"Martröð létt af þjóðinni"

olafur_johannesson

"Martröð létt af þjóðinni"

var haft eftir Dómsmálaráðherra Ólafi Jóhannessyni, þegar rannsókninni lauk með miklum blaðamannafundi 2. febrúar 1977, þar sem hinn þýski pólitíski rannsóknarmaður Karl Schütz kynnti niðurstöður sínar. Martröðinni var þó engan veginn létt af dómskerfinu, því nú skyldi málið dómtekið. Miðað við fyrrnefnda yfirlýsingu var þess þó vart þörf... Dómur féll í Hæstarétti 22. Febrúar 1980. Þó einstaka "kverúlanti" þætti á þeim tíma að seilst væri um skör fram í að dæma menn seka án fullnægjandi gagna, ríkti einhugur með þjóðinni um að dæma skyldi. Hvatinn að þessari samstöðu íslendinga var þó fremur sá að þjóðin var langþreytt á þessu vafstri, en að fólk hefði raunverulega skilning á málatilbúnaðinum. Hafi venjulegir íslendingar dottað yfir hinni 15 klst. löngu sóknarræðu ríkissaksóknara gátu þeir varla efast um að öllum spurningum hafi þar verið svarað. Almenningur treysti einfaldlega fagmönnum til verksins. En í 20 ár hefur verið fjallað um málið í ótal blaðagreinum, bókum, útvarpsþáttum, sjónvarpsþáttum og einni heimildarmynd. Þó umfjöllun hafi á köflum verið grunn, hefur hún orðið til þess að sífellt fleirum hefur orðið ljóst að ekki var allt með felldu við afgreiðslu málsins. Ekkert nýtt hefur komið fram sem styður við niðurstöðurnar en atriðin sem varpa vafa á sekt dómþola í málinu virðast verða fleiri eftir því sem árin líða. Segja má að fæst af því séu ný gögn, fram komin eftir dóm Hæstaréttar 1980. Heldur er um að ræða atriði sem mönnum hafði yfirsést en koma í ljós við nánari athugun og samanburð á fyrirliggjandi málsskjölum. Í áranna rás hafa menn fengið tóm til að grúska í hinum fyrirliggjandi gögnum og afla nýrra. Þar sem um er að ræða yfir 10.000 bls. af skýrslum og skjölum, er "eðlilegt" að dómurum málsins hafi yfirsést eitt og annað, rétt eins og verjendum sakborninga og öðrum, enda registur málsins með afbrigðum lélegt. Einnig hafa komið fram ný gögn sem dómurum var ókunnugt um við dómsuppkvaðningu. Hið gríðarlega umfang málsins varð til þess að vankantar ríkjandi réttarkerfis komu betur fram en nokkru sinni. Það sjá menn best eftirá, enda hafa verið gerðar verulegar breytingar síðan. Önnur afleiðing þessa ógnarlega umfangs var sú að handhægt svar við áleitnum spurningum var jafnan tiltækt: "Það er nú svo margt annað í þessu máli…"

handjarn

En með gögnum á borð við greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar og úrlausn Hæstaréttar vegna endurupptökubeiðninnar er mun aðgengilegra nú en áður að öðlast heildaryfirsýn yfir málið. Á vefsíðu sem sett hefur verið upp á slóðinni er hægt að kynna sér málið. Þar er að finna nánast allt sem skrifað hefur verið um málið í íslenska prentfjölmiðla á undanförnum árum. Einnig Hæstaréttardóminn frá 1980, úrlausn Hæstaréttar frá 1997, auk málsskjala, greinargerða, og gagna af ýmsu tagi. Þannig hefur aðgengi að upplýsingum aukist, enda eru þeir ófáir, fagmenn jafnt og leikmenn sem í tímans rás hafa með aukinni þekkingu endurskoðað afstöðu sína.

Umfjöllun um Hæstaréttarmálið nr. 214/1978, Guðmundar-og Geirfinnsmál, hefur á undanförnum áratugum verið mikil og misjöfn. Þeir sem af ýmsum ástæðum virðast álíta niðurstöður málsins réttar, hafa einkum mætt gagnrýni með því að beina umræðunni að því hvort þær upplýsingar sem varpa rýrð á niðurstöður hafi legið fyrir við dómsuppkvaðningu eða ekki, fremur en að taka gagnrýnina málefnalegum tökum. Það sem vitnar best um þetta er að sjálfsögðu hin annars vandaða úrlausn Hæstaréttar frá 15. Júlí 1997.

Málflutningur "endurupptökusinna" hefur hinsvegar einkennst af óvæginni gagnrýni á störf lögreglunnar almennt. Slíkar "níhiliskar" alhæfingar eru alls ekki til þess fallnar að beina umræðunni á skynsamlegar brautir. Bent skal á að þrautreyndir og grandvarir lögreglumenn hafa ekki verið eftirbátar annara við að benda á vankanta málsins. Enda illt fyrir heila starfsstétt að liggja undir ámæli vegna afglapa örfárra manna. Við frumrannsóknina í Keflavík starfaði lítill hópur manna og sumir þeirra aldeilis engir kórdrengir. Einn rannsóknarmanna Geirfinnsmáls hefur einn íslenskra lögreglumanna hlotið fangelsisdóm fyrir ólöglega handtöku og tilbúin sönnunargögn sem hann kom fyrir á vettvangi "glæpsins". Var það í máli leigubílstjóra sem sakaður var um vínsölu á suðurnesjum, eins og mörgum er í fersku minni. Menn hljóta að spyrja hvort eitthvað sé líkt með þeirri "rannsóknartækni" sem var beitt í máli leigubílstjórans og þeirri sem notuð var við teiknimyndargerðina af framkvæmdastjóra veitingahússins Klúbbsins.

Við upphaf framhaldsrannsóknar Geirfinns- og Guðmundarmáls voru aðalstarfskraftar tveir rannsóknarlögreglumenn og einn rannsóknardómari. Löngu áður en dæmt var í undirrétti höfðu komið fram verulegar athugasemdir við störf þeirra frá einum af dómurum málsins. Var dómurunum þó allt til ársins 1997 ókunnugt um að fölsuð opinber gögn höfðu verið fyrir þá lögð. Um er að ræða falsað "staðfest" endurrit úr dagbók Síðumúlafangelsis. Skv. hinu falsaða endurriti var ekkert bókað um að Sævar hafi fengið ómannúðlega meðferð. Ófölsuð staðfestir dagbókin hinsvegar að verulegu harðræði var beitt. Um þetta segir m.a. í úrlausn Hæstaréttar :

Þegar framangreind atriði eru virt í heild er ljóst að dómfelldi sætti ólögmætri meðferð í gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsi, einkum í apríl og maí 1976, í nokkuð meiri mæli en kunnugt var um við úrlausn málsins…

Þó marga hafi rekið í rogastans við að lesa harðræðislýsingar þær sem sleppt var í endurriti úr dagbókinni, er hitt e.t.v. mikilvægara, að þetta atriði sannar að svo langt var gengið af opinberum embættismanni að falsa opinber gögn til að leyna því harðræði.

Á upphafsárum þessa máls kom fram á Íslandi nýyrðið "rannsóknarblaðamaður". Nokkrir slíkir voru mættir á blaðamannafund sem haldinn var 2. febrúar 1977. Þar kynnti þýski rannsóknarmaðurinn Karl Shütz niðurstöður rannsóknarinnar, þ.á.m. að maðurinn sem nefndur var "Leirfinnur", væri Kristján Viðar Viðarsson og að Sævar hefði einnig farið inn í Hafnarbúðina. Af því tilefni spurði rannsóknarblaðamaður nokkur hvers vegna ekkert hinna fjögurra vitna hefði þekkt þá við sakbendingar. Enginn benti á það sem meira er, að aðalvitnið þekkti Kristján við sakbendingu og staðfesti endanlega að ekki hefði verið um hann að ræða...  Svar hins "pólitíska lögreglumanns", eins og Shütz kýs sjálfur að skilgreina sig í æviminningum sínum, verður lengi í minnum haft:

"Þetta sýnir hve fólk gleymir miklu á stuttum tíma" var svarið.

Tryggvi Hübner.



Valtýr Sigurðsson í viðtali hjá BBC

iceland_launcher_v2 

Þann 15. maí 2014 var fluttur á BBC Radio World Service útvarpsþátturinn “The Reykjavik Confessions”, þar sem fréttamaðurinn Simon Cox fjallaði um svonefnd Guðmundar og Geirfinnsmál.

Simon_cox_rhs

 

 

Það er óhætt að segja að umfjöllun BBC hafi vakið athygli, bæði hér á Íslandi og erlendis. Statistikin er einsdæmi í vestrænni réttarfarssögu:

 

Allt að 655 dagar í hörku yfirheyrslum og  einangrun í Síðumúlafangelsi.

 

 

Sidumuli

 

Í framhaldi af útsendingu þáttarins var birt margmiðlunarefni á vefsíðu BBC, þar sem bæði var skrifaður texti, hljóðklippur og video. Þetta efni, þ.e.a.s. útvarpsþátturinn og  vefsíðan,  hefur víða vakið athygli og beinir sannarlega athygli umheimsins að íslensku réttarkerfi fyrr og nú. Simon Cox tekur það skýrt fram í þættinum að hann hafi reynt mikið að fá viðbrögð þeirra sem störfuðu við rannsókn málanna á sínum tíma en ekki haft erindi sem erfiði. Þó var það þannig að þegar Simon Cox var kominn aftur heim til Englands náðist samband á SKYPE við einn þeirra sem unnu að rannsókninni en það var Valtýr Sigurðsson. Valtýr var einmitt yfirmaður frumrannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík. Valtýr var þá ungur að árum en hafði mun umfangsmeiri þekkingu á sviði lögfræði en samstarfsmennirnir, sem þó voru flestir eldri og reyndari. Valtýr er sérlega snjall lögfræðingur og átti í framhaldi af þessu eftir að ná miklum frama sem slíkur. Hann var dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og síðar Ríkissaksóknari. Einnig sinnti hann starfi fangelsismálastjóra en starfar nú að öðrum málum.

Fyrir okkur sem höfum fylgst með umfjöllun um þessi mál hér á landi er verulegur fengur í þessu stutta en snaggaralega  

viðtali við Valtý. 

Valtýr

 

Það hefur yfirleitt verið háttur rannsóknarmanna  í þessu máli þegar leitað hefur verið eftir viðbrögðum þeirra við gagnrýninni umfjöllun, að neita öllum viðtölum. Í kvikmynd Sigursteins Mássonar “Aðför að lögum” er t.d. aðeins einn rannsóknarmaður (Gísli Guðmundsson) sem tjáir sig, þrátt fyrir að leitast hafi verið við að fá fram viðhorf fleiri rannsóknarmanna.

En Valtýr er glaðbeittur í þessu viðtali og svarar spurningum BBC fréttamannsins skýrt og greiðlega. Fátt af því sem Valtýr segir kemur á óvart, hann er greinilega sáttur við dóm Hæstaréttar og telur að hinir dæmdu séu sekir. Í lok viðtalsins talar hann um að margar vísbendingar (clues) hafi verið um að atburðir hafi gerst með ákveðnum hætti í Keflavík.

“Yes, clues but no proof” segir Simon Cox og innir Valtý eftir sönnunum.

Þá segir Valtýr:

 

“We have lot of proofs that Erla was in Keflavík”  

“Við höfum margar sannanir fyrir því að Erla Bolladóttir var  í Keflavík.”  

Frá bæjardyrum undirritaðs er tilefni til að staldra við

og hugleiða aðeins þessa fullyrðingu Valtýs.

Erla Bolladóttir var hneppt í gæsluvarðhald í desember 1975 vegna svonefnds póstsvikamáls þar sem hún játaði sök. Fljótlega fóru yfirheyrslur yfir Erlu að snúast um dularfulla atburði sem að mati lögreglu gætu hafa gerst í Hafnarfirði í janúar 1974, næstum tveimur árum áður. Fyrsta yfirheyrslan yfir Erlu markar "upphaf" svonefnds Guðmundarmáls, hún fór fram 20. des. 1975 og er skráð 7 klst.

Skýrslan  hefst á orðunum:

 

“Tilefni þess að Erla er mætt hér sem vitni er það 

að lögreglu hefur borist til eyrna að...”

 

Hvergi hefur verið útskýrt hvaðan þetta svokallaða tilefni kom.

Skýrsla Erlu er fyrsta skráða skýrslan í málinu. 

 

Erla gaf mjög óljósa og draumkennda skýrslu, henni var sleppt samdægurs og komst þannig heim til þriggja mánaða gamallar dóttur sinnar yfir jólin. Hún var síðan hneppt í gæsluvarðhald vegna Geirfinnsmáls 4. maí og var í haldi til 22. desember 1976. Á þessu tímabili  eru skráðar 105 yfirheyrslur yfir Erlu.

 

Réttargæslumaður Erlu var þó aðeins viðstaddur samskipti hennar við rannsakendur í eitt skipti af þessum 105.

 

Eins og margoft hefur verið bent á eru ótrúleg líkindi með frásögn dómþola, þ.m.t. Erlu, um Keflavíkurferðina og skýrslu G.A. frá 23. okt. 1975, sem þó kom fram þremur mánuðum áður en sakborningar voru handteknir.
  

Í þessum 105 (skráðu) yfirheyrslum yfir Erlu ber ýmislegt á góma, eins og vænta má. Til dæmis ferð til Keflavíkur. Einnig koma fram í þessum yfirheyrslum  nokkrar útgáfur af  meintri ferð Erlu til baka frá Keflavík. Á tímabili virtist svo sem hún hefði verið samferða öðrum sakborningum til Reykjavíkur á Land Rover bifreið, en á öðrum tímabilum útskýrir hún ferð sína til baka með því að hún hafi farið ¨á puttanum” til Reykjavíkur. Í niðurstöðu Hæstaréttar er notuð sú útgáfa sögunnar að Erla hafi dvalist næturlangt í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni og síðan húkkað sér far til Reykjavíkur. Skýrsla er tekin af EB 23. jan 1976. Þrátt fyrir að flestu sem þar kemur fram um atvik sé hafnað í dómi Hæstaréttar,  er þetta atriði látið halda sér, þ.e. að Erla hafi farið á puttanum til Reykjavíkur að morgni 20.nóv. Hún segist hafa farið með Moskvitch bifreið fyrri hluta leiðarinnar, að Grindavíkurafleggjara en fengið far með vörubíl þaðan og til Hafnarfjarðar. Hún tekur ekki fram tegund né lit vörubílsins en í síðari skýrslum talar hún um að ökumaðurinn hafi sagst hafa starfað við malar eða grjótnám  og hafi reykt pípu. Í framhaldi af þessum upplýsingum fór fram skipuleg leit að vörubílstjóra sem svarað gæti til lýsingarinnar en sú leit skilaði ekki árangri.

Drattarbraut

 

 

Vörubílstjórinn

Snemma vors 1976 lýsti lögregla eftir malar eða grjótflutningabifreið sem gæti hafa tekið stúlku upp í að morgni 20. nóv.1974  Þann 11. apríl 1976 gefur sig fram maður (Á.R.) sem oft átti þarna leið um þetta leyti á vörubifreið. Hann starfaði um þetta leyti við að flytja  síldartunnur frá Siglufirði til Keflavíkur og ók þessa leið því oft og reglulega. Fram kemur í ökudagbók mannsins að hann hafði ekið þessa leið 20. nóv. Bifreið hans var vörubíll með háum trégrindum á hliðum. Í skýrslunni segir hann:

“Í einni af þessum ferðum man ég eftir því  að ég tók upp í bifreiðina stúlku á Reykjanesbrautinni.”  Maðurinn heldur því hvergi fram að hann muni hvaða dag hann tók stúlkuna upp í. Í dagbókinni kemur fram að hann hafi ekið þessa leið þennan dag. En það gerði hann líka marga aðra daga haustið 1974, jafnvel oft í hverri viku, þar sem hann hafði þann starfa að keyra leiðina. Í framhaldi af skýrslunni fór fram sakbending þar sem Á.R. sá Erlu Bolladóttur ásamt fjórum öðrum stúlkum. (20% líkur m. v. random.)

Ekki gat hann bent á neina þeirra sem stúlkuna sem hann kvaðst hafa tekið upp í.

 

Eftir stendur:

1. Samkvæmt dagbók mannsins ók hann þessa leið 20. nóv.

2. Maðurinn ók leiðina oft og reglulega um þetta leyti.

3. Í einni af þessum ferðum þá um haustið tók hann stúlku upp í.

4. Hann þekkti stúlkuna ekki við sakbendingu.

 

Sakbending Vorubill

 

 

Nóg um þetta, varla er þetta sönnunin sem Valtýr talar um.

 

 

 

 

 

 

 

 

Moskvitch maðurinn:

 

Auglýst var einnig eftir ökumanni Moskvitch bifreiðar sem Erla hafði sagst hafa fengið far með að Grindavíkurafleggjaranum. Ökumaðurinn G.S.J. gaf sig fram og gaf skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 30. mars. 1976.

Í skýrslu hans kemur fram að hann muni eftir að hafa tekið stúlku upp í einhverntíma um haustið 1974 og ekið henni þessa leið, frá afleggjaranum að Höfnum og að Grindavíkurafleggjara. Hann geti ekki dagsett það nákvæmlega hvenær hann hafi tekið stúlkuna upp í né heldur á hvaða tíma dags.

 

Í skýrslunni segir: “Ég minnist þess að ég var hjá dóttur minni í Sandgerði eina nótt haustið 1974 og þá gæti þetta komið heim og saman við þann atburð sem um er rætt”

 

Í þessari  skýrslu sem tekin er 30. mars 1976 kveðst hann hafa

ekið á Skoda bifreið sem hann átti.

Hvergi er minnst á Moskvitch.

 

Þó hafði lögreglan ekki lýst eftir ökumanni Skoda bifreiðar, heldur Moskvitch.

 

Að skýrslutöku lokinni fór fram sakbending

þar sem “nokkrar stúlkur” stilltu sér upp. 

Ekki er tekið fram hve margar.

Maðurinn kveðst telja að ein þeirra stúlkna sem stillt var upp

“kæmi til greina” og benti á Erlu Bolladóttur.

 

Sakbending Moskvits

 

 

 

Ökumaður Skoda/Moskvitch bifreiðarinnar mætti síðan fyrir Dómþing Sakadóms Reykjavíkur þann 26. maí 1977.

Hann hefur mál sitt á því að hann hafi:

 

“Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974

tekið stúlku upp í bifreið sína í Keflavík”

 

Vitnið staðfestir að bifreið þess hafi verið af gerðinni Skoda 1000.  

 

Einnig segist hann nú hafa “eitt sinn um þetta leyti fengið lánaða bifreið hjá vinnufélaga sínum og hafi þetta verið Moskvitch og gulgræn að lit að vitnið minnir og frekar illa farin."

 

Telur vitnið “jafnvel sennilegt” að það hafi verið á þeirri bifreið. 

 

Hann kveðst nú ekki hafa gist í Sandgerði, 

heldur hafi fóstra hans átt afmæli 19. nóvember 1974.

 

Hann hafi verið í afmælisveislunni í Garðabæ ásamt fjölda fólks um kvöldið en síðan farið af stað árla morguns og ekið suður í Sandgerði. 

 

Sakbendingin frá 30. mars er rifjuð upp og staðfestir maðurinn að í sakbendingunni hafi Erla hafi verið:

“líkust stúlkunni", af þeim stúlkum sem stillt var upp.

 

Maðurinn þekkir Erlu á mynd sem honum er sýnd í þessu dómþingi sem fram fór eins og áður sagði 26. maí 1977.

 

*****

 

Í þessum tveimur skýrslum er margt athyglisvert. 

 

Í dómi Hæstaréttar frá 1980  

er sérstaklega sérstaklega tekið fram að hér sé um “Greinargott vitni að ræða". 

 

Og hefur HR allavega það til síns máls að varla er um önnur betri að ræða neinssstaðar í þessu máli. Enda er það engin tilviljun að Valtýr velur að nefna þetta atriði en ekki eitthvað annað, t.d.  Þetta.

Sú keðja mun þó ófundin enn sem er sterkari en veikasti hlekkurinn.

 

Ekki er unnt að lesa það út úr framburði mannsins að hann sé

á neinn hátt öruggur hvar, hver, hvernig, né hvenær, um meint atvik.

 

Í sakbendingunni 30.mars 1976 heldur hann því hvergi fram

að Erla sé sú sem hann man eftir.

Hann kveðst hinsvegar telja að ein stúlknanna “komi til greina”.

Hann bendir á Erlu og er  honum þá sagt að þetta sé Erla Bolladóttir.

 

Í skýrslunni fyrir dómi lýsir hann því þannig að honum

hafi þótt Erla “líkust” stúlkunni, af þeim stúlkum sem stillt var upp.

 

Einnig vekur það nokkra athygli að bifreið sú sem var í eigu mannsins á þessum tíma var alls ekki af Moskvitch gerð. Skv. bifreiðaskrá 1974 ók hann um á bifreið af gerðinni Skoda 1000. Fyrir dómi hefur hann mál sitt á því að hann hafi "Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974" tekið stúlku upp í. Talar síðan um afmælisveisluna og segist síðan "eitt sinn um þetta leyti" hafa fengið lánaða Moskvitch bifreið hjá vini sínum og er vitnið óklárt á því hvor tegundin var notuð, “annaðhvort Moskvitch eða Skoda”

 

Athyglisvert er í þessu samhengi að í beinu framhaldi af því að þessar upplýsingar komu fram breyttist framburður Erlu á þann veg að hún hættir að tala um Moskvitch bifreið, heldur hafi verið um að ræða “annaðhvort Moskvitch eða Skoda” 

 

Ekki aðeins er samræmi milli tegundanna sem þau nefna, heldur er einnig

samræmi í óvissu þeirra, um hvaða tegund var um að ræða. Þetta samræmi hlýtur að teljast sérkennilega fullkomið, það virðist hafa nánast dulrænt yfirbragð. Allavega er umhugsunarefni hvernig slíkt samræmi getur myndast.

 

 Möguleikarnir eru þrír:

 

1.Tilviljun.

 

2. Dulrænn atburður.

 

3. Spilliáhrif  (Contamination).

 

SPILLIAHRIF

 

 

(Þetta atriði minnir óneitanlega nokkuð á atriði sem margir kannast við úr svonefndu Guðmundarmáli en þar áttu bifreiðir það til

 

að breytast úr einni tegund í aðra.) 

 

Þá vekur það furðu hve stutt og ónákvæm skýrslan um sakbendinguna er. Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp. Maðurinn segist hvergi í skýrslunni hafa tekið Erlu upp í bílinn. En hann telur að Erla komi til greina. Sú niðurstaða virðist fullnægja allri forvitni, ekkert meira er skráð og maðurinn fer.

 

(Aðrar sakbendingar fóru fram, sem 4 lykilvitni tóku þátt í og miðuðu að því að staðsetja einhvern sakborninganna í Keflavík að kvöldi 19. nóv. Þær “misheppnuðust” eins fullkomlega og hugsanlegt er, að því leyti að  niðurstöður þeirra voru fullkomlega ósamrýmanlegar þeim rannsóknartilgátum þeim sem uppi voru.

Og eru þó enn í niðurstöðu Hæstaréttar frá 1980)  

 

Hvergi nefnir ökumaður Skoda/Moskvitch bifreiðarinnar tilefni meintrar ferðar sinnar svo árla morguns eftir gleðskapinn kvöldið áður.

 

Maðurinn þekki Erlu af mynd sem honum var sýnd í dómþinginu 26.maí 1977.

 

erla-bolladottir

 

Þar virðist eiga að vera um einhverkonar stuðning að ræða við sakbendinguna. Varla hafði þó liðið dagur um nokkurra mánaða skeið að ekki væru myndir af Erlu og öðrum sakborningum á forsíðum dagblaða. Það hefði því líklega verið meiri leitun um þessar mundir að þeim Íslendingi sem ekki hefði þekkt persónuna á myndinni.

 

 

Mbl 030277

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir stendur:

 

1. Hann man ekki hvaða tegund bifreiðar hann ók

    en nefnir báðar tegundirnar sem Erla  nefnir.

 

2. Hann man hvorki hvar né hvenær:

 

Hann segist fyrst muna að hafa tekið stúlku upp í við afleggjarann að Höfnum, nokkuð fyrir utan Keflavík, ofan við Njarðvík. Síðar telur hann að það hafi verið á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu

inni í miðbæ Keflavíkur.

 

Í fyrstu skýrslunni segir hann:

 

“Ég get ekki fullyrt á hvaða tíma dags,

né heldur get ég dagsett þennan atburð”

Þ.e.a.s. hvenær hann tók stúlku upp í Skoda/Moskvitch bifreiðina.

 

Í sömu skýrslu og hann talar um afmælisveisluna 19.nóv. segir hann að þetta hafi verið “einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974”

 

Þarna er mótsögn, þannig virðist hann ekki viss um það hvort hann sé öruggur eða óöruggur hvað varðar dagsetninguna.

 

(Þetta minnir óneitanlega nokkuð  á lýsingu eins sakborninga,

þegar hann kvaðst eftir langt gæsluvarðhald, vera orðinn

"50% viss" um að hafa drepið mann.) 

 

3. Fyrir dómi breytir maðurinn framburði um ferðir sínar þessa daga í grundvallaratriðum frá lögregluskýrslunni.

 

Fyrst segist hann hafa gist í Sandgerði. Síðan segist hann hafa farið árla morguns til Sandgerðis, stoppað þar í örstutta stund og haldið síðan af stað til Reykjavíkur.

 

Hvergi kemur fram hver var tilgangur ferðarinnar um morguninn,

né hvaðan hann fór, eða hvar hann gisti um nóttina,

þ.e.a.s. samkvæmt síðari framburð sínum. En hann var búsettur á Seltjarnarnesi.

 

Samkvæmt framburði mannsins 26.maí 1977, ók hann til Sandgerðis, morguninn eftir afmælið, síðan aftur til Reykjavíkur (Seltjarnarness?) Síðan suður aftur til Grindavíkur.

Hann var mættur til vinnu í Grindavík samdægurs skv. sama framburði sínum fyrir dómi.

 

4. Hvergi í skýrslunni heldur hann því fram 

að Erla sé stúlkan sem hann tók upp í, haustið 1974. 

Einungis að það komi til greina.

 

5. Hann man ekki hvaða tegundar bifreiðin var sem hann ók.

 

En nefnir þó við yfirheyrsluna báðar sömu tegundir og Erla telur koma til greina.

Hafi maðurinn tekið farþega upp í bílinn

“einhverntíma þarna um haustið eða veturinn”,

hefur væntanlega verið um eina tegund bifreiðar að ræða, af einni tegund. 

Í dómsniðurstöðu Hæstaréttar eru báðar tegundir enn nefndar. 

 

Að maðurinn skuli ekki muna hvaða tegund bíllinn var rýrir vissulega trúverðugleika vitnisins.

 

Hitt hlýtur þó að teljast mun merkilegra:

 

samræmi skuli vera í óvissu þeirra

um hvora tegundina var um að ræða. 

 

6. Hann breytir algjörlega framburði sínum fyrir dómi

um aðdraganda bíltúrsins og ferðir sínar 19.nóv. í grundvallaratriðum frá lögregluskýrslunni.

 

7. Sakbendingin og skýrslan um hana er stórkostlega gölluð, ónákvæm og furðulega knöpp, m.v. hugsanlegt mikilvægi vitnisins.

 

Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp.

 

(Í hinni árangurslausu sakbendingu þegar vörubílstjórinn mætti voru þær fjórar auk Erlu.

Með því eru 20% líkur á "árangri" m.v. slembiaðferð)

 

 8. Sakbending eftir myndum fyrir dómi

er augljóslega merkingarlaus vegna spilliáhrifa frá fjölmiðlum.

 

 

*****

Með hliðsjón af framansögðu

er því hér virðingarfyllst haldið fram

að framburður mannsins geti hvorki talist

greinargóður né trúverðugur.

 

 

 

 

 

Þar sem ekki er um önnur vitni að ræða,
þá er komið að hinum efnislegu sönnunargögnum:
 
Cigarette butt
 
 
 
 
Í einni af yfirheyrslunum 105 yfir Erlu Bolladóttur kemur fram að hún segist hafa beðið í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni aðfaranótt 20. nóv. 1974. Þar hafi hún reykt nokkrar sígarettur. Rannsóknarmenn miðuðu við að um væri að ræða “Rauða húsið” nálægt Dráttarbraut Keflavíkur. Húsið var mannlaust og opið og hafði verið það lengi. (Tilvalið t.d. fyrir unglinga að reykja þar inni.) Rúmlega 26 mánuðum eftir meinta atburði, 23. janúar 1977 fór lögregla á vettvang ásamt Erlu. Gat hún bent á ákveðið herbergi og taldi sennilegt að hún hafi beðið þar. Ekki fundust neinir stubbar í því herbergi sem Erla nefndi. Hinsvegar er skýrt tekið fram í skýrslunni að 5 sígarettustubbar hafi fundist í húsinu. Athygli vekur að ekki er minnst á áætlaðan aldur þeirra né tegund. Erfitt getur verið að áætla aldur sígarettustubba, sérílagi eftir nokkurra ára volk og vosbúð. En hafi þeir verið á að giska tveggja til þriggja ára gamlir og af Winston gerð, er hér ef til vill komin ein af þeim mörgu sönnunum sem Valtýr nefnir í BBC viðtalinu.
 
Varla getur það þó verið.
 

Erla er talin hafa reykt Winston

en það mun reyndar hafa verið vinsæl tegund á þessum árum.

 

Eftir stendur:

 

1. Þarna er komin örugg vísbending um að sígarettur

hafi verið reyktar á þessum slóðum á árunum ca. 1974 – 1977.

Ekki er vitað af hvaða tegund.

 

big butt 

 Stærsti sígarettustubbur heims. Listaverk á Trafalgar Square, London.

 

Þar sem ekki er um aðrar vísbendingar (e.clues) að ræða en þá framburði vitna sem hér hafa verið raktir og þau efnislegu sönnunargögn sem nefnd hafa verið:

 

Er því hér með virðingarfyllst og staðfastlega haldið fram

að það sé með öllu ósannað að Erla Bolladóttir

hafi verið í Keflavík aðfaranótt 20. nóvember 1974.

Eigi verður séð af neinum þeim gögnum sem hér hafa verið rakin að það sé á neinn hátt hægt að túlka þau sem sönnun þess að  Erla Bolladóttir hafi verið í Keflavík aðfaranótt 20. nóv. 1974. Engin efnisleg sönnunargögn benda til þess, einungis mjög svo reikull og ónákvæmur framburður annars tveggja meintra bílstjóra bendir til að það komi til greina. En þar sem enginn hefur svo vitað sé, haldið því fram að Erla hafi verið þarna ein á ferð, hlýtur að vera tilefni til að líta á þetta atriði í örlítið stærra samhengi:

Framkvæmdar voru fleiri sakbendingar sem höfðu að markmiði að staðsetja einhvern sakborninga í Keflavík umrætt kvöld 19.nóv. Hér að framan hefur verið fjallað um þær sem beindust að Erlu. En einnig fór fram sakbendingar þar sem reynt var að fá þau fjögur vitni sem sáu manninn sem talinn er hafa hringt í Geirfinn, til að staðfesta að sá maður væri Kristján Viðar. Er skemmst frá því að segja að ekkert þessara fjögurra vitna taldi að um sama mann væri að ræða. 

Fjögur vitni sáu manninn sem hringdi. Í dómi HR 1980 er fjallað um þau:

1. Um vitnið Á.E.G. segir: 

“Vitnið mætti tvisvar í sakbendingu hjá lögreglu en ekki sá það neinn í þeim hópum manna sem það taldi sig geta bent á sem mann þann sem komið hefði í Hafnarbúðina umrætt sinn og hringt.”

2. Um vitnið H. B. Ó. segir : 

“Vitninu voru sýndar myndir af Kristjáni, Sævari og Guðjóni. Vitnið kveðst ekki geta staðhæft hvort einhver þeirra hafi komið í Hafnarbúðina til að hringja.”

3. Um vitnið J.G. segir: 

“Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari. Vitnið kveðst ekki geta sagt um hvort þessir menn hafi komið inn í Hafnarbúðina.”

4. Um vitnið G.K.J. segir:

“Vitnið kveðst hafa mætt í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu en ekki hafa séð neinn mann þar, sem það taldi vera umræddan mann. Það kveðst hafa séð að Kristján Viðar var í hópnum við sakbendingu en það hafði séð hann áður og vissi hver hann var. Vitnið segir að framangreindur maður hafi ekki verið Kristján Viðar.”

Ekki var um fleiri vitni að ræða en þessi fjögur samhljóða vitni. Með framburði þeirra er ljóst að það var enginn sakborninganna sem hringdi í Geirfinn að kvöldi 19. nóv. 1976. Hér liggur fyrir stöðugur og samhljóða framburður fjögurra vitna þess efnis.

Þegar upp er staðið eru 6 sakbendingar sem miða að því að staðfesta að þeir sem dæmdir voru í Hæstarétti 1980 hafi verið í Keflavík. Reikull og óstöðugur framburður Moskvits/Skoda mannsins, á þá leið að Erla sé líkust þeirri sem hann tók upp í bílinn, þá um haustið eða veturinn, hún komi til greina o.s. frv, fær hvergi stuðning en er andstæður framburðum vitnanna úr Hafnarbúðinni, nema að verið sé að halda því fram að Erla hafi verið ein á ferð. Í dómi HR er gengið út frá því að ákveðinn hópur hafi verið á ferð í Keflavík 19.nóv 1974. 

Hins vegar eru sakbendingarnar yfir Kristjáni Viðari ekkert annað en sönnun þess að ekki var um hann að ræða. Ekkert vitnanna fjögurra bendir á neinn þremenninganna, Kristján Sævar né Guðjón. Aðal vitnið sem afgreiddi manninn kveðst hins vegar hafa þekkt Kristján í sjón frá því löngu áður og staðfestir þannig endanlega að ekki var um Kristján að ræða.

HR 1980

 

Um þetta segir í dómi Hæstaréttar frá 1980:

“Miða verður við það að ákærðu hafi komið í bifreiðinni að Hafnarbúðinni og að annaðhvort Kristján Viðar eða Sævar hafi hringt þaðan til Geirfinns”.

 

Í viðtalinu við BBC  nefnir Valtýr aðeins þennan anga málsins:

“We have many proofs that Erla was in Keflavík”.

 

En væri ekki ágætt að byrja á að sanna að glæpur hafi átt sér stað ? 

 

Valtýr er auðvitað þaulreyndur og eldklár maður á sviði lögfræði og með mikla sérþekkingu á þessu máli þar sem hann var stjórnandi frumrannsóknarinnar í Kef. Það er engin tilviljun að hann nefnir þennan anga málsins. Þarna eru alltént tvö vitni, og annað þeirra bendir á Erlu við sakbendingu.

Og aukreitis eru efnisleg sönnunargögn: Stubbarnir !

 Justice

En auðvitað eru sönnunargögn með ýmsum hætti, (Forensic – circumstancial), stundum vefjast þau um sakborninginn eins og tvinni. En öðrum stundum eru þau sem keðja, sem aldrei verður þó sterkari en veikasti hlekkurinn. Það er skoðun undirritaðs að þar sem atriðið sem Valtýr velur að nefna sem “öruggt” í þessu máli er þó ekki öruggara en hér hefur verið rakið, þá hljóti önnur atriði þess að þurfa að vera feikna sterk, þannig að sá vafi sem hugsanlega leiki á um meinta ferð Erlu til Keflavíkur og til baka, myndi eyðast með öllu við lestur frekari gagna. En því er nú aldeilis ekki að heilsa. Þessi meinta ferð Erlu frá Keflavík er auðvitað eins konar angi á jaðri málsins. En hver er þá kjarni þess? Frá bæjardyrum undirritaðs er kjarni málsins sá að

maður týndist í Keflavík. Aðdragandi mannshvarfsins var með þeim hætti að full ástæða var til að lýsa ekki aðeins eftir hinum týnda, heldur einnig öðrum manni sem virtist hafa boðað hinn horfna á stefnumót. Fyrsta skrefið í að leysa gátuna um mannshvarfið hlýtur að vera að finna þann sem boðaði hinn horfna á stefnumótið.

Í dómi Hæstaréttar 1980 er með ótrúlega bíræfnum hætti  skautað fram hjá þessum kjarna málsins. 

 

Þar blasir við sú sorglega staðreynd að skýrum og greinargóðum framburðum allra 4 vitnanna sem sáu manninn, var einfaldlega sópað í burtu til að laga umgjörð og atvikalýsingu eftir þörfum, svo að þau væru nýtileg gegn þeim sakborningum sem grunur var sagður beinast að.

 

Með hliðsjón af framansögðu verður undirrituðum hugsað til hinna

fleygu orða Isaacs Asimovs:

 

 

Ég trúi á sönnunargögn.

Ég trúi á athuganir, mælingar og rökfærslu,

staðfesta af óháðum athugendum.

Ég mun trúa hverju sem er,

hversu fjarstæðukennt og fáránlegt sem það er,

ef það er sannað.

En því fjarstæðukenndara og fáránlegra sem það er, 

 

 

því þéttari og gegnheilli þurfa sönnunargögnin að vera.

 

 

Mál er að linni:   

Þegar á heildina er litið og öll gögnin skoðuð með opnum huga hlýtur það að vekja furðu hve rannsakendur mátu lítils hættu á röngum framburðum við þessar aðstæður. Allt kapp virtist vera á að ná fram játningum og samræma framburði. Varla nokkurs staðar í gögnum málsins virðist örla á gagnrýninni hugsun um áreiðanleika framburða sakborninganna, svo fremi þeir væru nýtilegir við að samræma einhvers konar mynd af þeim rannsóknartilgátum sem fram voru komnar. Öll vinna rannsóknarmanna meðan á gæsluvarðhaldinu stendur í Síðumúla virðist miða við það að eftir mánuði í einangrun, strangar yfirheyrslur, jafnvel árum saman og aðrar þær mótverkandi kringumstæður sem þarna voru uppi, séu sakborningar enn fullir af slíkum ofurmannlegum viðnámsþrótti að þeir haldi mikilvægum upplýsingum leyndum og þræti, endalaust, út í hið óendanlega. “Motiv” sakborninganna sé enn það eitt, að þræta, afvegaleiða og rugla rannsóknarmenn, jafnvel eftir hundruð yfirheyrslna, þar sem unnið er í vaktavinnu við yfirheyrslur, harðræði beitt, fangaverðir yfirheyra, og mönnum haldið vakandi dögum saman. Vissulega var þekking manna á réttarsálfræði ekki sambærileg við nútíma þekkingu. En almenn skynsemi  hefði átt að geta komið að notum og vissulega hefði verið tilefni til að taka mið af sérfræðiáliti lækna. 

(Þó ekki hefði verið nema  við Úrlausn HR v. endurupptökukröfu SMC 1997)

Framburðir í þessu máli eiga sér hvergi nein “hvörf” heldur þróast sagan og mjakast jafnt og þétt eins og seigfljótandi leðja, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, þar til rannsóknarmenn virðast gefast upp og segja nóg komið.

 

Niðurstaðan er tré án stofns, saga sem gengur ekki upp að neinu leyti nema í einstökum og stundum ótrúlega nákvæmum smáatriðum.

 

Miklu skynsamlegri og einfaldari skýring á þessu öllu saman er auðvitað sú að sakborningar höfðu aldrei neina hugmynd um þá atvikalýsingu sem þeir þó voru að hjálpa rannsóknarmönnum að púsla saman, eftir að hafa gefið falskar játningar í byrjun. “Motiv” þeirra var miklu fremur að reyna að finna nothæfan endapunkt á þessa dæmalausu hringavitleysu. Í dómi Hæstaréttar er rökstuðningurinn talinn felast í því samræmi sem myndast hafði milli framburða sakborninga um einstök málsatvik. Hvergi virðist örla á gagnrýni á það hvernig þetta samræmi er til komið. En  auðvitað reyna sakborningarnir allt til að ná samræmi sín á milli og hjálpa þannig lögreglunni og fá hjálp frá henni til að púsla saman sögunni svo að þessum að því er virðist endalausa ógnarhryllingi linni.

Mál er að linni.

  

T.H.


Dæmi um málsatvik í Guðmundarmáli

Dæmi um málsatvik í Guðmundarmáli

Fyrstu mánuði rannsóknar á Guðmundarmáli var á því byggt, að hringt hefði verið frá Hamarsbraut 11 í Albert Skaftason og reyndar einnig leigubíl. Hafi Albert komið á Toyotabifreið með skuthurð. Hann hafi flutt líkið í bifreiðinni. Eru til ítarlegar lýsingar í smáatriðum af því hvernig bifreiðin stóð þegar líkið var sett í bifreiðina og hvar farþegar sátu í Toyotabifreiðinni. Þegar lögreglumenn komust að því löngu síðar að Albert gat ekki hafa haft aðgang að Toyotabifreiðinni, (Hún var keypt löngu síðar), heldur hugsanlega 17 ára gamalli Volkswagenbifreið, þá varð að snúa lýsingum við. Nú lágu fyrir samræmdar skýrslur sakborninganna um Toyotabifreiðina og varð það hlutverk rannsóknarmannanna, að fá sakborninga til að breyta frásögnum sínum. Það tókst. Athyglisvert er, að Karl Schütz reynir að telja Alberti Skaftasyni trú um, að báðar ferðirnar hafi verið farnar. Allar hinar nákvæmu frásagnir um líkflutninga fóru fyrir lítið. Volkswagen hefur farangursgeymslu að framanverðu og varð því að laga frásagnir að nýjum aðstæðum. Varð að hafa stöðu bifreiðar bæði við Hamarsbraut og útí hrauni öfuga við það sem áður var. Svo sem kunnugt er, er farangursrýmið í Volkswagen bjöllu svo lítið, að ekki verður þar fyrir komið líki af stórum manni eins og t.d. Guðmundi Einarssyni, sem var 180 cm. hár. Því var ekki um annað að ræða en gera ráð fyrir því, að Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar settust aftur í bifreiðina, en milli þeirra og framsæta lagt hið fyrirferðarmikla lík. Við mat á því hvort þetta var unnt verður að hafa í huga að Kristján Viðar er 190 cm. hár og Tryggvi Rúnar er einnig allstór maður. Ekki var sannað að unnt hefði verið að koma líkinu fyrir með þessum hætti og því er með allri virðingu haldið fram að svo hafi ekki verið. Karl Schütz var þetta ljóst og kom það fram í yfirheyrslu hans yfir Albert Skaftasyni 7. ágúst 1976. Hann gerði þó ekkert til að rannsaka það hvort lík hefði komist fyrir, en það hefði verið skjólst.m. í hag ef svo hefði verið.

Á sömu leið fór með símann. Í ljós kom að hann var lokaður umrædda nótt og komst það upp er leið á rannsóknina.Varð þá að breyta framkomnum frásögnum. 
Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar var síðan
ekið út í hraun á 17 ára gamalli Volkswagen bifreiðinni með 3 stóra menn, ásamt Sævari og líkinu.
 
Í upphafi málavaxtalýsingar sakadóms segir m.a. er fjallað er um upphaf leitar af Guðmundi Einarssyni þriðjudaginn 29. janúar 1974:

…leit að Guðmundi suður um Hafnarfjörð, en þar sem um 60 cm snjólag var yfir öllu, var ekki unnt að leit í hrauninu eða á óbyggðum.svæðum utan vega.

Í viðtali lögreglu við ökumann á Bifreiðastöð Hafnarfjarðar kom fram, að ökumaðurinn hafði einungis ekið fyrri partinn aðfararnótt 27. janúar 1974 þar sem ófærð hafi verið orðin.

Samkvæmt framlögðu veðurvottorði var snjókoma 25., 26. og 27. janúar 1974 í Straumsvík. Úrkomumagn í Straumsvík á tímabilinu frá kl. 09.00 hinn 26. janúar til kl. 09.00 hinn 27. janúar 1974 var 15.8 um. eða liðlega þrisvar sinnum meira en á Vífilsstöðum.

Ég hef nú aflað nýrra gagna um snjó og færð á vegum á umræddum tíma. Úr þeim verður lesið að ókleift hefur verið að aka 17 ára gamalli Volkswagenbifreið um vegarslóða í Hafnarfjarðarhrauni þessa nótt, en slíkir atburðir eru meðal forsendna sem málatilbúnaður á hendur ákærðu var byggður á. Þegar þannig háttar fyllast vegarslóðar af snjó og er snjór þar dýpri en annars staðar þar sem hann safnast í dældir eins og slóðana. Þegar kom að rannsókn málsins hafði þetta atriði gleymst rannsóknarmönnum eða þeim yfirsést mikilvægi þess. Fyrir bragðið fást ýmsar lýsingar um ferðina um hraunið sem útilokað er að séu réttar. 

 
 

Hvar eru líkin ?

Hvar eru líkin?

SMC 

Eftir 655 daga

einangrun og harðræði

Er enn sama svarið:

Ég veit það ekki. 

 

 


Isaac Asimov


Ég trúi á sönnunargögn.

Ég trúi á athuganir, mælingar og rökfærslu,

staðfesta af óháðum athugendum.

Ég mun trúa hverju sem er,

hversu fjarstæðukennt og fáránlegt sem það er ef það er sannað.

En því fjarstæðukenndara og fáránlegra sem það er,

því þéttari og gegnheilli þurfa sönnunargögnin að vera.

 

Isaac Asimov 


 


Asimov


Álit landlæknis 1996

,,Einangrun óráðleg lengur en 3-4 vikur"

Á fundi náðunarnefndar í dómsmálaráðuneytinu í mars 1996 kynnti Landlæknir Ólafur Ólafsson niðurstöður nýrra rannsókna á áhrifum einangrunar á fanga. Niðurstöðurnar eru á þá leið að einangrun sé óráðleg lengur en 3-4 vikur, vegna hættu á margvíslegum heilsuvanda og geðrænum erfiðleikum. Úlfljótur, tímarit félags lögfræðinema hefur fjallað um þessar niðurstöður, einnig hafa þær verið birtar í erlendum vísindatímaritum.
Morgunblaðið fjallaði um fund landlæknis 14. mars 1996. Í grein Morgunblaðsins segir m.a:

,,Komist er að þeirri niðurstöðu að gæsluvistarföngum er mun hættara við vistun á geðsjúkrahúsum síðar meir, en föngum sem ekki hafa setið í einangrun.
Til dæmis leiddi rannsókn á 63 norskum föngum, sem setið höfðu í einagrun mislengi, í ljós svefnleysi, þunglyndi, skerta hæfni til einbeitingar, kvíða og depurð. Föngum með líkamlega kvilla eða sálarlega fyrir gæsluvarðhald, versnaði meðan á því stóð. Ennfremur voru bornir saman 27 gæsluvarðhaldsfangar í strangri einangrun sem hvorki fengu bréf né heimsóknir og jafnmargir sem ekki voru í ströngu gæsluvarðhaldi.
Fangarnir sátu að meðaltali 7-8 vikur í gæsluvarðhaldi, styst tvær vikur og lengst tuttugu, og voru skoðaðir aðra hverja viku. Ellefu föngum sem þjáðust af geðsjúkdómum og stríddu við vímuefnavanda og fangelsiskvíða var sleppt við rannsókn. Leiddi samanburðurinn í ljós marktækan mun á heilsufari hópanna. Í þeim fyrri var langtum meira um skerta einbeitingarhæfni, þunglyndi, lyfaneyslu, höfuðverk, óþægindi frá maga og truflanir á skynjun. Þeir sem lengst voru einangraðir, í 14 vikur að meðaltali, sýndu fyrrgreind einkenni í ríkari mæli, og alvarlegs þundlyndis varð vart hjá sjö þeirra. Kvörtuðu margir undan vaxandi truflunum á skynjun. Segir loks í grein landlæknis að áþekkar rannsóknir frá Bandaríkjunum og Danmörku hafi leitt í ljós svipaðar niðurstöður.
Ólafur leggur til í ljósi niðurstaðnanna að einangrun vari ekki lengur en þrjár til fjórar vikur.
„Það var mikið rætt fyrir nokkru að gæsluvarðhaldsvist á Íslandi gæti orðið ansi löng. Þetta hefur þó færst til betri vegar á undanförnum árum. Markmiðið er hins vegar það að meira tillit verði tekið til heilsufarssjónarmiða en áður, þótt það hafi vissulega verið gert til þessa að einhverju leyti," segir Ólafur."

Í grein Morgunblaðsins kemur einnig fram að tíðni sjálfsvíga er hærri hjá föngum sem setið hafa í einangrun en hjá samanburðarhópi. Þess má geta að Sævar M. Ciesielski sætti hámarkseinangrun í 106 vikur í Síðumúlafangelsi, aðrir sakborningar litlu skemur.


Kjarni málsins.

Það sem öðru fremur varð til þess að hvarf Geirfinns var rannsakað sem sakamál voru komur leðurklædda mannsins í Hafnarbúðina og símtöl hans. Allt bendir til að sá maður hafi boðað Geirfinn á stefnumót og það hafi orðið örlagaríkt. Þrátt fyrir gríðarlega leit fannst leðurklæddi maðurinn, sem fékk viðurnefnið "Leirfinnur", því miður ekki. Allar þekktar staðreyndir sýndu hinsvegar fram á með óyggjandi hætti að maður þessi gat alls ekki hafa verið neinn dómþola. Engu að síður er í dómi Hæstaréttar augljóslega ranglega "miðað við" að Kristján V.Viðarsson sé "Leirfinnur". Það getur ekki talist annað en stórkostlegt hneyksli, því eins og fram kemur í greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar hlýtur öllum að hafa verið ljóst að hér var um rangan mann að ræða:

"…Vitnið sem sá [afgreiddi] þann ókunna mann sem kom og hringdi er Guðlaug Konráðs Jónsdóttir og er haft eftir henni í forsendum héraðsdóms, að það telji sig ekki hafa séð Kristján Viðar og skjólst.m. í Hafnarbúðinni greint kvöld. Það þekkti þá í sjón. Vitnið Ásta Elín Grétarsdóttir taldi að ekki hefði verið um skjólst.m. eða Kristján Viðar að ræða. Sama gildir um vitnin Hrefnu Björgu Óskarsdóttur og Jóhann Guðfinnsson. Ekki er um fleiri vitni að ræða og samkvæmt viðteknu sönnunarmati í opinberum málum má nánast telja sannað að hvorki skjólst.m. eða Kristján Viðar komu á staðinn um kvöldið…"

Framburður allra fjögurra vitnanna sem sáu "Leirfinn" er samhljóða um að Kristján Viðar sé ekki maðurinn. Það sem þó vekur e.t.v. mesta athygli er að aðalvitnið, afgreiðslukonan sem afgreiddi "Leirfinn" lýsir því yfir við sakbendingu að hún þekki Kristján Viðar í sjón og hafi þekkt hann fyrir umrætt kvöld. Af framburði hennar má helst skilja að ef um Kristján Viðar hefði verið að ræða hefði hún einfaldlega tilkynnt lögreglunni nafn mannsins. Með samhljóða framburði allra fjögurra vitnanna sem sáu manninn "Leirfinn", er sannað að sá sem raunveruleg ástæða var til að gruna um græsku var enginn dómþola.


Jón Steinar Gunnlaugsson

"Í raun og veru hefur aldrei verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnin við hvarf þessara tveggja manna. Fjöldi fólks hefur horfið á undanförnum áratugum á Íslandi án þess að skýringar hafi fundist. Mér finnst eins standa á um þessa tvo menn."

Jón Steinar Gunnlaugsson

 


Viðtal BBC við Valtý Sigurðsson 15 maí 2014

  

Viðtal  Simon Cox við Valtý Sigurðsson. Maí 2014:

 

Simon Cox:“ I wanted to talk to some of the  officers who worked on the case in the seventies but none would be interviewed. Then, when I got back to Britain I managed to contact one of the original investigators by SKYPE. Valtýr Sigurðsson ran the inquiery into the Geirfinnur disappearance and to my surprise he stands by the convictions.

 

Valtýr: “I think they are guilty. There were many many clues that if you put together you can (app) prove that they have done it. It is not only the confessions”.

 

Simon Cox: “ What is the other evidence then, there are no bodies there is no forensic evidence , there are no witnesses.”

 

Valtýr : “ There´s clues(es) Erla had been in Keflavík.”

 

Simon Cox: “ Clues.., not evidence”

 

Valtýr: “ We have lot of proofs that Erla had been in Keflavík. They have been lying the whole time about what happened, they have presented false accusations to other people to mislead the investigation.”

 

Simon Cox: “What do you think happened to Geirfinnur?”

Valtýr: “ I think it was a misunderstanding and they came to Keflavík to buy some alcohol from Geirfinnur and they got angry and there was a fight and this lead to some accident”

 

Simon Cox: “What do you think happened to Guðmundur?”

 

Valtýr: “I have no idea”

 

Simon Cox: “ What do you think of the evidence from Gísli Guðjónsson, he says it is the worst miscarriage of justice he has ever seen.

 

Valtýr: “ Well that´s his opinion”

 

Simon Cox: “You don´t agree...”

 

Valtýr: “ No, I don´t agree with him, no.

 

http://www.bbc.co.uk/programmes/p01ypll4 

Viðtalið hefst á 21.05


Viðtal BBC við Gísla Guðjónsson 15 maí 2014

Viðtal við Gísla Guðjónsson BBC 15.maí 2014

Gísli segir m.a.:

“What emerged and came as a complete shock to me was the extent of the interrogations, the length of solitary confinement, up to 655 days. I was absoloutly horrified because  I had worked on miscarriages of justice, in many different countries, hundreds of cases, big cases.

I had never come across  any case where there had been such intense interrogations, so many interrogations and such lengthy solitary confinement, I was absoloutly shocked when I saw that.”

 

http://www.bbc.co.uk/programmes/p01ypll4 

Viðtalið hefst á 15.08


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband