19. júlí 2015

Settur saksóknari, Davíð Þór Björgvinsson hefur nú í júlí 2015 skilað niðurstöðum sínum varðandi  endurupptökukröfur sem dómþolar höfðu lagt fram í svonefndum  Geirfinns og Guðmundarmálum. Niðurstaðan  er sú að mælt er með endurupptöku á málum  fjögurra dómþola. Davíð Þór fékk  verkefnið í hendur 3. október 2014 og vann því að málinu um 9 mánaða skeið.

David Thor visir

 

 

 

 

 

 

Ljósmynd: Visir.is

Þó breytingar hafi orðið á lagaumhverfi og  skilyrðum til endurupptöku dæmdra sakamála eru heimildir eftir sem áður þröngar.

En álit Davíðs Þórs Björgvinssonar er ótvírætt og á þá leið að rök standi til að dómarnir verði enduruppteknir.

Endurupptökunefnd mun síðan taka lokaákvörðun um það.

Vefsíða um Hæstaréttarmálið nr. 214/1978 var sett á stofn 1995.

Í kringum vefsíðuna (og síðar þessa bloggsíðu) hefur í tímans rás myndast þó nokkurt tengslanet áhugafólks um þetta stærsta íslenska sakamál 20. aldarinnar. Óhætt er að orða það svo að í þeim hópi, sem inniheldur bæði leika sem löglærða, sé ákveðinn mannauður fólginn og nokkrir sannkallaðir Njerðir þar á meðal.

Frá bæjardyrum okkar verður að segja það að ekki kemur þessi niðurstaða Saksóknarans á óvart.*

Fáránleiki þessa málatilbúnaðar hefur lengi verið okkur ljós.

Sem dæmi um nefndan fáránleika má nefna, hvernig atvik gerðust, skv. dómi Hæstaréttar Íslands frá 1980: 

Janúar 1976.

Ungt par er í gæsluvarðhaldi vegna fjársvikamáls.

Lausn þess máls hafði þá legið fyrir í rúmt ár.

Hins vegar eru þau yfirheyrð af hörku um mannshvarf sem átti sér stað rúmu ári áður.

Hvergi í gögnum málsins kemur fram tilefni þess að það er gert: 

Ekkert lík er til staðar.

Ekkert morðvopn.

Engin vitni.

Ekki spor, fingrafar, hár, blóð eða nein efnisleg gögn, þrátt fyrir að meintur vettvangur sé þekktur.

Engin tengsl eru þekkt milli sakborninga og þess horfna.

Ekki hefur verið sýnt fram á að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.

Engin ástæða kemur fram um hversvegna grunur beinist að sakborningum. Einungis segir í fyrstu skýrslu:

“Ástæða þessarar rannsóknar er sú að lögreglu hefur borist til eyrna að” o.s.frv.

Í framhaldinu eru þrír til viðbótar handteknir en stúlkunni leyft að fara heim til dóttur sinnar, sem þá var þriggja mánaða gömul.

Fjórir menn eru þarmeð komnir í hámarkseinangrun í Síðumúlafangelsi. Eftir harðar yfirheyrslur lýsa þeir atvikum á þann veg að rúmu ári áður hafi þrír þeirra sennilega brotist inn í íbúð á neðri hæð í gömlu húsi í Hafnarfirði og orðið þar manni að bana í miklum slagsmálum. Að svo komnu sátu þessir 3 menn uppi með lík. Hringdu þeir þá í þann fjórða og fengu hann til að koma á Toyota skutbifreið sinni og skutla líkinu út í hraun. Bílnum var bakkað upp að húsinu og líkið sett í skutinn á bifreiðinni. Margt er óljóst í framburðum þeirra, þeir þræta inn á milli en gefast upp að lokum. Einn reyndi að draga framburði sína til baka fyrir dómi en dómarinn hefur staðfest að hann bókaði það ekki því hann "vissi betur". Lýsingar mannanna á þessum atvikum varðandi bifreiðina eru þó hárnákvæmar og samræmið er fullkomið í skýrslum þeirra, jafnvel orðalag er nánast eins hjá þeim öllum. Þegar fram liðu stundir kom þó babb í bátinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Pósti og Síma var síminn lokaður um þetta leyti. 

LM ERICSSON

 ( N.b. þetta var fyrir daga GSM síma.)

 Í framhaldi af þessu kom fram ný samhljóða  atvikalýsing hjá öllum.

 Samkæmt nýju sögunni hafði sá fjórði verið  á rúntinum víða um bæinn með hinum allt  kvöldið.

 

 En þá bárust nýjar upplýsingar frá  Bifreiðaeftirliti Ríkisins: 

Toyota bifreiðin hafði ekki verið keypt fyrr en tæpu ári eftir að meintir atburðir hefðu gerst. Hinsvegar hafði bílstjórinn á þessum tíma haft til umráða Volkswagen bifreið “Bjöllu” Sú var nokkuð komin til ára sinna, af árgerð 1958.

17 ára gamall bíll, orðinn nokkuð veðraður, ryðgaður og siginn.

BEETLE

Greiðlega gekk að fá alla sakborningana  til að skipta Toyotunni út fyrir  “Bjölluna” og var samræmið þá fullkomnað  hjá þeim og er þetta sú útgáfa sögunnar  sem miðað er við í dómi Hæstaréttar, sem  enn stendur 2015.  

 

Volkswagen "bjalla" ásamt pallbíl. 

 

Engin efnisgögn, eða vitni studdu þessa  frásögn. Fólkið á efri hæð var heima en  enginn heyrði neitt. Einfalt timburgólf er  milli hæða í gamla húsinu og að sögn íbúa  á efri hæð heyrist umgangur og mannamál greinilega milli hæða þó lágt sé talað. Nágrannar gegnt húsinu voru vakandi, voru við vinnu og horfðu yfir húsið en urðu ekki varir við neitt þrátt fyrir meinta bílaumferð, innbrot, fyllerí og hópslagsmál.

Hinsvegar heldur sagan áfram: Þremenningarnir fóru nú í bílnum ásamt líkinu og bílstjóranum og óku sem leið liggur út í hraunið sunnan Hafnarfjarðar

HF hraun

og földu líkið þar. Allt er þetta staðfest í nákvæmum skýrslum sem hver um sig mun hafa gefið að eigin frumkvæði og án þess að fá að vita neitt hvað hinir hefðu sagt. Það átti þó eftir að líða nokkur tími áður en menn áttuðu sig á því að um þetta leyti var uppsafnað fannfergi mikið í Hafnarfirði og hafði snjóað mjög þetta kvöld og dagana á undan. Þrátt fyrir að helstu umferðargötur hafi verið ruddar kvað svo grimmt að snjókomunni að leigubílar voru hættir akstri og höfðu haldið heim. Leitarsveitir sem eftir helgina leituðu unga mannsins sem týndist þetta kvöld höfðu frestað leit vegna fannfergisins. Samkvæmt skýrslu frá Veðurstofu Íslands var 60 cm. fannfergi yfir hrauninu. Fjórmenningarnir ásamt líkinu létu það þó ekki stöðva sig, heldur þeystu fram og aftur um troðninga og vegleysur í hrauninu á sinni 17 ára gömlu “Bjöllu” meðan atvinnubílstjórar á betur búnum bílum höfðu gefist upp á akstri inni í bænum. 

Bílstjórar á nútíma torfærujeppum ferðast stundum yfir 60 cm. djúpan snjó. Þeim er þó meinilla við að aka í hrauni í slíkum skilyrðum enda er slíkt mikið glæfraspil að sögn fagmanna í þeim fræðum.

Þrátt fyrir að nákvæmt samræmi næðist um síðir í frásögn sakborninganna,

hefur lík hins týnda manns ekki fundist.

Annað dæmi má nefna: 

Maður hvarf í Keflavík í nóvember 1974.

Hann var boðaður með símtali á stefnumót í Hafnarbúðinni, síðan hefur ekkert spurst til hans. Sporhundar sem leituðu hans snuðruðu niður á Vatnsnes, sem er þar skammt frá. 

Vatnsnes ljosmynd  EP

 

 

 

 

 

Vatnsnes. Ljósmynd: Emil Páll

Í janúar 1976 var fyrrnefnt par yfirheyrt einnig um þetta í Síðumúlafangelsi.

Hvergi í gögnum málsins kemur fram tilefni þess að það er gert.

Ekkert lík er til staðar.

Ekkert morðvopn.

Engin vitni.

Ekki spor, fingrafar, hár, blóð eða nein efnisleg gögn, þrátt fyrir að meintur vettvangur sé þekktur.

Engin tengsl eru þekkt milli sakborninga og þess horfna.

Ekki hefur verið sýnt fram á að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.

Vitni hafa við sakbendingar beinlínis staðfest að ekki var um neinn sakborninga að ræða.

Samkvæmt gögnum málsins, bar svo til þá í október 1975, ellefu mánuðum eftir hvarfið, að maður nokkur í Reykjavík kvaðst í lögregluyfirheyrslu hafa sagt frá því að hann hafi tekið þátt í spírasmygli í Dráttarbrautinni Keflavík

Drattarbraut

ásamt nokkrum öðrum, þar á meðal 2 stjórnendum vínveitingahúss í Reykjavík og einnig hafi þar verið maður sem týnst hafði í hinum enda bæjarins 19. nóvember 1974 og ekkert spurst til síðan. Saga Októbermannsins var nokkuð nákvæm, hann lýsir staðháttum á vettvangi, bifreiðum sem voru í fjörunni og segist hafa hjálpað til og þegið fyrir það 70.000 kr. frá veitingamönnunum. Hinn horfni maður hafi drukknað við að kafa eftir smygli. Samkvæmt dómi HR er ekkert hæft í þessari sögu mannsins. Verður það að teljast skynsamlega ályktað, því ekkert er finnanlegt sem styður sögu mannsins eða bendir til neinnar sektar hans. Um var að ræða tilhæfulaust ölvunarraus. Var honum því sleppt og fór hann heim.

Samkvæmt niðurstöðu HR voru hinir raunverulegu glæpamenn hinsvegar tveir af þremenningum úr fyrrnefndu Hafnarfjarðarmáli, ásamt einum til viðbótar og stúlkunni úr sama máli. Snemma í janúarmánuði 1976 eða fyrr, var farið að ræða þetta mannshvarf við stúlkuna, á heimili hennar, meðan sögurnar af ökuferðinni í Hafnarfjarðarhrauni svifu yfir vatnsfylltum  skúringavöskum  í Síðumúlafangelsi. Fóru leikar svo að sakborningarnir í þessu nýja máli játuðu á sig morð á hinum horfna og játuðu 2 þeirra ásamt stúlkunni um síðir einnig að hafa tekið saman ráð sín og logið sök á fjóra menn sem þau kváðu hafa verið að verki með sér. Þar hafi verið um að ræða vínveitingamennina sem áður höfðu verið nefndir af “Októbermanninum”, auk tveggja annarra. Ekki verður séð hvaða tilgangi það átti að gegna að blanda fjórmenningunum inn í málið þar sem sagan innihélt eftir sem áður þau ungmenni sem um síðir voru dæmd fyrir rangar sakargiftir gegn fjórmenningunum.

HR gerir engar athugasemdir við það að nánast allt í sögu Októbermannsins hafi verið rétt. Nánast allt í sögu hans er eins og saga dómþolanna, sem þau sögðu þó ekki fyrr en 22. janúar 1976. Staðhátta og atvikalýsing er í stóru sem smáu nánast sú sama: Tveir bílar, fólksbifreið og sendibifreið, ferð úr Reykjavík til Keflavíkur, sami fjöldi manna, þar á meðal sömu veitingamennirnir tveir, smygl, köfun, maður drukknar. Upphæðin sem maðurinn kvaðst hafa fengið fyrir viðvikið er sama krónutala og notuð var í niðurstöðu HR sem greiðsla fyrir spíra. Stóra atriðið er þó að sami vettvangur er notaður í báðum sögum. Eins og áður sagði hvarf maðurinn í hinum enda bæjarins og sporhundar leituðu niður á Vatnsnes, sem er enn lengra frá Dráttarbrautinni. Hlýtur þá að vakna spurningin hvernig gat Októbermaðurinn vitað “réttan” vettvang glæpsins og sagt hina “réttu” sögu fyrirfram með slíkri nákvæmni? Hvernig sem á það er litið er ljóst að sagan var tilbúin í stóru sem smáu, áður en sakborningar voru handteknir.

Ástæða þess að hvarf hins horfna manns var rannsakað sem sakamál var sú að hann virtist hafa fengið símtal og verið boðaður á stefnumót í hinum enda bæjarins, við Hafnarbúðina.

Fjögur vitni sáu þann sem talinn er hafa hringt í hinn horfna. Öllum ber þeim saman um að sá maður sé enginn af dómþolum. Með framburði aðalvitnisins við sakbendingu í þessum þætti málsins er hinsvegar sannað skv. öllu viðteknu mati að ekki var um þann mann að ræða. Við sakbendinguna kom í ljós að aðal vitnið þekkti í sjón þann sem var hinn grunaði. Þannig að ef um þann mann hefði verið að ræða hefði málið raknað upp strax. Vitnið staðfesti að sá maður sem var hinn grunaði í sakbendingunni hefði ekki komið í Hafnarbúðina 19. nóvember. Þvert gegn framburði þessa vitnis og einnig gegn framburði allra hinna þriggja, miðar HR við að þessi maður hafi verið sá sem hringdi.

En hvað um það, þetta er niðurstaða Hæstaréttar. 

Eftir að hinum horfna manni hafði verið ráðinn bani ók flokkurinn af stað með líkið í sendiferðabíl í átt til Reykjavíkur en stúlkan varð eftir. Ekki kemur fram nein skýring á því í dóminum hversvegna ekki var notast við sama felustað og í fyrra málinu; Hafnarfjarðarhraun. Sá staður hafði jú reynst nokkuð vel og auk þess var færðin betri. Þess í stað var farið með líkið til Reykjavíkur og ekið í kvöldkyrrðinni inn í mjótt port milli Grettisgötu og Njálsgötu þar sem gluggar fjölbýlishúsa eru á alla kanta. Um hundruð glugga er að ræða sem vísa inn í portið. Þar var líkinu skutlað út og borið fyrir allra augum inn í opna geymslu í fjölbýlishúsi og geymt þar í opinni sameign í þrjá daga. Þá var það sótt og ekið með það upp í Rauðhóla, grafið þar niður í 10- 12 stiga frosti og síðan hellt yfir bensíni og kveikt í því, svo lítið bar á, á þessu kyrrláta nóvemberkveldi.  Og eins og hinn þýzki rannsóknarmaður sagði svo oft á löngum blaðamannafundi 2. febrúar 1977 þegar hann upplýsti bæði menn og þjóð um ótvíræð afdrif hinna horfnu manna:

Schütz 

“Þetta er eins og við glæparannsóknarmenn  segjum: Algerlega öruggt.” 

 Martröð var létt af þjóðinni.

Eftir að samhljóða framburðir dómþola lágu  fyrir um þetta, fór fram víðtæk leit að  líkinu í Rauðhólum. Víða var reynt að  grafa, með stórvirkum jarðvinnuvélum.  Ómögulegt reyndist hinsvegar að grafa í  Rauðhólum vegna frosts í jörðu og báðu  skurðgröfumenn um frest, vegna þess. Það  frost var þó allmörgum gráðum minna en  þegar dómþolar fóru með múrskóflur sínar  og dysjuðu líkið, samkvæmt dómi þeim sem  nú 2015 stefnir loks í að verði  endurupptekinn. 

Í þessu máli eru fjölmörg slík dæmi til viðbótar um það að framburður sakborninga sé samhljóða um atriði sem við nánari athugun geta alls ekki staðist. EF gengið er út frá því að tilgangur rannsóknarmanna hafi í raun verið sá að rannsaka málið hljóta að vakna spurningar um hæfni þeirra. Af gögnum málsins verður t.d. ekki annað ráðið en að þeir hafi hiklaust vaðið út í það fúafen að handtaka svonefnda fjórmenninga, sem voru allir valinkunnir sómamenn, um leið og óljós og ósamstæður framburður kom fram.

Ágætis umhugsunarefni gæti einnig verið fyrir hugsandi fólk hér á 21. öld að hugsa um hver yrðu viðbrögð lögreglu og dómskerfis ef fjórir virðulegir borgarar yrðu handteknir vegna glæps sem enginn gæti þó verið viss um að hefði verið framinn. En síðan sleppt, eftir allt að 105 daga gæsluvarðhaldsvist. 

Þröngur hópur rannsóknarmanna bæri ábyrgð á að hafa látið blekkjast svo hrapalega... Ef slíkt myndi henda við rannsókn máls í nútíma réttarkerfi yrði óhjákvæmilegt að utanaðkomandi aðilar kæmu inn og sérstök rannsókn færi fram á uppruna mistakanna. Ekkert slíkt gerðist þarna. Rannsóknarmenn héldu einfaldlega áfram aðgerðinni, eins og ekkert hefði í skorist. 

"Rannsóknarblaðamenn" spurðu einskis.

Löngu seinna, um haustið 1976 var loks gengið í það einfalda en mikilvæga verkefni að fá fram játningar sakborninganna um að þessi ótrúlegu mistök væru þeim að kenna, rannsóknarmenn bæru enga ábyrgð. Samkvæmt þeim játningum var um samantekin ráð að ræða. Fundur hafi farið fram, og ákvörðun tekin um að blanda fjórmenningunum í málið. Niðurstaða rannsóknarmanna var sú að þeir væru sjálfir alveg ábyrgðarlausir af þessu.

Margt er ólíkt með þessum þætti málsins og mannshvörfunum. T.d. það að ekki er deilt um málsatvik: 3 sakborningar skrifuðu undir skýrslur þar sem sakir voru bornar á saklausa menn. Hins vegar hafa sakborningar haldið því fram að nöfn veitingamannanna hafi verið nefnd við þau, nöfn hinna tveggja hafi verið nefnd í allt öðru samhengi en rannsóknarmönnum hafi þótt innkoma þeirra mikil styrking við rannsóknartilgátu sem lengi hafði verið að gerjast.

Veitingamennirnir tveir höfðu lengi verið hluti af rannsóknartilgátunni. Innkoma nýju tvímenninganna var hið mikla “Eureka! moment” í rannsókn Keflavíkurmálsins. Þeir þóttu  nauðsynlegir sem tengiliðir milli sakborninganna og veitingamannanna. 

Það liggur fyrir að hinar röngu sakargiftir fóru fram meðan sakborningar voru í gæsluvarðhaldi, þannig að í öllu falli var sá glæpur framinn undir umsjón rannsóknarmanna í Síðumúla. Niðurstaða rannsóknarmanna er sú að þeir sjálfir beri enga ábyrgð vegna handtöku fjórmenninganna, hinir bíræfnu unglingar hafi prettað þá. Það verður að teljast heppileg niðurstaða, en varla getur trúverðugleiki þeirra játninga sem fram komu verið mikill þegar haft er í huga að ábyrgðin lá hjá þeim, ef ekki hjá krökkunum. Umhugsunarefni er einnig hver hafi verið mótspyrnuþróttur sakborninganna, þegar þarna var komið sögu. 

Og þar komum við að því fúafeni sem þessi mál standa frammi fyrir í dag, 2015.

Nú hefur settur saksóknari, eftir nákvæma athugun mælt með endurupptöku dóma yfir fjórum aðilum sem eru dómþolar í þessu máli. Samtals voru þessir fjórir menn dæmdir í yfir 40 ára fangelsi. Sakarefnið að baki dómunum yfir þeim er í þrennu lagi: Aðild að mannshvarfi í Keflavík, aðild að öðru mannhvarfi í Hafnarfirði og í þriðja lagi rangar sakargiftir gegn fjórum saklausum mönnum. Með þeirri rökstuddu gagnrýni og nýju gögnum sem fram hefur komið á undanförnum áratugum verður að teljast óhjákvæmilegt að endurupptaka allt málið. Miðað við stöðu málsins í dag er líklegt að þessir fjórir dómþolar munu verða sýknaðir, sennilega á næstu misserum af tveimur mannsmorðum. Hins vegar mælir settur saksóknari hvorki með né gegn endurupptöku á máli stúlkunnar. Það er mjög athyglisvert þar sem sakarefnið að baki þriggja ára fangelsisdómi yfir henni, snýr eingöngu að þessum þætti, þ.e. röngum sakargiftum. Ákæruvaldið færði fram þau rök á sínum tíma að hinar röngu sakargiftir sönnuðu aðild sakborninga að mannshvörfunum, það væri “allt eða ekkert”. Þar sem Saksóknari mælir nú með endurupptöku á dómum yfir fjórum mönnum, er þá meiningin að dómar fyrir rangar sakargiftir standi einir og sér?

Hér í byrjun var fjallað um atvik málsins samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 1980, sem enn stendur óhaggaður. En með hliðsjón af framansögðu er athyglisvert að velta því fyrir sér hver verður staðan eftir að fyrrnefndir fjórir dómar hafa verið enduruppteknir og dómþolar sýknaðir en dómar vegna rangra sakargifta látnir standa. 

40 árum eftir dóm Hæstaréttar birtist okkur þá ný útgáfa sögunnar: 

Maður hverfur í Keflavík. 19 ára gamlir krakkar lesa um mannshvarfið í fjölmiðlum eins og aðrir. En sinna  að öðru leyti  sínum daglegu hugðarefnum og hversdagslegu heimilishaldi eins og gengur og gerist. Fylgjast af áhuga með íslenskri kvikmyndagerð, fara í bíltúr og skreppa í bíó einstaka sinnum, taka mömmu stundum með. En samkvæmt þeirri útgáfu sögunnar sem nú stefnir í, héldu þau engu að síður fund með manni, jafnaldra sínum, heima hjá honum á Grettisgötu. Þar tóku þau saman ráð sín um að ef þau yrðu einhverntíma handtekin vegna þessa mannshvarfs sem þau komu hvergi nærri,  þá skyldu þau bera sakir á fjóra menn en játa þó jafnframt sakir á sig sjálf. Gestgjafinn á fundinum skyldi þó í byrjun aðeins nefna einn af fjórmenningunum. Þessi áætlun skyldi framkvæmd af þeim öllum í einu, 43 dögum eftir að þau yrðu handtekin og sett í einangrun.     

Annaðhvort trúum við þessu, eða við endurupptökum einnig mál stúlkunnar og finnum haldbetri skýringar á tilurð hinna röngu sakargifta.

TH

 

 

*Það sem kom á óvart var það að málið skyldi ekki hafa verið opnað 1997 þegar SMC lagði fram kröfu sína til HR.

**2 Stúlkur voru á ferð í Hafnarfirði þetta kvöld. Önnur þeirra taldi sig hugsanlega hafa séð einn sakborninganna með hinum horfna. Samkvæmt yfirlýsingu lögreglumannsins GG sem sá um sakbendinguna var framkvæmd hennar stórlega gölluð. 

Stúlkan dró framburð sinn til baka.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það gleymist að þau játuðu fleiri morð, en viðkomandi var annað hvort ekki til eða á lífi.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 19.9.2015 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband