Um tilurð rangra sakargifta í Geirfinnsmáli
Föstudagur, 20. september 2019
Þegar dómar féllu í Geirfinns og Guðmundarmálum 22.feb. 1980, voru sex ungmenni dæmd til samtals 60 ára fangelsisvistar. Núorðið er öllum sem vita vilja orðið ljóst að ýmis mistök áttu sér stað við rannsókn þessara umfangsmestu sakamála 20.aldarinnar. Augljósustu mistökin eru án efa þau, að í jan. 1976 voru fjórir menn hnepptir í gæsluvarðhald og þeim haldið í varðhaldinu um allt að 105 daga skeið en síðan sleppt eftir að í ljós kom að þeir voru saklausir. Þessi þáttur málsins var líklegast sá sem hvað mestan óhug vakti hjá almenningi á sínum tíma og í hugum margra sá þáttur sem sannfærði með óyggjandi hætti um sekt sakborninga í Geirfinnsmáli.
Eins og öllum er kunnugt varð niðurstaða Hæstaréttar sú að dómþolar hefðu tekið saman ráð sín um að varpa sök á fjórmenningana. Er þetta til að mynda sakarefnið að baki fangelsisdómi Erlu Bolladóttur. Sé málið skoðað er þó ýmislegt sem bendir til að þessi þáttur málsins sé engu öruggari en aðrir þættir þess.
I
Rannsóknarmenn rannsökuðu eigin störf
Játning dómþola, annara en Kristjáns V.Viðarssonar varðandi samantekin ráð um rangar sakargiftir liggur fyrir og frá sjónarhóli lögfræðinnar metin sem "lögfull sönnun". Þeir dómþola sem eitthvað hafa tjáð sig um þetta atriði eftir að Hæstiréttur felldi dóm sinn hafa haldið því fram að nöfn hafi fyrst verið nefnd af rannsóknarmönnum og hefur Erla Bolladóttir lýst þessu í yfirlýsingu sinni sem er fylgiskjal með greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar. Þar standa vissulega orð hennar gegn orði rannsóknarmanna og einnig gegn hennar eigin játningu um samantekin ráð dómþola. En etv. er einnig tilefni til að spyrja:
Hafi málavextir í raun þróast með þeim hætti sem dómþolar hafa haldið fram, hver var þá aðstaða þeirra til að koma frásögn sinni af atburðum áleiðis? Eftir að Erla bar að hún hefði sjálf skotið Geirfinn með riffli var fjórmenningunum loks sleppt. Þegar hin afdrifaríku mistök komu í ljós var einnig ljóst um var að ræða fleiri en einn möguleika á uppruna þessara mistaka. Og hver er þá trúverðugleiki þeirrar rannsóknar sem fram fór á uppruna mistakanna? Var það sanngjarnt gagnvart dómþolum, eða rannsóknarmönnum sjálfum, að þeir, sem skv. eigin niðurstöðum höfðu verið gabbaðir til að handtaka saklausa menn, væru sjálfir látnir rannsaka það sem gat aðeins verið þeirra eigin sök að öðrum kosti en með fenginni niðurstöðu?
II
Dómþolar voru ekki höfundar sögunnar um dráttarbrautina
Í okt. 1975, á þeim tíma sem rannsóknin á hvarfi Geirfinns Einarssonar lá að mestu niðri, barst rannsóknaraðilum til eyrna að maður nokkur hefði sagt frá því að hann hefði verið staddur í dráttarbraut Keflavíkur að kveldi 19. nóv 1974 ásamt Geirfinni og fleiri mönnum. Maður þessi verður ekki nafngreindur hér öðruvísi en G.A. Hann var tekinn til yfirheyrslu eftir að börn mannsins bentu lögreglunni á að hann hefði sagt þeim af þessari reynslu sinni. Í fyrstu skýrslu mannsins 23. okt 1975 kemur fram að G.A, sem hafði átt við áfengisvanda að stríða, hafði verið undir áhrifum áfengis er hann sagði tveimur börnum sínum sem bæði voru fullorðið fólk, frá atburðarás kvöldsins 19. nóv 1974. Um hafi verið að ræða ölvunarraus og enginn fótur fyrir frásögninni. Frásögnin var í stórum dráttum á þá leið að G.A. fór á sendibifreið frá Reykjavík til Keflavíkur, hitti þar Magnús Leopoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og fleiri menn (ekki nafngreindir). Þeir ætluðu að hitta Geirfinn í Hafnarbúðinni en komu of seint og misstu af Geirfinni. Að sögn G.A. fór Magnús inn í Hafnarbúðina og hringdi í Geirfinn. Geirfinnur kom aftur og síðan var ekið á tveimur bifreiðum niður í dráttarbraut Keflavíkur. Þaðan fóru G.A. og Geirfinnur á bát út fyrir höfnina og Geirfinnur kafaði eftir áfengi sem þar hafði verið hent útbyrðis úr flutningaskipi. Þeir fóru tvær ferðir, sóttu smyglið en í þriðju ferðinni kom eitthvað fyrir og Geirfinnur kom ekki upp eftir köfunina. G.A. beið drykklanga stund en sneri síðan til lands einn. Smyglinu var hlaðið í sendiferðabifreiðina og aðra bifreið sem þar var einnig til taks. Smyglinu var síðan ekið til Reykjavíkur. G.A. tók fram að hann hefði tekið þátt í slíkum leiðangri áður og fengið greiddar kr. 70.000- fyrir.
Ekki verður því haldið fram hér að þessi saga G.A. eigi við rök að styðjast. En með tilliti til þess að þessi frásögn kemur fram 23.okt 1975 -þremur mánuðum áður en fyrsta skýrsla dómþola í Geirfinnsmáli kemur fram, verður að teljast einkennilegt samræmi sem þarna myndast. Hvergi fyrr í frumrannsókn málsins höfðu komið fram vísbendingar um að dráttarbrautin í Keflavík væri vettvangur meints glæps. Og auk staðsetningarinnar eru fjölmörg atriði stór og smá í frásögn G.A. sem koma heim og saman við hinar ýmsu skýrslur sem dómþolar skrifuðu undir á vormánuðum 1976 og héldust sum hver alla leið í gegn um dóm Hæstaréttar 1980. Helstu sameiginleg atriði með frásögn G.A. og dómi Hæstaréttar eru eftirfarandi:
1. Ferð úr Reykjavík til Keflavíkur
2. Tvær bifreiðar eru notaðar í báðum sögunum, sendiferðabifreið og fólksbifreið.
3. Spírasmygl spíraviðskipti með þátttöku Geirfinns.
4. Klúbbmenn eru nefndir. (Fyrst nefndir af G.A. en ekki af dómþolum.)
5. Dráttarbraut Keflavíkur er sögð vettvangur atburðanna.
6. Jafn stór hópur manna er í dráttarbrautinni í báðum sögunum. Auk Geirfinns og klúbbmannanna Magnúsar og Sigurbjörns segir G.A. tvo aðra hafa verið með sér.
7. Upphæðin sem G.A. segist hafa fengið greidda: kr. 70.000.00- er sú sama og Sævar á að hafa boðið Geirfinni fyrir áfengi.
Sé saga G.A. hinsvegar borin saman við fyrstu framburði Sævars og Erlu aukast líkindin enn því þá er bátsferðin einnig inni í myndinni, og atburðarásin er að mestu leyti á sama veg. Að þessu athuguðu hljóta ýmsar spurningar að vakna. Til dæmis: Hvernig gátu frumrannsakendur málsins fundið umgjörð og vettvang glæpsins án þess að hafa aðgang að vitnum eða vísbendingum öðrum en ölóðum manni sem hvergi kom
nærri ? Möguleikarnir eru 3:
Tilviljun, sem er hin opinbera skýring þar til annað kemur í ljós.
Sakborningar hafi áður en þau voru handtekin komist yfir frumrannsóknargögn, kynnt sér þau og síðan vísvitandi hagað frásögn sinni til samræmis við frásögn G.A.
Rannsóknaraðilar hafi lagt sakborningum til vettvanginn. -Skýring dómfelldu.
Ennfremur mætti spyrja hver líkindin séu fyrir því að maður sem í ölæði nefnir fyrir tilviljun "réttan" vettvang glæpsins fyrstur manna, skuli einnig fyrir tilviljun nefna sömu upphæð og varð í niðurstöðu Hæstaréttar tilefni átakanna, auk annara atriða stórra og smárra. Hvernig svo sem þetta er túlkað er ljóst að sagan um Keflavíkurferðina og þátttöku "Klúbbmanna" í henni, var til áður en dómþolar, þau Erla, Sævar og Kristján höfðu sagt orð um Geirfinnsmál. Sé fótur fyrir sögunni verður það að teljast ein af hinum fjölmörgu furðulegu tilviljunum í þessu risavaxna sakamáli að G.A. skyldi geta sagt söguna "fyrirfram" með slíkri nákvæmni.
Þann 17.feb. 1976 tekur rannsóknarlögreglumaðurinn Eggert N. Bjarnason stutta skýrslu af G.A. Þar staðfestir G.A. að hann hafi sagt þessa sögu við yfirheyrslu í okt. 1975, 3 mánuðum áður en dómþolar segja söguna. Ætla mætti að rannsóknarlögreglumanninum hafi verið allnokkuð brugðið er hann gerir sér grein fyrir því að saga sú sem toguð hafði verið upp úr dómþolum í löngum og ströngum yfirheyrslum, var til, nánast í öllum smáatriðum í þá u.þ.b. 4 mánaða gamalli skýrslu frá manni sem einungis hafði rausað þetta í ölæði. Ekki varð þó þessi uppgötvun tilefni til neinna sérstakra aðgerða að hálfu rannsóknaraðila.
Dómþolar hafa allir, við ýmis tækifæri haldið því fram að þeim hafi verið lögð til sagan áður en þau gáfu fyrstu skýrslur í málinu. Hverjum og einum skal látið eftir að meta hvort af framansögðu megi finna stuðning við þann framburð dómþola.
III
Hvert var upphaf umræðna um Geirfinnsmál?
Skúli segir í grein sinni: "Ekki hafa komið fram neinar skýringar á því hver hafi verið ástæða þess að Erla blandaði saklausum mönnum í málið, aðrar en þær sem hún hefur sjálf gefið, þ.e. að leiða athyglina frá dómfellda og sjálfri sér. Meira að segja í þessari skýringu er mótsögn, þar sem ekki verður séð að grunur hafi vaknað um aðild dómfellda að hvarfi Geirfinns öðruvísi en eftir frásögn Erlu sjálfrar. Það vekur enn upp nýja spurningu, hvers vegna var Erla að blanda dómfellda inn í Geirfinnsmálið ef grunur rannsóknaraðila var ekki vaknaður um þátt hans? Var Erla þá e.t.v. í þeirri villu að grunur rannsóknaraðila um aðild dómfellda að málinu væri þegar vaknaður?"
Þarna eru settar fram mjög athyglisverðar spurningar sem hvergi er svarað í niðurstöðu málsins. Jafnvel mætti bæta einni við: Þar sem engin önnur gögn en framburður Erlu voru til að varpa grun á Sævar og hina ranglega sökuðu, hversvegna kemur fyrsta skýrsla Sævars í málinu
22. Jan.- degi á undan fyrstu formlegu skýrslu Erlu? Varla hefur Sævar rætt Geirfinnsmál að eigin frumkvæði. Þar sem hann hafði verið í einangrun í Síðumúla síðan 12. des. 1975, hefði sá viðauki þurft að fylgja áætlun dómþola um rangar sakargiftir að bíða skyldi með að framkvæma áætlunina þar til 43 dögum eftir að dómþolar yrðu handteknir vegna póstsvikamálsins. Innkoma Sævars (og hinna ranglega sökuðu) í málið er einvörðungu byggð á framburði Erlu. Og varla hefur Erla rætt málið að eigin frumkvæði heldur. Alltént er ljóst að hún hafði enga ástæðu til að ræða Geirfinnsmálið, væntanlega enn síður væri hún sjálf og Sævar viðriðin málið. Slíkt uppátæki væri varla í samræmi við þá undirferli og slægð sem hún er dæmd fyrir að hafa beitt til að pretta hina auðtrúa rannsóknarmenn. Engin gögn hafa fundist sem sýna að Erla hafi um þetta leyti talið Sævar liggja undir grun um aðild að hvarfi Geirfinns. Margt bendir hinsvegar til að eftir það sem á undan var gengið hefði hún getað lagt trúnað á slíka tilgátu. Niðurstaða rannsóknar á tilurð hinna röngu sakargifta er sú að Erla hafi án nokkurs sérstaks aðdraganda komið til rannsóknarmanna og tilkynnt að hún hefði orðið fyrir símahótunum og grunaði "klúbbmenn" um að standa fyrir því vegna Geirfinnsmálsins. Hvernig sem á það er litið bendir þó allt til þess að frumkvæðið að spjalli um málið sé ekki frá Erlu komið, heldur rannsóknaraðilum. Dagsetningar fyrstu skýrslna dómþola sýna svo ekki verður um villst að málið hafði verið rætt við Erlu fyrir þennan tíma og þá óformlega og engar skýrslur gerðar.
Í fyrstu formlegu skýrslu sinni segist hún hafa orðið fyrir símaónæði og segist gruna að það geti verið í tengslum við "Geirfinnsmálið". Að eigin sögn var henni í þessum símtölum hótað lífláti ef hún segði orð um það mál. Hafi rannsóknarmenn þá þegar spjallað um málið við Erlu, eins og allt bendir til, hafa símtöl þessi að líkindum valdið henni nokkrum óróa. Skýrslan er dagsett 23. jan.1976. Í yfirlýsingu sem er fylgiskjal með greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar lýsir Erla aðdraganda þessa vendipunktar í málinu. Erlu var sleppt úr einangrun 22. des. 1975 og flutti hún þá til móður sinnar í Stóragerði. Þegar Erla gaf skýrsluna höfðu rannsóknarmennirnir verið frá því um miðjan mánuðinn nánast daglegir gestir á heimili móður Erlu. Þeir komu oft í heimsókn og spjölluðu um ýmis mál, hvernig þeir gætu aðstoðað í sambandi við flutninga ofl. En það er eins með þessar óformlegu viðræður sem rannsóknaraðilar áttu við Erlu þessa janúardaga og margt annað í þessu einstaka sakamáli, að engar skráðar skýrslur eru til. Hvað það var sem rannsóknarmönnunum og Erlu fór á milli á þessum fundum er því útilokað að sanna, eða afsanna en afleiðingarnar urðu vissulega grimmúðlegar fyrir fjórmenningana sem síðar voru handteknir saklausir. Í einni slíkri heimsókn var í óformlegu spjalli minnst á Geirfinnsmálið og rætt um þær sögusagnir sem lengi höfðu verið á kreiki um aðild "klúbbmanna" að því. En Erla fann sig skyndilega í óvæntri stöðu. Eftir að hún minntist á að hafa heyrt talað um samkvæmi hjá bróður Huldu vinkonu sinnar (Valdimar Olsen), þar sem Einar Bollason, Sigurbjörn Eiríksson og Magnús Leopoldsson komu við sögu, virtist sú frásögn hafa vakið upp grun hjá þessum traustu og yfirveguðu mönnum um að einhverskonar mafía sem tengdist "Geirfinnsmálinu" hefði verið þar á ferð.
Allt bendir til að þetta innlegg hafi rannsóknarmönnum þótt mjög mikilvægt. Rannsóknartilgátan sem þá þegar innihélt Klúbbmenn, teygði sig nú einnig yfir Einar og Valdimar auk Sævars og þeirrar glæpaklíku sem hann var talinn standa fyrir. Sjálf hafði Erla engar forsendur til að draga þennan grun rannsóknarmanna í efa. Þó því verði vart haldið fram að rannsóknaraðilar hafi lagt til nafn Einars Bollasonar, er ljóst að þeim þótti hann afar vænlegur sem tengiliður milli Klúbbmanna og Sævars, og að innkoma hans í málið gerði löngu fram komna rannsóknartilgátu þeirra um aðild Klúbbmanna mun sennilegri en ella.
Alltént er ljóst að eftir að Erla kemur á þessari tengingu milli Einars og klúbbmanna vaknaði einhversstaðar vonarneisti um að rannsókn Geirfinnsmálsins væri loks að komast í réttan farveg. Reyndar sama farveg og stefnt hafði verið á í upphafi, þegar rannsóknarlögreglan í Keflavík fól Magnúsi Gíslasyni teiknara að teikna mynd eftir ljósmynd af Magnúsi Leopoldssyni þegar leitin að "Leirfinni" stóð sem hæst. E.t.v. var hvorki Erlu né fjórmenningunum neinnar undankomu auðið. Oft skömmu eftir að rannsóknarmennirnir voru farnir hringdi síminn og örvæntingin tók við stjórninni. Erla taldi sig sannarlega hafa ástæðu til að óttast. Hvað vissi hún nema að Sævar hefði verið að bralla eitthvað með þessum Klúbbköllum? Og nú voru þeir hræddir um að hún vissi eitthvað um þá. Enginn veit hver stóð á bak við hringingarnar. Rannsóknarmenn urðu aldrei vitni að þeim. En hverjum þeim sem um þessar mundir þekkti til sálarástands stúlkunnar og vissi að hún var oft ein heima, mun hafa verið ljóst að ef hún yrði hrædd myndi hún leita til rannsóknarmannanna, og til að bjarga eigin lífi myndu ungri móður engin meðul heilög. Jafnvel ekki að bera sakir á menn sem hún í framhaldi af viðtölum sínum við lögregluna, gerði sér nú grein fyrir að voru hvort eð er sekir og stórhættulegir. Hún treysti lögreglunni fullkomlega, engum öðrum.
IV
Hversu hæfir voru rannsakendur Geirfinnsmáls?
Ýmsir hafa bent á að við þær kringumstæður sem um þetta leyti ríktu í lífi Erlu hafi verið ástæða til að taka orðum hennar með fyrirvara þegar kom að því að hún bar sakir á fjórmenningana. Þegar Erla var handtekin vegna póstsvikamálsins var dóttir hennar 3 mánaða gömul. Sektarkennd vegna póstsvikamálsins jók á vilja hennar til að "hjálpa" rannsóknarmönnum. Aðskilnaður frá litla barninu og yfirþyrmandi ótti um að sá aðskilnaður yrði varanlegur hafði að líkindum einnig áhrif. Undir þessum kringumstæðum gaf hún skýrslu um að hún hafi tveimur árum fyrr séð nokkra menn í Hafnarfirði bogra yfir einhverju í poka. "Gæti hafa verið lík". Skýrslan markar upphaf Guðmundarmálsins. Vafi um að skýrslan sé rétt jók enn á angist hennar. Henni varð þó ljóst að rannsóknarmenn álitu barnsföður hennar mjög hættulegan og til alls vísan. Tilvera hennar var í raun hrunin og tilfinningalegt álag gríðarlegt. Slíkar kringumstæður myndu hafa áhrif á andlegt jafnvægi hvers sem væri. Skýrsla sálfræðings um Erlu er meðal efnis í dómi Hæstaréttar. Ekki verður farið nákvæmlega útí efni hennar hér. En skv. skýrslu sálfræðingsins var það ríkt persónueinkenni Erlu að hafa tilhneigingu til að stjórnast af öðrum. Og sérstaklega er útskýrt að varasamt sé að treysta á viðbrögð hennar sé hún undir tilfinningalegu álagi.
Jafnvel þó hin endanlega niðurstaða Hæstaréttar sé að öllu leyti tekin góð og gild eru rannsóknarmennirnir alltént ábyrgir fyrir því að láta táningsstelpu sem hafði verið bendluð við eiturlyf og fjársvik segja sér: Að fjöldi valinkunnra og landsþekktra heiðursmanna væri sekur um stórglæp, sem enginn gat þó verið viss um að hefði verið framinn.
Og trúað og treyst hverju orði svo fullkomlega að þeir "veðjuðu" öllu sem kallast gæti heiður og sómi á að þetta hlyti að vera rétt. Stúlkan var þó af öllum sem til hennar þekktu annáluð fyrir auðugt ímyndunarafl og ævintýralegar sögur. Síðan reyndu rannsóknarmenn að fá frásögn Erlu staðfesta hjá Sævari, manni sem skv. frásögn þeirra sjálfra af eigin reynslu var hreint alls ekki trúverðugur aðili. Þegar Sævar tók undir að hluta, að eigin sögn eftir forsögn rannsóknaraðila og þá í þeim tilgangi að bjarga barnsmóður sinni úr klóm einhverskonar mafíu sem honum hafði verið sagt að bæri ábyrgð á "Geirfinnsmálinu", virðist svo sem dómgreind rannsóknaraðila hafi verið fullnægt og þeir létu til skarar skríða. Athygli skal vakin á því að Kristján Viðar nefndi hvorki Magnús né Valdimar fyrr en 27.jan.- degi eftir að þremenningarnir höfðu verið handteknir.
Varla er hægt að ætla nokkrum rannsóknarlögreglumanni (sem jafnframt er dómari) að hann álíti þessa mjög svo misvísandi og óskýru framburði þessara tveggja afvegaleiddu ungmenna nægilega sönnun eina og sér til að taka sjálfur á sig ábyrgð á því að handtaka 3 þjóðkunna heiðursmenn, rétt uþb. 48 klst. eftir að fyrstu framburðir lágu fyrir. Mun líklegra verður að teljast að Örn Höskuldsson og samstarfsmenn hans hafi talið sig hafa eitthvað sem styddi þessar sögur. Ölluheldur haft einhverjar rannsóknartilgátur sem þessir framburðir væru í raun aðeins staðfesting á. Ýmis atriði í frumrannsókn Geirfinnsmáls benda til að rannsóknarmenn hafi frá upphafi talið hvarf Geirfinns lið í mun stærra máli- "spíramálinu mikla". Aldrei fannst þó neinn spíri. Ragnar Aðalsteinsson segir í greinargerð sinni:
" Minna verður hér á stórfellda gagnrýni Hallvarðs Einvarðssonar, þá aðalfulltrúa saksóknara ríkisins, í garð dómsmálaráðuneytis árið 1972, er svonefnd Klúbbmál komu uppá yfirborðið. Lögreglustjóri lokaði Klúbbnum eftir að aðalfulltrúinn hafði snúið sér til hans og byggðist lokunin á heimild í áfengislögum, en var ekki rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð opinberra mála. Taldi aðalfulltrúi að allsendis óviðeigandi væri að hafa veitingahúsið opið frá sjónarmiði almennrar réttarvörslu. Fáeinum dögum síðar var ákvörðun lögreglustjóra felld niður að tilhlutan dómsmálaráðherra og ritaði aðalfulltrúinn skýrslu og umsögn um málið 23. okt. 1972. Taldi hann, að niðurfelling dómsmálaráðuneytis á banni lögreglustjóra væri "allsendis ótímabær og ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum." Til þessara átaka er að rekja sífelldan grun rannsóknarmanna á svonefndum Klúbbmönnum á þessum árum og tilhneigingu þeirra til að tengja grunsamlega atburði við Klúbbinn.
IV
Framburður Sævars fyrir dómi
Sævar kom fyrir dóm 1. apríl 1976 kl.10.09.
Framburður hans hefst á þessum orðum:
"Mættur kveðst vilja taka fram í upphafi, að skýrslur þær sem hann hefur gefið í þessu máli séu ekki byggðar á hans eigin vitneskju eða reynslu heldur hafi Erla Bolladóttir skýrt sér frá öllum atvikum sem hann sagði frá í eigin persónu hjá rannsóknarlögreglunni."
Með þessu orðalagi hlýtur þessi staðhæfing að teljast all furðuleg, og sem varnartaktík sæmir slík merkingarleysa engan vegin jafn slyngum manni og Sævar var sagður vera. Sævar hafði verið í hámarkseinangrun í 14 vikur. Sé reynt að fá einhverja merkingu út úr þessari fyrstu setningu í framburði Sævars getur hún ekki verið önnur en sú að Sævar sé að reyna að fá dómarann til að skrá niður að hann hafi enga vitneskju um málið aðra en þá sem rannsóknarlögreglan hafi eftir Erlu Bolladóttur. Þyki einhverjum það bíræfin staðhæfing að rannsóknardómarinn hafi hugsanlega sýnt af sér ónákvæmni í að skrá framburð manns fyrir dómi, má benda á að skv. frásögn dómarans sjálfs (Arnar Höskuldssonar) í bréfi til sakadómaranna (22. sept 1977) sleppti hann því jafnvel alveg að skrá framburð Sævars fyrir dóminum, ef hann "vissi betur."
Sævar nefnir síðan nöfn Magnúsar, Einars og Valdimars í því samhengi að Erla gæti hafa verið hrædd við þá. Hann nefnir ekki Sigurbjörn en bætir við tveimur þekktum mönnum úr viðskiptalífinu og segist hafa heyrt talað um að þeir viti allt um Geirfinnsmálið. Ennfremur stendur í dómsskjali: "Mættur kveðst hafa gefið skýrslur þessar til að hægt væri að rannsaka mál þetta, þar sem honum hefði verið sagt að Erla yrði fyrir ónæði og óttaðist um líf sitt."
Semsagt, þrátt fyrir að verulegt ósamræmi hafi verið í grundvallaratriðum í frásögn þeirra Sævars og Erlu um aðild annara en þeirra sjálfra að hvarfi Geirfinns, er nákvæmt samræmi um þetta atriði, þ.e. þeim hafi verið talin trú um að líf Erlu hafi legið við og nauðsynlegt væri að handtaka þá sem stæðu að líflátshótunum gegn Erlu áður en henni yrði gert mein og til að hægt yrði að leysa málið.
Hafi áætlun dómþola um meinsæri verið raunveruleg, verður að teljast furðulegt að frásagnir þeirra af ferðinni til Keflavíkur hafi verið svo ósamstæðar sem raun ber vitni. Fleiri nöfn voru nefnd til sögunnar, nöfn þjóðþekktra viðskipta og stjórnmálamanna. Augljóst er að rannsóknarmenn sáu fljótlega að þetta var "þunnur ís."
Þann 10. Febrúar er tekin skýrsla af Sævari og hefst hún á orðunum: "Mætta hafa verið sýndar myndir af 16 mönnum sem rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt að hafi verið við dráttarbraut Keflavíkur og/eða í bátsferð þ. 19.nóv". Sami formáli var að skýrslu sem sama dag var tekin af Erlu. Þó hvorugu þeirra hafi tekist að þekkja alla þá menn sem þau sögðust hafa séð í dráttarbrautinni, er skýrsla Erlu athyglisverð annara hluta vegna. Af myndunum þekkir hún 9 þeirra 16 manna sem rannsóknarlögreglan kveðst telja "hugsanlegt að hafi verið í dráttarbraut Keflavíkur og/eða í bátsferð þ.19.nóv". Flestir eru þeir umsvifamiklir menn úr íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum.
V
Sævar var þvingaður til rangra sakargifta
Fræg er umræðan um hina óskráðu samprófun þar sem Sævar hlaut löðrung af hendi fangelsisstjóra Síðumúlafangelsis. Samprófun þessi fór fram þ. 5.maí 1976, degi eftir að Erla Bolladóttir "játaði" að hafa sjálf skotið Geirfinn með riffli. Í framburði séra Jóns Bjarmans fangelsisprests kemur fram að dómþolar höfðu allir skýrt honum frá nefndri samprófun og efni hennar, sem var að rannsóknarmenn vildu fá Sævar til að viðurkenna að hann hefði verið í dráttarbraut Keflavíkur 19.nóv.1974 ásamt Magnúsi, Einari, Sigurbirni og Valdimar. Sævar þrætti af bestu getu fyrir hönd þeirra allra og hlaut að launum einn löðrung í viðurvist fjölda háttsettra embættismanna, svo að sannað sé. Tilviljun ræður því að hann skyldi veittur frammi fyrir svo mörgum og virðulegum vitnum en ekki þar sem minna bar á. Harðræðisrannsóknin var í framhaldinu einskorðuð við þennan löðrung, þó upphaflega hafi staðið til að rannsaka meint harðræði almennt.
Séra Jón Bjarman, þáverandi fangaprestur, fór fram á það í bréfi til dómsmálaráðuneytis í maí 1978, að rannsókn færi fram á meintu harðræði við yfirheyrslur á sakborningum. Hann nefndi sérstaklega atvik, sem gerðist, þegar þeir voru leiddir til samprófunar, 5.maí árið 1976.
Í bréfinu segir Jón Bjarman m.a:,,Tilefni beiðni minnar er ekki það, að ofangreindir sakborningar hafi farið þess á leit við mig, að ég hlutaðist til um eitt eða annað, sem að rannsókninni snýr, heldur hitt, að þau öll í sálgæsluviðtölum við mig hafa greint mér frá, hvað gerðist í þetta umrædda sinn, án þess að ég fitjaði upp á málinu eða legði fyrir spurningar." Séra Jón rekur síðan kjarnann í frásögn sakborninga og segir: ,,Í samprófuninni var lagt hart að Sævari að játa lýsingu Erlu á atvikum, en hann virtist ringlaður og miður sín og ekki vita, hvaðan á sig stóð veðrið. Meðan þessu fór fram, greip Eggert í hár Sævars, kippti honum og hrinti til og frá, svo hann var nærri fallinn á gólfið og ógnaði honum. Seinna, þegar Sævar mótmælti einhverju, gekk Gunnar yfirfangavörður að honum og löðrungaði hann. Samprófunin endaði í upplausn við það, að Erla fór að æpa í móðursýkiskasti. Var þá kallað á tvo fangaverði, sem drógu Sævar til klefa síns."
VI
Hver valdi Magnús Leopoldsson?
Af einhverjum ástæðum virðist frumrannsóknarmönnum hafa verið mjög í mun að framkvæmdastjóri Klúbbsins yrði bendlaður við hvarf Geirfinns. Þannig hefur vitni úr frumrannsókninni, afgreiðslukona úr Hafnarbúðinni, greint frá því að strax við upphaf leitar að leðurklædda manninum hafi henni verið sýnd mynd af framkvæmdastjóranum, Magnúsi Leopoldssyni. Konan kvartar sérstaklega undan því fyrir dómi, að leirmyndin sem sögð var gerð eftir lýsingu sjónarvotta, hafi verið látin líkjast Magnúsi "of mikið". Afgreiðslukonan er sú sem afgreiddi manninn með símtal og sá hann best allra.
Í mynd Sigursteins Mássonar "Aðför að lögum" var m.a. stutt viðtal við Magnús Gíslason teiknara og fréttamann í Keflavík. Formleg yfirlýsing sama efnis er í greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar. Í yfirlýsingunni segir Magnús frá því að í nóv. 1975 hafi lögreglumaður afhent honum ljósmynd af Magnúsi Leopoldssyni, með þeim fyrirmælum að hann skyldi gera teikningu eftir ljósmyndinni. Teiknarinn vissi þá ekki hver maðurinn á ljósmyndinni var. Fylgdu aukreitis þau fyrirmæli að hársveipur skyldi ná fram á ennið og augabrúnir nokkuð dekktar. Teikninguna ætti síðan að birta í fjölmiðlum og lýsa eftir manninum á myndinni. Um væri að ræða þann sem talinn var hafa hringt úr Hafnarbúðinni og boðað Geirfinn á hið örlagaríka stefnumót. Áður en Magnús Gíslason lauk teikningunni hafði leirstyttan verið gerð og var teikningin því aldrei notuð. Þessi frásögn þótti mörgum engu að síður ótrúleg og sannarlega ný gögn í málinu ef rétt væri. Þeir fjölmörgu sem neituðu að trúa slíku atferli á íslenska lögreglumenn neyddust síðan til að sannfærast, þegar lögreglumaðurinn S.N. sem afhenti myndina staðfesti í útvarpsviðtali að rétt væri frá greint. Ekki hefur verið upplýst nánar hver átti þá hugmynd að beina grun að Magnúsi Leopoldssyni með þessum hætti. En með þeim gögnum sem fyrir liggja er ljóst að frumrannsóknarmenn í Keflavík urðu þarna fyrstir til bendla Magnús Leopoldsson við hvarf Geirfinns. Sjálfsögð krafa er að upplýst verði hversvegna framkvæmdastjóri Klúbbsins varð fyrir valinu og hver valdi hann. Hvað var það á þessu stigi málsins sem beindi grun að honum? Ekki var Erlu Bolladóttur til að dreifa... Fleiri spurningar hljóta einnig að vakna þegar þetta er athugað: Þar sem í raun var verið að lýsa eftir Magnúsi, hvers vegna var þá ekki ljósmyndin einfaldlega birt? Magnús Gíslason er vissulega frábær teiknari, og gat léttilega teiknað auðþekkjanlega mynd af framkvæmdastjóra Klúbbsins, en hversvegna þessi millileikur, að láta gera teikningu eftir ljósmynd? Engin skýring hefur verið gefin. Gæti skýringin verið sú að forstjóra Klúbbsins hafi aukist hárprýði eftir að myndin var tekin, og hann orðinn fullorðinslegri til augnanna? Vissulega hafði það gerst en einnig verður að teljast sennilegt að sá sem stóð fyrir aðgerðinni hafi ekki viljað láta bendla sig við hana og því viljað finna sér einskonar skjól í teikningunni sem pöntuð var í nóv 1974. Ekki gat hann skákað í skjóli hins ævintýralega framburðar sem Erla gaf 23. Jan 1976. Reyndir og vanir lögreglumenn hafa verið manna skeleggastir í gagnrýni sinni á þá "óhefðbundnu rannsóknaraðferð" sem þarna var beitt. Sunnudaginn 8. mars 1998 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Gísla Guðmundsson fv. rannsóknarlögreglumann. Þar segir Gísli: "Ekki er með nokkru móti hægt að skilja hvað mönnum gengur til með slíkum vinnubrögðum og get ég ekki flokkað þetta undir neitt annað en stórfellt refsivert brot í opinberu starfi."
Bjarki Elíasson fv. yfirlögregluþjónn segir ennfremur í viðtali í heimildarmyndinni Aðför að lögum: "Þetta byrjaði sem rannsókn á hvarfi manns sem ekkert var óeðlilegt við að yrði rannsakað. En þegar ekki tókst að upplýsa það var það tengt alls óskyldum málum, forsendurnar fengnar fyrirfram og rannsakað út frá því. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra".
Hafi einhver í raun og veru hug á að finna uppruna rangra sakargifta í Geirfinnsmáli þá liggur beinast við að athuga hver frumrannsóknarmanna í Keflavík var það sem stóð fyrir því að senda lögreglumanninn S.N. með myndina af forstjóra Klúbbsins til Magnúsar Gíslasonar teiknara. Og hvers vegna? Það verður vafalaust upplýst einn góðan veðurdag.
VII
Var tilefni til samantekinna ráða?
Þær raddir hafa heyrst, jafnvel hjá málsmetandi mönnum að þó verulegur vafi liggi á um þátt dómfelldu hvað varðar mannshvörfin, sé eini öruggi þáttur málsins hinar röngu sakargiftir. Og hafi dómþolar staðið fyrir hinum röngu sakargiftum, sanni það þátt þeirra í hvarfi Geirfinns. En með þeirri athugun sem á liðnum áratugum hefur farið hefur fram á fyrirliggjandi gögnum úr Geirfinnsmáli hafa verið leidd sterk rök að því að Keflavíkurferðin hafi aldrei verið farin og dómþolar eigi engan þátt í hvarfi Geirfinns. Þar sem nánast öll umfjöllun um Geirfinnsmál hefur í u.þ.b. 20 ár verið um þetta, verður ekki farið útí það hér en vísað til greinargerðar Ragnars Aðalsteinssonar. Vegna þeirra sem lítið þekkja til skal þó nefnt eitt dæmi:
Það sem öðru fremur varð til þess að hvarf Geirfinns var rannsakað sem sakamál voru komur leðurklædda mannsins í Hafnarbúðina og símtöl hans. Allt bendir til að sá maður hafi boðað Geirfinn á stefnumót og það hafi orðið örlagaríkt. Þrátt fyrir gríðarlega leit fannst leðurklæddi maðurinn, sem fékk viðurnefnið "Leirfinnur", því miður ekki. Miklar rannsóknir sýndu hinsvegar fram á með óyggjandi hætti að maður þessi gat alls ekki hafa verið neinn dómþola. Engu að síður er í dómi Hæstaréttar augljóslega ranglega "miðað við" að Kristján V.Viðarsson sé "Leirfinnur". Það getur ekki talist annað en stórkostlegt hneyksli, því eins og fram kemur í greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar hlýtur öllum að hafa verið ljóst að hér var um rangan mann að ræða:
Vitnið sem sá [afgreiddi] þann ókunna mann sem kom og hringdi er Guðlaug Konráðs Jónsdóttir og er haft eftir henni í forsendum héraðsdóms, að það telji sig ekki hafa séð Kristján Viðar og skjólst.m. í Hafnarbúðinni greint kvöld. Það þekkti þá í sjón. Vitnið Ásta Elín Grétarsdóttir taldi að ekki hefði verið um skjólst.m. eða Kristján Viðar að ræða. Sama gildir um vitnin Hrefnu Björgu Óskarsdóttur og Jóhann Guðfinnsson. Ekki er um fleiri vitni að ræða og samkvæmt viðteknu sönnunarmati í opinberum málum má nánast telja sannað að hvorki skjólst.m. eða Kristján Viðar komu á staðinn um kvöldið
Framburður allra fjögurra vitnanna sem sáu "Leirfinn" er samhljóða um að Kristján Viðar sé ekki maðurinn. Það sem þó vekur e.t.v. mesta athygli er að aðalvitnið, afgreiðslukonan sem afgreiddi "Leirfinn" lýsir því yfir við sakbendingu að hún þekki Kristján Viðar í sjón og hafi þekkt hann fyrir umrætt kvöld. Af framburði hennar má helst skilja að ef um Kristján Viðar hefði verið að ræða hefði hún einfaldlega tilkynnt lögreglunni nafn mannsins. Vandséð er hvernig dómþolar gætu hafa fundið sér annað tilefni til samantekinna ráða um rangar sakargiftir en raunveruleg afskipti af hvarfi Geirfinns, og þar með einnig því atferli að boða hann á stefnumótið í Hafnarbúðinni. En með samhljóða framburði allra fjögurra vitnanna sem sáu manninn "Leirfinn", er sannað að sá sem raunveruleg ástæða var til að gruna um græsku var enginn dómþola. Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að rétt gæti verið að leita með opnum huga haldbetri skýringa á þeim hörmulegu mistökum sem áttu sér stað er "klær réttvísinnar" læstust um Einar Bollason, Magnús Leopoldsson, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson.
VIII
Eftirmáli
Dómur féll í Geirfinnsmáli 22. Febrúar 1980. Þó einstaka "kverúlanti" þætti á þeim tíma að seilst væri um skör fram í að dæma menn seka án fullnægjandi gagna, ríkti einhugur með þjóðinni um að dæma skyldi. Hvatinn að þessari samstöðu íslendinga var þó fremur sá að þjóðin var langþreytt á þessu vafstri, en að fólk hefði raunverulega skilning á málatilbúnaðinum. Hafi venjulegir íslendingar dottað yfir hinni 15 klst. löngu sóknarræðu ríkissaksóknara gátu þeir varla efast um að öllum spurningum hafi þar verið svarað. Almenningur treysti einfaldlega fagmönnum til verksins. En í 20 ár hefur verið fjallað um málið í ótal blaðagreinum, bókum, útvarpsþáttum, sjónvarpsþáttum og einni heimildarmynd. Þó umfjöllun hafi á köflum verið grunn, hefur hún orðið til þess að sífellt fleirum hefur orðið ljóst að ekki var allt með felldu við afgreiðslu málsins. Ekkert nýtt hefur komið fram sem styður við niðurstöðurnar en atriðin sem varpa vafa á sekt dómþola í málinu virðast verða fleiri eftir því sem árin líða. Segja má að fæst af því séu ný gögn, fram komin eftir dóm Hæstaréttar 1980. Heldur er um að ræða atriði sem mönnum hafði yfirsést en koma í ljós við nánari athugun og samanburð á fyrirliggjandi málsskjölum. Í áranna rás hafa menn fengið tóm til að grúska í hinum fyrirliggjandi gögnum og afla nýrra. Þar sem um er að ræða yfir 10.000 bls. af skýrslum og skjölum, er "eðlilegt" að dómurum málsins hafi yfirsést eitt og annað, rétt eins og verjendum sakborninga og öðrum, enda registur málsins með afbrigðum lélegt. Einnig hafa komið fram ný gögn sem dómurum var ókunnugt um við dómsuppkvaðningu. Hið gríðarlega umfang málsins varð til þess að vankantar ríkjandi réttarkerfis nutu sín betur en nokkru sinni. Það sjá menn best eftirá, enda hafa verið gerðar verulegar breytingar síðan. Önnur afleiðing þessa ógnarlega umfangs var sú að handhægt svar við áleitnum spurningum var jafnan tiltækt: "Það er nú svo margt annað í þessu máli "
En með gögnum á borð við greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar og úrlausn Hæstaréttar vegna endurupptökubeiðninnar er mun aðgengilegra nú en áður að öðlast heildaryfirsýn yfir málið. Á vefsíðu sem sett hefur verið upp á slóðinni er hægt að kynna sér málið. Þar er að finna nánast allt sem skrifað hefur verið um málið í íslenska prentfjölmiðla á undanförnum árum. Einnig Hæstaréttardóminn frá 1980, úrlausn Hæstaréttar frá 1997, auk málsskjala, greinargerða, og gagna af ýmsu tagi. Þannig hefur aðgengi að upplýsingum aukist, enda eru þeir ófáir, fagmenn jafnt og leikmenn sem í tímans rás hafa með aukinni þekkingu endurskoðað afstöðu sína.
Umfjöllun um Hæstaréttarmálið nr. 214/1978, Guðmundar-og Geirfinnsmál, hefur á undanförnum áratugum verið mikil og misjöfn. Þeir sem af ýmsum ástæðum virðast álíta niðurstöður málsins réttar, hafa einkum mætt gagnrýni með því að beina umræðunni að því hvort þær upplýsingar sem varpa rýrð á niðurstöður hafi legið fyrir við dómsuppkvaðningu eða ekki, fremur en að taka gagnrýnina málefnalegum tökum. Það sem vitnar best um þetta er að sjálfsögðu hin annars vandaða úrlausn Hæstaréttar frá 15. Júlí 1997.
Málflutningur "endurupptökusinna" hefur hinsvegar einkennst af óvæginni gagnrýni á störf lögreglunnar almennt. Slíkar "níhiliskar" alhæfingar eru alls ekki til þess fallnar að beina umræðunni á skynsamlegar brautir. Bent skal á að þrautreyndir og grandvarir lögreglumenn hafa ekki verið eftirbátar annara við að benda á vankanta málsins. Enda illt fyrir heila starfsstétt að liggja undir ámæli vegna afglapa örfárra manna. Við frumrannsóknina í Keflavík starfaði lítill hópur manna og sumir þeirra aldeilis engir kórdrengir. Stjórnandi frumrannsóknar Geirfinnsmáls hefur einn íslenskra lögreglumanna hlotið fangelsisdóm fyrir ólöglega handtöku og tilbúin sönnunargögn sem hann kom fyrir á vettvangi "glæpsins". Var það í máli leigubílstjóra sem sakaður var um vínsölu á suðurnesjum, eins og mörgum er í fersku minni. Menn hljóta að spyrja hvort eitthvað sé líkt með þeirri "rannsóknartækni" sem var beitt í máli leigubílstjórans og þeirri sem notuð var við teiknimyndargerðina af framkvæmdastjóranum hárprúða. Og hafi Erla fengið stuðning rannsóknarmanna til að bera sakir á þá teiknimyndarpersónu sem grunur beindist þegar að, má vera að skyldleiki sé greinanlegur með aðferðafræðinni?
Við upphaf framhaldsrannsóknar Geirfinns- og Guðmundarmáls voru aðalstarfskraftar tveir rannsóknarlögreglumenn og einn rannsóknardómari. Löngu áður en dæmt var í undirrétti höfðu komið fram verulegar athugasemdir við störf þeirra frá einum af dómurum málsins. Var dómurunum þó allt til ársins 1997 ókunnugt um að fölsuð opinber gögn höfðu verið fyrir þá lögð. Um er að ræða falsað "staðfest" endurrit úr dagbók Síðumúlafangelsis. Skv. hinu falsaða endurriti var ekkert bókað um að Sævar hafi fengið ómannúðlega meðferð. Ófölsuð staðfestir dagbókin hinsvegar að verulegu harðræði var beitt. Um þetta segir m.a. í úrlausn Hæstaréttar :
Þegar framangreind atriði eru virt í heild er ljóst að dómfelldi sætti ólögmætri meðferð í gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsi, einkum í apríl og maí 1976, í nokkuð meiri mæli en kunnugt var um við úrlausn málsins
Þó marga hafi rekið í rogastans við að lesa harðræðislýsingar þær sem sleppt var í endurriti úr dagbókinni, er hitt e.t.v. mikilvægara, að þetta atriði sannar að svo langt var gengið af opinberum embættismanni að falsa opinber gögn til að leyna því harðræði.
Á upphafsárum þessa máls kom fram á Íslandi nýyrðið "rannsóknarblaðamaður". Nokkrir slíkir voru mættir á blaðamannafund sem haldinn var 2. febrúar 1977. Þar kynnti þýski rannsóknarmaðurinn Karl Shütz niðurstöður rannsóknarinnar, þ.á.m. að maðurinn sem nefndur var "Leirfinnur", væri Kristján Viðar Viðarsson og að Sævar hefði einnig farið inn í Hafnarbúðina. Af því tilefni spurði rannsóknarblaðamaður nokkur hvers vegna ekkert vitni hefði þekkt þá við sakbendingar. Svar hins "pólitíska lögreglumanns", eins og Shütz kýs sjálfur að skilgreina sig í æviminningum sínum, verður lengi í minnum haft: "Þetta sýnir hve fólk gleymir miklu á stuttum tíma" var svarið. Einskis var frekar spurt af rannsóknarblaðamanninum við þetta tækifæri. En hvað skyldi hafa orðið um þennan hógværa fulltrúa íslenskrar blaðamannastéttar ?
Tryggvi Hübner.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning