Hversu hæfir voru rannsakendur Geirfinnsmáls?
Mánudagur, 15. júní 2009
Ýmsir hafa bent á að við þær kringumstæður sem um þetta leyti ríktu í lífi Erlu hafi verið ástæða til að taka orðum hennar með fyrirvara þegar kom að því að hún bar sakir á fjórmenningana. Þegar Erla var handtekin vegna póstsvikamálsins var dóttir hennar 3 mánaða gömul. Sektarkennd vegna póstsvikamálsins jók á vilja hennar til að "hjálpa" rannsóknarmönnum. Aðskilnaður frá litla barninu og yfirþyrmandi ótti um að sá aðskilnaður yrði varanlegur hafði að líkindum einnig áhrif. Undir þessum kringumstæðum gaf hún skýrslu um að hún hafi tveimur árum fyrr séð nokkra menn í Hafnarfirði bogra yfir einhverju í poka. "Gæti hafa verið lík". Skýrslan markar upphaf Guðmundarmálsins. Henni varð ljóst að rannsóknarmenn álitu barnsföður hennar mjög hættulegan og til alls vísan. Slíkar kringumstæður myndu hafa áhrif á andlegt jafnvægi hvers sem væri. Skýrsla sálfræðings um Erlu er meðal efnis í dómi Hæstaréttar. Ekki verður farið nákvæmlega útí efni hennar hér. En skv. skýrslu sálfræðingsins var það ríkt persónueinkenni Erlu að hafa tilhneigingu til að stjórnast af öðrum. Og sérstaklega er útskýrt að varasamt sé að treysta á viðbrögð hennar sé hún undir tilfinningalegu álagi.
Jafnvel þó hin endanlega niðurstaða Hæstaréttar í Geirfinnsmáli sé að öllu leyti tekin góð og gild eru rannsóknarmennirnir alltént ábyrgir fyrir því að láta táningsstelpu sem hafði verið bendluð við eiturlyf og fjársvik segja sér: Að fjöldi valinkunnra og landsþekktra heiðursmanna væri sekur um stórglæp, sem enginn gat þó verið viss um að hefði verið framinn.
Og trúað og treyst hverju orði svo fullkomlega að þeir "veðjuðu" öllu sem kallast gæti heiður og sómi á að þetta hlyti að vera rétt. Stúlkan var þó af öllum sem til hennar þekktu annáluð fyrir auðugt ímyndunarafl og ævintýralegar sögur. Síðan reyndu rannsóknarmenn að fá frásögn Erlu staðfesta hjá Sævari, manni sem skv. frásögn þeirra sjálfra af eigin reynslu var hreint alls ekki trúverðugur aðili. Þegar Sævar tók undir að hluta, að eigin sögn eftir forsögn rannsóknaraðila og þá í þeim tilgangi að bjarga barnsmóður sinni úr klóm einhverskonar mafíu sem honum hafði verið sagt að bæri ábyrgð á "Geirfinnsmálinu", virðist svo sem dómgreind rannsóknaraðila hafi verið fullnægt og þeir létu til skarar skríða. Athygli skal vakin á því að Kristján Viðar nefndi hvorki Magnús né Valdimar fyrr en 27.jan.- degi eftir að þremenningarnir höfðu verið handteknir.
Varla er hægt að ætla nokkrum rannsóknarlögreglumanni (sem jafnframt er dómari) að hann álíti þessa mjög svo misvísandi og óskýru framburði þessara tveggja afvegaleiddu ungmenna nægilega sönnun eina og sér til að taka sjálfur á sig ábyrgð á því að handtaka 3 þjóðkunna heiðursmenn, rétt uþb. 48 klst. eftir að fyrstu framburðir lágu fyrir. Mun líklegra verður að teljast að Örn Höskuldsson og samstarfsmenn hans hafi talið sig hafa eitthvað sem styddi þessar sögur. Ölluheldur haft einhverjar rannsóknartilgátur sem þessir framburðir væru í raun aðeins staðfesting á. Ýmis atriði í frumrannsókn Geirfinnsmáls benda til að rannsóknarmenn hafi frá upphafi talið hvarf Geirfinns lið í mun stærra máli- "spíramálinu mikla". Aldrei fannst þó neinn spíri. Ragnar Aðalsteinsson segir í greinargerð sinni:
" Minna verður hér á stórfellda gagnrýni Hallvarðs Einvarðssonar, þá aðalfulltrúa saksóknara ríkisins, í garð dómsmálaráðuneytis árið 1972, er svonefnd Klúbbmál komu uppá yfirborðið. Lögreglustjóri lokaði Klúbbnum eftir að aðalfulltrúinn hafði snúið sér til hans og byggðist lokunin á heimild í áfengislögum, en var ekki rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð opinberra mála. Taldi aðalfulltrúi að allsendis óviðeigandi væri að hafa veitingahúsið opið frá sjónarmiði almennrar réttarvörslu. Fáeinum dögum síðar var ákvörðun lögreglustjóra felld niður að tilhlutan dómsmálaráðherra og ritaði aðalfulltrúinn skýrslu og umsögn um málið 23. okt. 1972. Taldi hann, að niðurfelling dómsmálaráðuneytis á banni lögreglustjóra væri "allsendis ótímabær og ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum." Til þessara átaka er að rekja sífelldan grun rannsóknarmanna á svonefndum Klúbbmönnum á þessum árum og tilhneigingu þeirra til að tengja grunsamlega atburði við Klúbbinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.