanum í Síðumúla. Einn af fangavörðunum staðfesti í viðtali við okkur að þetta væri rétt, hann hefði verið beðinn um að taka slökkvarann í klefanum úr sambandi.
Aðspurður um að sakborningar hafi verið beittir líkamlegu ofbeldi sagði Jón Friðrik, Við vitum ekki til þess að lögreglumennirnir hafi beitt sakborningana ofbeldi. Harðræðisskýrslan svokallaða lýsir hins vegar ofbeldi einstaka fangavarða gagnvart sakborningum en þó verður að halda því til haga að samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar er einungis viðurkennt eitt slíkt tilfelli þar sem yfirfangavörður Síðumúlafangelsisins sló Sævar utanundir við yfirheyrslur. Það kemur líka fram af lestri fangelsisdagbókanna að fangaverðir Síðumúlafangelsisins, og þá sérstaklega yfirfangavörðurinn, voru beinlínis þátttakendur í rannsókn málanna, en dagbækur Síðumúlafangelsisins eru mjög góð heimild um hvernig staðið var að rannsókninni. Slíkt væri talið mjög alvarlegt brot á verkaskiptingu lögreglumanna og fangavarða í dag.
Minnisvafaheilkennið og falskar játningar
Eins og kunnugt er skrifuðu tveir sakborninganna, Guðjón Skarphéðinsson og Tryggvi Rúnar Leifsson, dagbækur í einangrunarvistinni í Síðumúlafangelsinu, sem Jón Friðrik segir að hafi komið að góðum notum við rannsókn starfshópsins. Sannleiksgildi þeirra er hægt að staðfesta með samanburði við dagbækur fangelsins. Þeir skrifuðu gjarnan í dagbækurnar hver heimsótti þá í klefann, lögreglumenn, prestar, lögfræðingar og hvað var að gerast í rannsókn málanna. Þetta er hægt að staðfesta með samanburði og er nánast undantekningarlaust rétt. Það er því varla hægt að draga í efa að dagbækurnar voru skrifaðar á þessum tíma en ekki eftir á. Það var mjög fróðlegt að skoða dagbók Guðjóns, en af henni höfðum við hvað mest gagn varðandi niðurstöðu okkar, því hann lýsir því einstaklega vel hvernig hann sannfærir sjálfan sig smám saman um að hann hafi framið glæp sem hann man ekkert eftir að hafa framið. Í upphafi furðaði hann sig á því hvers vegna hann dróst inn í þetta mál en smátt og smátt, eftir því sem leið á einangrunina og yfirheyrslunum fjölgaði, velti hann því fyrir sér hvers vegna hann mundi ekkert eftir því að hafa framið glæpinn. Við tökum mjög skýra og afdráttarlausa afstöðu til játningar Guðjóns og teljum hana ótvírætt falska. Við höfum hins vegar ekki alveg jafn skýra mynd af hugarástandi og afstöðu hinna sakborninganna. Við getum rökstutt að játningar þeirra hafi verið óáreiðanlegar en göngum skrefinu lengra varðandi játningu Guðjóns.
Um játningarnar almennt segir Jón Friðrik: Strangt til tekið er varla hægt að kalla þetta játningar. Sakborningarnir samþykktu tilgátur lögreglumannanna og reyndu að fylla út í eyður sem þeir stilltu upp. Þau voru leidd áfram af mönnum sem töldu engan vafa leika á sekt þeirra og langvarandi einangrun olli því að þau misstu tengsl við raunveruleikann, vantreystu minni sínu og féllust smátt og smátt á að hafa tekið þátt í atburðarás sem þau höfðu engar minningar um. Það verður líka að hafa í huga að þessir krakkar voru sum hver í töluverðri vímuefnaneyslu og voru því tilbúnari en ella til að vantreysta minni sínu. Það eru sterkar vísbendingar um að fimm sakborninganna vantreystu minni sínu við yfirheyrslurnar og er þetta eitt meginatriði sálfræðilegu niðurstöðu skýrslunnar, hvernig sumir sakborningarnir í málinu sannfærðust smátt og smátt um að hafa framið glæp sem þeir mundu ekkert eftir að hafa framið. Þetta er ástand sem Gísli Guðjónsson og fyrrum samstarfsmaður hans, geðlæknirinn Jim MacKeith, lýstu árið 1981 og nefnist minnisvafaheilkennið (memory distrust syndrome). Minnisvafaheilkenni er ástand þar sem fólk fer að vantreysta verulega eigin minni. Þetta hefur þær afleiðingar að það veldur mikilli hættu á að það reiði sig á ytri áreiti og það sem er gefið í skyn, til dæmis við yfirheyrslur. Þetta getur komið til þegar lögregla grefur undan minningum sakborningsins svo sem um hvar hann var niðurkominn þegar hinn saknæmi atburður átti sér stað og sakborningurinn kemst á þá skoðun að hann hafi hugsanlega gerst brotlegur án þess að muna eftir því.
Jón Friðrik segir að Sævar hafi verið sá eini sem þetta átti ekki við um, en engar vísbendingar eru um að minnisvafi hafi hrjáð hann. Hann virtist ekki bera traust til lögreglumannanna og sýndi mikla mótstöðu við yfirheyrslurnar og hélt fram sakleysi sínu allt til dauðadags, en hann lést af slysförum 14. júlí 2011.
Rörsýn og tengsl rannsakenda og sakborninga
Fram kemur í skýrslunni að sumir rannsakenda málsins höfðu persónuleg tengsl við sakborningana, eða eins og Jón Friðrik segir: Tengsl lögreglumannanna sem rannsökuðu málið við sakborninga voru í sumum tilfellum mjög persónuleg og náin og til þess fallin að ýta undir sannfæringu þeirra um sekt. Það á sérstaklega við um þau Guðjón og Erlu. Guðjón lýsir því hvernig lögreglumaðurinn sem hafði mest samskipti við hann hafi vingast við hann með því að færa honum blöð og ræða við hann um áhugamál eins og skák en þess á milli yfirheyrt hann, og smátt og smátt sannfært hann um sekt. Lögreglumennirnir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta gat haft á sakborningana eða almennt hvað það er sem ræður því að einangrunarfangar játa eða neita sök. Þarna voru gerð grundvallarmistök. Mönnum til málsbóta má segja að á þessum tíma hafi hreinlega ekki verið vitað betur og svo er nokkuð ljóst af gögnum málanna að rannsakendur málsins voru algjörlega sannfærðir um sekt sakborninganna og því var einungis spurning um að fá fram játningar þeirra. Þetta er í rauninni rauði þráðurinn þegar málið er skoðað frá upphafi til enda, segir Jón Friðrik.
Þessi rörsýn rannsakendanna er nokkuð sérstök þar sem líkin fundust ekki og enginn brotavettvangur var til staðar. Þetta skýrir síðan margt í rannsókn málsins og hvernig hún var unnin. Sakborningarnir voru missaga frá upphafi og af því hefði mátt draga vissar ályktanir, en rannsakendur töldu það benda eindregið til þess að þau væru að reyna að villa um fyrir þeim. Hvernig það gat gerst að einstaklingar sem voru hafðir í einangrun gætu talað sig saman um að rugla lögregluna í ríminu er spurning sem virðist ekki hafa hvarflað að rannsakendum. Aldrei virðist hafa verið spurt hvort gæti verið önnur ástæða fyrir því að sakborningum bar aldrei saman. Þetta er hin gegnumgangandi rörsýn sem einkennir alla rannsóknina. Sakborningarnir vísuðu aldrei á líkin, sennilega vegna þess að þau höfðu ekki hugmynd um hvar þau voru niðurkomin en sumir lögreglumennirnir voru sannfærðir um að þau vissu mætavel hvar þau væru. Einn lögreglumaður sem við ræddum við sagði líkin vera á botni Þingvallavatns og ástæðan fyrir því að þau hefðu ekki vísað á staðinn væri sú að þar væru svo mörg önnur lík sem þau hefðu komið fyrir.
Það er einnig einsdæmi í réttarsögunni hvað sakborningar voru hafðir lengi í einangrun. Í tilfellum Sævars og Kristjáns Viðars náði þetta rúmlega einu og hálfu ári. Kristján Viðar var vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í 133 daga vegna sjálfsvígstilraunar og þar var hann í opnum klefa andspænis öðrum opnum klefa þar sem sátu lögreglumenn allan sólarhringinn. Þeim var bannað að hafa samskipti við hann.
Áfellisdómur um rannsóknina
Í skýrslu starfshópsins kemur fram að margt við rannsóknir málanna dró úr áreiðanleika framburðar sakborninganna, svo sem lengd einangrunarvistar og tíðar og langar yfirheyrslur og óformleg samskipti rannsakenda og sakborninga, fjöldi vettvangsferða og samprófana, takmörkuð aðstoð sem sakborningarnir fengu frá lögmönnum, ótti þeirra við að gæsluvarðhaldið yrði framlengt ef lögreglumennirnir væru ekki sáttir við framburð þeirra.
Jón Friðrik segir að fella megi dóm um rannsóknirnar og yfirheyrslurnar, byggðan á skýrslum rannsakenda, færslum í dagbókum Síðumúlafangelsisins, dagbókum tveggja sakborninganna, viðtölum við þá sem á lífi eru og fleiri gögnum. Yfirheyrslurnar hafi verið þvingandi og beinst að því að knýja fram játningar. Í tilfelli Erlu var hún nýlega búin að eignast barn þegar hún var sett í einangrun og framburður hennar skýrist að verulegu leyti af örvæntingarfullri þörf hennar til að losna úr einangruninni og vera hjá barninu sínu. Það kemur hins vegar hvergi fram að rannsakendur hafi haft skilning á þessu. Framburður hennar hafði hins vegar afgerandi áhrif á framgang málanna beggja.
Í niðurstöðum sínum bendir starfshópurinn á þrjár leiðir til að sakborningar fái notið réttlætis þó langt sé um liðið og Sævar og Tryggvi látnir. Í fyrsta lagi að ríkissaksóknari mæli með endurupptöku málanna í heild sinni til hagsbóta fyrir þau sem sakfelld voru. Í öðru lagi geti eftirlifandi sakborningar farið fram á endurupptöku málsins og virðist það vera sú lausn sem valin hefur verið og settur ríkissaksóknari, Davíð Þór Björgvinsson, er fara yfir beiðnir Erlu og Guðjóns. Í þriðja lagi geti Alþingi sett lög sem mæli fyrir um endurupptöku, en það er sísti kosturinn að okkar mati, segir Jón Friðrik Sigurðsson að lokum.
2015 > 01. tbl. 101. árg. 2015
www Læknablaðið
Höfundur
Hávar Sigurjónsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Valtýr Sigurðsson í viðtali hjá BBC
Þriðjudagur, 12. ágúst 2014
Þann 15. maí 2014 var fluttur á BBC Radio World Service útvarpsþátturinn The Reykjavik Confessions, þar sem fréttamaðurinn Simon Cox fjallaði um svonefnd Guðmundar og Geirfinnsmál.
Það er óhætt að segja að umfjöllun BBC hafi vakið athygli, bæði hér á Íslandi og erlendis. Statistikin virðist vera einsdæmi í vestrænni réttarfarssögu:
Allt að 655 dagar í hörku yfirheyrslum og einangrun í Síðumúlafangelsi.
Í framhaldi af útsendingu þáttarins var birt margmiðlunarefni á vefsíðu BBC, þar sem bæði var skrifaður texti, hljóðklippur og video. Þetta efni, þ.e.a.s. útvarpsþátturinn og vefsíðan, hefur víða vakið athygli og beinir sannarlega athygli umheimsins að íslensku réttarkerfi fyrr og nú. Simon Cox tekur það skýrt fram í þættinum að hann hafi reynt mikið að fá viðbrögð þeirra sem störfuðu við rannsókn málanna á sínum tíma en ekki haft erindi sem erfiði. Þó var það þannig að þegar Simon Cox var kominn aftur heim til Englands náðist samband á SKYPE við einn þeirra sem unnu að rannsókninni en það var Valtýr Sigurðsson. Valtýr var einmitt yfirmaður frumrannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík. Valtýr var þá ungur að árum en hafði mun umfangsmeiri þekkingu á sviði lögfræði en samstarfsmennirnir, sem þó voru flestir eldri og reyndari. Valtýr er sérlega snjall lögfræðingur og átti í framhaldi af þessu eftir að ná miklum frama sem slíkur. Hann var dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og síðar Ríkissaksóknari. Einnig sinnti hann starfi fangelsismálastjóra en starfar nú að öðrum málum.
Fyrir okkur sem höfum fylgst með umfjöllun um þessi mál hér á landi er verulegur fengur í þessu stutta en snaggaralega
Það hefur yfirleitt verið háttur rannsóknarmanna í þessu máli þegar leitað hefur verið eftir viðbrögðum þeirra við gagnrýninni umfjöllun, að neita öllum viðtölum. Í kvikmynd Sigursteins Mássonar Aðför að lögum er t.d. aðeins einn rannsóknarmaður (Gísli Guðmundsson) sem tjáir sig, þrátt fyrir að leitast hafi verið við að fá fram viðhorf fleiri rannsóknarmanna.
En Valtýr er glaðbeittur í þessu viðtali og svarar spurningum BBC fréttamannsins skýrt og greiðlega. Fátt af því sem Valtýr segir kemur á óvart, hann er greinilega sáttur við dóm Hæstaréttar og telur að hinir dæmdu séu sekir. Í lok viðtalsins talar hann um að margar vísbendingar (clues) hafi verið um að atburðir hafi gerst með ákveðnum hætti í Keflavík.
Yes, clues but no proof segir Simon Cox og innir Valtý eftir sönnunum.
Þá segir Valtýr:
We have lot of proofs that Erla was in Keflavík
Við höfum margar sannanir fyrir því að Erla Bolladóttir var í Keflavík.
Frá bæjardyrum undirritaðs er tilefni til að staldra við
og hugleiða aðeins þessa fullyrðingu Valtýs.
Erla Bolladóttir var hneppt í gæsluvarðhald í desember 1975 vegna svonefnds póstsvikamáls þar sem hún játaði sök. Fljótlega fóru yfirheyrslur yfir Erlu að snúast um dularfulla atburði sem að mati lögreglu gætu hafa gerst í Hafnarfirði í janúar 1974, næstum tveimur árum áður. Fyrsta yfirheyrslan yfir Erlu markar "upphaf" svonefnds Guðmundarmáls, hún fór fram 20. des. 1975 og er skráð 7 klst.
Skýrslan hefst á orðunum:
Tilefni þess að Erla er mætt hér sem vitni er það
að lögreglu hefur borist til eyrna að...
Hvergi hefur verið útskýrt hvaðan þetta svokallaða tilefni kom.
Skýrsla Erlu er fyrsta skráða skýrslan í málinu.
Erla gaf mjög óljósa og draumkennda skýrslu, henni var sleppt samdægurs og komst þannig heim til þriggja mánaða gamallar dóttur sinnar yfir jólin. Hún var síðan hneppt í gæsluvarðhald vegna Geirfinnsmáls 4. maí og var í haldi til 22. desember 1976. Á þessu tímabili eru skráðar 105 yfirheyrslur yfir Erlu.
Réttargæslumaður Erlu var þó aðeins viðstaddur samskipti hennar við rannsakendur í eitt skipti af þessum 105.
Í þessum 105 (skráðu) yfirheyrslum yfir Erlu ber ýmislegt á góma, eins og vænta má. Til dæmis ferð til Keflavíkur. Einnig koma fram í þessum yfirheyrslum nokkrar útgáfur af meintri ferð Erlu til baka frá Keflavík. Á tímabili virtist svo sem hún hefði verið samferða öðrum sakborningum til Reykjavíkur á Land Rover bifreið, en á öðrum tímabilum útskýrir hún ferð sína til baka með því að hún hafi farið ¨á puttanum til Reykjavíkur. Í niðurstöðu Hæstaréttar er notuð sú útgáfa sögunnar að Erla hafi dvalist næturlangt í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni og síðan húkkað sér far til Reykjavíkur. Skýrsla er tekin af EB 23. jan 1976. Þrátt fyrir að flestu sem þar kemur fram um atvik sé hafnað í dómi Hæstaréttar, er þetta atriði látið halda sér, þ.e. að Erla hafi farið á puttanum til Reykjavíkur að morgni 20.nóv. Hún segist hafa farið með Moskvitch bifreið fyrri hluta leiðarinnar, að Grindavíkurafleggjara en fengið far með vörubíl þaðan og til Hafnarfjarðar. Hún tekur ekki fram tegund né lit vörubílsins en í síðari skýrslum talar hún um að ökumaðurinn hafi sagst hafa starfað við malar eða grjótnám og hafi reykt pípu. Í framhaldi af þessum upplýsingum fór fram skipuleg leit að vörubílstjóra sem svarað gæti til lýsingarinnar en sú leit skilaði ekki árangri.
Vörubílstjórinn
Snemma vors 1976 lýsti lögregla eftir malar eða grjótflutningabifreið sem gæti hafa tekið stúlku upp í að morgni 20. nóv.1974 Þann 11. apríl 1976 gefur sig fram maður (Á.R.) sem oft átti þarna leið um þetta leyti á vörubifreið. Hann starfaði um þetta leyti við að flytja síldartunnur frá Siglufirði til Keflavíkur og ók þessa leið því oft og reglulega. Fram kemur í ökudagbók mannsins að hann hafði ekið þessa leið 20. nóv. Bifreið hans var vörubíll með háum trégrindum á hliðum. Í skýrslunni segir hann:
Í einni af þessum ferðum man ég eftir því að ég tók upp í bifreiðina stúlku á Reykjanesbrautinni. Maðurinn heldur því hvergi fram að hann muni hvaða dag hann tók stúlkuna upp í. Í dagbókinni kemur fram að hann hafi ekið þessa leið þennan dag. En það gerði hann líka marga aðra daga haustið 1974, jafnvel oft í hverri viku, þar sem hann hafði þann starfa að keyra leiðina. Í framhaldi af skýrslunni fór fram sakbending þar sem Á.R. sá Erlu Bolladóttur ásamt fjórum öðrum stúlkum. (20% líkur m. v. random.)
Ekki gat hann bent á neina þeirra sem stúlkuna sem hann kvaðst hafa tekið upp í.
Eftir stendur:
1. Samkvæmt dagbók mannsins ók hann þessa leið 20. nóv.
2. Maðurinn ók leiðina oft og reglulega um þetta leyti.
3. Í einni af þessum ferðum þá um haustið tók hann stúlku upp í.
4. Hann þekkti stúlkuna ekki við sakbendingu.
Nóg um þetta, varla er þetta sönnunin sem Valtýr talar um.
Moskvitch maðurinn:
Auglýst var einnig eftir ökumanni Moskvitch bifreiðar sem Erla hafði sagst hafa fengið far með að Grindavíkurafleggjaranum. Ökumaðurinn G.S.J. gaf sig fram og gaf skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 30. mars. 1976.
Í skýrslu hans kemur fram að hann muni eftir að hafa tekið stúlku upp í einhverntíma um haustið 1974 og ekið henni þessa leið, frá afleggjaranum að Höfnum og að Grindavíkurafleggjara. Hann geti ekki dagsett það nákvæmlega hvenær hann hafi tekið stúlkuna upp í né heldur á hvaða tíma dags.
Í skýrslunni segir: Ég minnist þess að ég var hjá dóttur minni í Sandgerði eina nótt haustið 1974 og þá gæti þetta komið heim og saman við þann atburð sem um er rætt
Í þessari skýrslu sem tekin er 30. mars 1976 kveðst hann hafa
ekið á Skoda bifreið sem hann átti.
Hvergi er minnst á Moskvitch.
Þó hafði lögreglan ekki lýst eftir ökumanni Skoda bifreiðar, heldur Moskvitch.
Að skýrslutöku lokinni fór fram sakbending
þar sem nokkrar stúlkur stilltu sér upp.
Ekki er tekið fram hve margar.
Maðurinn kveðst telja að ein þeirra stúlkna sem stillt var upp
kæmi til greina og benti á Erlu Bolladóttur.
Ökumaður Skoda/Moskvitch bifreiðarinnar mætti síðan fyrir Dómþing Sakadóms Reykjavíkur þann 26. maí 1977.
Hann hefur mál sitt á því að hann hafi:
Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974 tekið stúlku upp í bifreið sína í Keflavík
Vitnið staðfestir að bifreið þess hafi verið af gerðinni Skoda 1000.
Einnig segist hann nú hafa eitt sinn um þetta leyti fengið lánaða bifreið hjá vinnufélaga sínum og hafi þetta verið Moskvitch og gulgræn að lit að vitnið minnir og frekar illa farin."
Telur vitnið jafnvel sennilegt að það hafi verið á þeirri bifreið.
Hann kveðst nú ekki hafa gist í Sandgerði,
heldur hafi fóstra hans átt afmæli 19. nóvember 1974.
Hann hafi verið í afmælisveislunni í Garðabæ ásamt fjölda fólks um kvöldið en síðan farið af stað árla morguns og ekið suður í Sandgerði.
Sakbendingin frá 30. mars er rifjuð upp og staðfestir maðurinn að í sakbendingunni hafi Erla hafi verið:
líkust stúlkunni", af þeim stúlkum sem stillt var upp.
Maðurinn þekkir Erlu á mynd sem honum er sýnd í þessu dómþingi sem fram fór eins og áður sagði 26. maí 1977.
*****
Í þessum tveimur skýrslum er margt athyglisvert.
er sérstaklega sérstaklega tekið fram að hér sé um Greinargott vitni að ræða".
Ekki er þó unnt að lesa það út úr framburði mannsins að hann sé
á neinn hátt öruggur um meint atvik.
Í sakbendingunni 30.mars 1976 heldur hann því hvergi fram
að Erla sé sú sem hann tók upp í bílinn.
Hann kveðst hinsvegar telja að ein stúlknanna komi til greina.
Hann bendir á Erlu og er honum þá sagt að þetta sé Erla Bolladóttir.
Í skýrslunni fyrir dómi lýsir hann því þannig að honum
hafi þótt Erla líkust stúlkunni, af þeim stúlkum sem stillt var upp.
Einnig vekur það nokkra athygli að bifreið sú sem var í eigu mannsins á þessum tíma var alls ekki af Moskvitch gerð. Skv. bifreiðaskrá 1974 ók hann um á bifreið af gerðinni Skoda 1000. Fyrir dómi hefur hann mál sitt á því að hann hafi "Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974" tekið stúlku upp í. Talar síðan um afmælisveisluna og segist síðan "eitt sinn um þetta leyti" hafa fengið lánaða Moskvitch bifreið hjá vini sínum og er vitnið óklárt á því hvor tegundin var notuð, annaðhvort Moskvitch eða Skoda
Athyglisvert er í þessu samhengi að í beinu framhaldi af því að þessar upplýsingar komu fram breyttist framburður Erlu á þann veg að hún hættir að tala um Moskvitch bifreið, heldur hafi verið um að ræða annaðhvort Moskvitch eða Skoda
Ekki aðeins er samræmi milli tegundanna sem þau nefna, heldur er einnig samræmi í óvissu þeirra, um hvaða tegund var um að ræða. Þetta samræmi hlýtur að teljast sérkennilega fullkomið. Allavega er umhugsunarefni hvernig slíkt samræmi getur myndast.
Möguleikarnir eru tveir:
1.Tilviljun.
2. Spilliáhrif (Contamination).
Þetta atriði minnir óneitanlega nokkuð á atriði sem margir kannast við úr svonefndu Guðmundarmáli en þar áttu bifreiðir það til að breytast úr einni tegund í aðra. Þá vekur það furðu hve stutt og ónákvæm skýrslan um sakbendinguna er. Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp. Maðurinn segist hvergi í skýrslunni hafa tekið Erlu upp í bílinn. En hann telur að Erla komi til greina. Sú "niðurstaða" virðist fullnægja allri forvitni, ekkert meira er skráð og maðurinn fer.
(Aðrar sakbendingar fóru fram, sem 4 lykilvitni tóku þátt í og miðuðu að því að staðsetja einhvern sakborninganna í Keflavík að kvöldi 19. nóv. Þær misheppnuðust eins fullkomlega og hugsanlegt er, að því leyti að niðurstöður þeirra voru fullkomlega ósamrýmanlegar þeim rannsóknartilgátum þeim sem uppi voru.
Og eru þó enn í niðurstöðu Hæstaréttar frá 1980)
Hvergi nefnir ökumaður Skoda/Moskvitch bifreiðarinnar tilefni meintrar ferðar sinnar svo árla morguns eftir gleðskapinn kvöldið áður.
Maðurinn þekki Erlu af mynd sem honum var sýnd í dómþinginu 26. maí 1977.
Þar virðist eiga að vera um einhverkonar stuðning að ræða við sakbendinguna. Varla hafði þó liðið dagur um nokkurra mánaða skeið að ekki væru myndir af Erlu og öðrum sakborningum á forsíðum dagblaða, ásamt frásögnum af glæpaverkum þeirra. Það hefði því líklega verið meiri leitun um þessar mundir að þeim Íslendingi sem ekki hefði þekkt persónuna á myndinni.
Eftir stendur:
1. Hann man ekki hvar:
Hann segist í fyrstu skýrslunni muna, að hafa tekið stúlku upp í við afleggjarann að Höfnum, nokkuð fyrir utan Keflavík, ofan við Njarðvík. Í þeirri síðari segir hann að það hafi verið á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu, inni í miðbæ Keflavíkur.
2. Hann man ekki hvenær:
Í fyrstu skýrslunni segir hann:
Ég get ekki fullyrt á hvaða tíma dags,
né heldur get ég dagsett þennan atburð
Þ.e.a.s. hvenær hann tók stúlku upp í Skoda/Moskvitch bifreiðina.
Í þeirri síðari talar hann um afmælisveisluna 19. nóv. En segir jafnframt að þetta hafi verið einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974
Þarna er mótsögn, þannig virðist hann ekki viss um það hvort hann sé öruggur eða óöruggur hvað varðar dagsetninguna. Þetta minnir óneitanlega nokkuð á lýsingu eins sakborninga í málinu, þegar hann kvaðst eftir langt gæsluvarðhald, vera orðinn "50% viss" um að hafa drepið mann.
3. Fyrir dómi breytir maðurinn framburði um ferðir sínar þessa daga í grundvallaratriðum frá lögregluskýrslunni.
Í fyrri skýrslunni segist hann hafa gist í Sandgerði. Í síðari skýrslunni segist hann hafa farið árla morguns til Sandgerðis, stoppað þar í örstutta stund og haldið síðan af stað til Reykjavíkur.
Hvergi kemur fram hver hafi verið tilgangur ferðarinnar um morguninn, né hvaðan hann fór, eða hvar hann gisti um nóttina, þ.e.a.s. samkvæmt síðari framburði sínum. En hann var búsettur á Seltjarnarnesi.
Samkvæmt síðari framburði mannsins, 26. maí 1977, ók hann til Sandgerðis, morguninn eftir afmælið, síðan aftur til Reykjavíkur (Seltjarnarness?) Síðan suður aftur til Grindavíkur. Hann var mættur til vinnu í Grindavík samdægurs skv. sama framburði sínum fyrir dómi.
4. Hvergi í sakbendingunni heldur hann því fram að Erla sé stúlkan sem hann tók upp í, haustið 1974. Einungis að það "komi til greina" og orðar það svo fyrir dómi að honum hafi þótt Erla "líkust stúlkunni" af þeim sem stillt var upp.
5. Sakbending eftir myndum fyrir dómi
er augljóslega merkingarlaus vegna spilliáhrifa frá fjölmiðlum.
Ekki aðeins höfðu myndirnar verið birtar, heldur einnig játningar sakborninga og yfirlýsingar frá Karl Shütz um að málið væri "algjörlega öruggt". Hvergi sást örla á vafa um sekt sakborninga. Einnig hafði birst yfirlýsing frá ráðherra dómsmála: "Martröð er létt af þjóðinni" Vitnið hefur þannig ýmis tilefni til að telja málið öruggt, með eða án síns framburðar og hefur engar forsendur til að gera sér grein fyrir því að hvorki er um efnisleg gögn né önnur vitni að ræða.
6. Sakbendingin og skýrslan um hana er stórkostlega gölluð, ónákvæm og furðulega knöpp, m.v. hugsanlegt mikilvægi vitnisins.
Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp.
(Í hinni árangurslausu sakbendingu þegar vörubílstjórinn mætti voru þær fjórar auk Erlu. Með því eru 20% líkur á "árangri" m.v. slembiaðferð)
7. Hann man ekki hvaða tegundar bifreiðin var sem hann ók.
En nefnir þó við yfirheyrsluna báðar sömu tegundir og Erla telur koma til greina. Hafi maðurinn tekið farþega upp í bílinn einhverntíma þarna um haustið eða veturinn, hefur væntanlega verið um eina tegund bifreiðar að ræða, af einni tegund.
Í dómsniðurstöðu Hæstaréttar eru báðar tegundir enn nefndar.
Að maðurinn skuli ekki muna hvaða tegund bíllinn var, rýrir vissulega trúverðugleika vitnisins. Hitt hlýtur þó að teljast mun merkilegra:
Að samræmi skuli vera í óvissu þeirra um hvora tegundina var um að ræða.
*****
Með hliðsjón af framansögðu
er því hér virðingarfyllst haldið fram
að framburður mannsins geti hvorki talist
greinargóður né trúverðugur.
Erla er talin hafa reykt Winston
en það mun reyndar hafa verið vinsæl tegund á þessum árum.
Eftir stendur:
1. Þarna er komin örugg vísbending um að sígarettur
hafi verið reyktar á þessum slóðum á árunum ca. 1974 1977.
Ekki er vitað af hvaða tegund.
Stærsti sígarettustubbur heims. Listaverk á Trafalgar Square, London.
Þar sem ekki er um aðrar vísbendingar (clues) að ræða en þá framburði vitna sem hér hafa verið raktir og þau efnislegu sönnunargögn sem nefnd hafa verið:
Er því hér með virðingarfyllst og staðfastlega haldið fram
að það sé með öllu ósannað að Erla Bolladóttir
hafi verið í Keflavík aðfaranótt 20. nóvember 1974.
***
Eigi verður séð af neinum þeim gögnum sem hér hafa verið rakin að það sé á neinn hátt hægt að túlka þau sem sönnun þess að Erla Bolladóttir hafi verið í Keflavík aðfaranótt 20. nóv. 1974. Engin efnisleg sönnunargögn benda til þess, einungis mjög svo reikull og ónákvæmur framburður annars tveggja meintra bílstjóra bendir til að það komi til greina. En þar sem enginn hefur svo vitað sé, haldið því fram að Erla hafi verið þarna ein á ferð, hlýtur að vera tilefni til að líta á þetta atriði í örlítið stærra samhengi:
Framkvæmdar voru fleiri sakbendingar sem höfðu að markmiði að staðsetja einhvern sakborninga í Keflavík umrætt kvöld 19.nóv. Hér að framan hefur verið fjallað um þær sem beindust að Erlu. En einnig fór fram sakbendingar þar sem reynt var að fá þau fjögur vitni sem sáu manninn sem talinn er hafa hringt í Geirfinn, til að staðfesta að sá maður væri Kristján Viðar. Er skemmst frá því að segja að ekkert þessara fjögurra vitna taldi að um sama mann væri að ræða.
Fjögur vitni sáu manninn sem hringdi. Í dómi HR 1980 er fjallað um þau:
1. Um vitnið Á.E.G. segir:
Vitnið mætti tvisvar í sakbendingu hjá lögreglu en ekki sá það neinn í þeim hópum manna sem það taldi sig geta bent á sem mann þann sem komið hefði í Hafnarbúðina umrætt sinn og hringt.
2. Um vitnið H. B. Ó. segir :
Vitninu voru sýndar myndir af Kristjáni, Sævari og Guðjóni. Vitnið kveðst ekki geta staðhæft hvort einhver þeirra hafi komið í Hafnarbúðina til að hringja.
3. Um vitnið J.G. segir:
Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari. Vitnið kveðst ekki geta sagt um hvort þessir menn hafi komið inn í Hafnarbúðina.
4. Um vitnið G.K.J. segir:
Vitnið kveðst hafa mætt í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu en ekki hafa séð neinn mann þar, sem það taldi vera umræddan mann. Það kveðst hafa séð að Kristján Viðar var í hópnum við sakbendingu en það hafði séð hann áður og vissi hver hann var. Vitnið segir að framangreindur maður hafi ekki verið Kristján Viðar.
Ekki var um fleiri vitni að ræða en þessi fjögur samhljóða vitni. Með framburði þeirra er ljóst að það var enginn sakborninganna sem hringdi í Geirfinn að kvöldi 19. nóv. 1976. Hér liggur fyrir stöðugur og samhljóða framburður fjögurra vitna þess efnis.
Þegar upp er staðið eru 6 sakbendingar sem miða að því að staðfesta að þeir sem dæmdir voru í Hæstarétti 1980 hafi verið í Keflavík. Reikull og óstöðugur framburður Moskvits/Skoda mannsins, á þá leið að Erla sé líkust þeirri sem hann tók upp í bílinn, þá um haustið eða veturinn, hún komi til greina o.s. frv, fær hvergi stuðning en er andstæður framburðum vitnanna úr Hafnarbúðinni, nema að verið sé að halda því fram að Erla hafi verið ein á ferð...
Í dómi HR er gengið út frá því að ákveðinn hópur hafi verið á ferð í Keflavík 19. nóv 1974.
Hins vegar eru sakbendingarnar yfir Kristjáni Viðari ekkert annað en sönnun þess að ekki var um hann að ræða. Ekkert vitnanna fjögurra bendir á neinn þremenninganna, Kristján Sævar né Guðjón. Aðal vitnið sem afgreiddi manninn kveðst hins vegar hafa þekkt Kristján í sjón frá því löngu áður og staðfestir þannig endanlega að ekki var um Kristján að ræða.
Um þetta segir í dómi Hæstaréttar frá 1980:
Miða verður við það að ákærðu hafi komið í bifreiðinni að Hafnarbúðinni og að annaðhvort Kristján Viðar eða Sævar hafi hringt þaðan til Geirfinns.
*****
Í viðtalinu við BBC nefnir Valtýr aðeins þennan anga málsins:
We have many proofs that Erla was in Keflavík.
En væri ekki ágætt að byrja á að sanna að glæpur hafi átt sér stað ?
Valtýr er auðvitað þaulreyndur og með mikla sérþekkingu á þessu máli þar sem hann var stjórnandi frumrannsóknarinnar í Kef. Það er engin tilviljun að hann nefnir þennan anga málsins. Þarna eru alltént tvö vitni, og annað þeirra bendir á Erlu við sakbendingu.
Og aukreitis eru efnisleg sönnunargögn: Stubbarnir !
En auðvitað eru sönnunargögn með ýmsum hætti, (Forensic circumstancial), stundum vefjast þau um sakborninginn eins og tvinni. En öðrum stundum eru þau sem keðja, sem aldrei verður þó sterkari en veikasti hlekkurinn. Það er skoðun undirritaðs að þar sem atriðið sem Valtýr velur að nefna sem öruggt í þessu máli er þó ekki öruggara en hér hefur verið rakið, þá hljóti önnur atriði þess að þurfa að vera feikna sterk, þannig að sá vafi sem hugsanlega leiki á um meinta ferð Erlu til Keflavíkur og til baka, myndi eyðast með öllu við lestur frekari gagna. En því er nú aldeilis ekki að heilsa. Þessi meinta ferð Erlu frá Keflavík er auðvitað eins konar angi á jaðri málsins. En hver er þá kjarni þess? Frá bæjardyrum undirritaðs er kjarni málsins sá að maður týndist í Keflavík. Aðdragandi mannshvarfsins var með þeim hætti að full ástæða var til að lýsa ekki aðeins eftir hinum týnda, heldur einnig öðrum manni sem virtist hafa boðað hinn horfna á stefnumót. Fyrsta skrefið í að leysa gátuna um mannshvarfið hlýtur að vera að finna þann sem boðaði hinn horfna á stefnumótið.
Í dómi Hæstaréttar 1980 er með ótrúlega bíræfnum hætti skautað fram hjá þessum kjarna málsins.
Þar blasir við sú sorglega staðreynd að skýrum og greinargóðum framburðum allra 4 vitnanna sem sáu manninn, var einfaldlega sópað í burtu. Hvers vegna það var gert er ákveðin ráðgáta en ljóst er að miklar væntingar voru bundnar við að málinu færi að ljúka.
Með hliðsjón af framansögðu verður undirrituðum hugsað til hinna
fleygu orða Isaacs Asimovs:
Ég trúi á sönnunargögn.
Ég trúi á athuganir, mælingar og rökfærslu,
staðfesta af óháðum athugendum.
Ég mun trúa hverju sem er,
hversu fjarstæðukennt og fáránlegt sem það er,
ef það er sannað.
En því fjarstæðukenndara og fáránlegra sem það er,
því þéttari og gegnheilli þurfa sönnunargögnin að vera.
Mál er að linni:
Þegar á heildina er litið og öll gögnin skoðuð með opnum huga hlýtur það að vekja furðu hve rannsakendur mátu lítils hættu á röngum framburðum við þessar aðstæður. Allt kapp virtist vera á að ná fram játningum og samræma framburði. Varla nokkurs staðar í gögnum málsins virðist örla á gagnrýninni hugsun um áreiðanleika framburða sakborninganna, svo fremi þeir væru nýtilegir við að samræma einhvers konar mynd af þeim rannsóknartilgátum sem fram voru komnar. Öll vinna rannsóknarmanna meðan á gæsluvarðhaldinu stendur í Síðumúla virðist miða við það að eftir mánuði í einangrun, strangar yfirheyrslur, jafnvel árum saman og aðrar þær mótverkandi kringumstæður sem þarna voru uppi, séu sakborningar enn fullir af slíkum ofurmannlegum viðnámsþrótti að þeir haldi mikilvægum upplýsingum leyndum og þræti, endalaust, út í hið óendanlega. Motiv sakborninganna sé enn það eitt, að þræta, afvegaleiða og rugla rannsóknarmenn, jafnvel eftir hundruð yfirheyrslna, þar sem unnið er í vaktavinnu við yfirheyrslur, harðræði beitt, fangaverðir yfirheyra, og mönnum haldið vakandi dögum saman. Vissulega var þekking manna á réttarsálfræði ekki sambærileg við nútíma þekkingu. En almenn skynsemi hefði átt að geta komið að notum og vissulega hefði verið tilefni til að taka mið af sérfræðiáliti lækna.
(Þó ekki hefði verið nema við Úrlausn Hæstaréttar við ndurupptökukröfu SMC 1997.)
Framburðir í þessu máli eiga sér hvergi nein hvörf heldur þróast sagan og mjakast jafnt og þétt eins og seigfljótandi leðja, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, þar til rannsóknarmenn virðast gefast upp og segja nóg komið.
Niðurstaðan er tré án stofns, saga sem gengur ekki upp að neinu leyti nema í einstökum og stundum ótrúlega nákvæmum smáatriðum.
Miklu skynsamlegri og einfaldari skýring á þessu öllu saman er auðvitað sú að sakborningar höfðu aldrei neina hugmynd um þá atvikalýsingu sem þeir þó voru að hjálpa rannsóknarmönnum að púsla saman, eftir að hafa gefið falskar játningar í byrjun. Motiv þeirra var miklu fremur að reyna að finna nothæfan endapunkt á þessa dæmalausu hringavitleysu. Í dómi Hæstaréttar er rökstuðningurinn talinn felast í því samræmi sem myndast hafði milli framburða sakborninga um einstök málsatvik. Hvergi virðist örla á gagnrýni á það hvernig þetta samræmi er til komið. En auðvitað reyna sakborningarnir allt til að ná samræmi sín á milli og hjálpa þannig lögreglunni og fá hjálp frá henni til að púsla saman sögunni svo að þessum að því er virðist endalausa ógnarhryllingi linni.
Mál er að linni.
T.H.
Bloggar | Breytt 18.3.2021 kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)