Hugmynd Hæstaréttar
Fimmtudagur, 10. september 2020
27.september 2018 voru 5 menn sýknaðir af aðild að svokölluðu Guðmundar-og Geirfinnsmáli.
Beiðni um endurupptöku á dómum vegna rangra sakargifta er hafnað.
Hugmynd Hæstaréttar Íslands um málið virðist því vera eftirfarandi:
Maður hverfur í Keflavík. 19 ára gamlir krakkar lesa um mannshvarfið í fjölmiðlum eins og aðrir. En sinna að öðru leyti sínum daglegu hugðarefnum og hversdagslegu heimilishaldi eins og gengur og gerist. Fylgjast af áhuga með íslenskri kvikmyndagerð, fara í bíltúr og skreppa í bíó einstaka sinnum, taka mömmu stundum með. En samkvæmt sýknudómi Hæstaréttar, sem nú er kominn fram, héldu þau engu að síður fund með manni, jafnaldra sínum,á kaffihúsinu Mokka. Þar tóku þau saman ráð sín um að ef þau yrðu einhverntíma handtekin vegna þessa mannshvarfs sem þau komu hvergi nærri og höfðu engar hugmyndir um fremur en aðrir, þá skyldu þau bera sakir á fjóra menn en játa þó jafnframt sakir á sig sjálf. Einn fundargesta skyldi þó í byrjun aðeins nefna einn af fjórmenningunum, og stúlkan í hópnum skyldi aðeins nefna þrjá. Þessi áætlun skyldi framkvæmd af þeim öllum í einu, 43 dögum eftir að þau yrðu handtekin og sett í einangrun.
Annaðhvort trúum við þessu, eða við endurupptökum einnig dóm vegna rangra sakargifta og finnum haldbetri skýringar á tilurð þeirra.
TH
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning