"Sá sem flýr undan dýri"
Þriðjudagur, 18. október 2016
Jón Daníelsson: "Sá sem flýr undan dýri"
Þessi bók er fróðleg lesning, aðgengileg, upplýsandi og hún er létt og lipurlega skrifuð.
Jón Daníelsson er reynslumikill blaðamaður og hefur á undanförnum árum kafað töluvert í umrætt Hæstaréttarmál no. 214/1978. Um það leyti sem Sævar leitaði eftir endurupptöku á málinu á árunum 1995 1997 skrifaði Jón athyglisverðar greinar í Helgarpóstinn og kannast margir við þær greinar af vefsíðunni mal214.com .
Í fyrri hluta bókarinnar er atburðarásin rakin að mestu eins og hún birtist í fjölmiðlum á sínum tíma. En í seinni hlutanum fjallar Jón um þá atburði sem áttu sér stað innan dyra Síðumúlafangelsis, samkvæmt málsskjölum og með hliðsjón af fangelsisdagbók og fleiri gögnum. Einnig er með þó nokkuð gagnrýnum hætti fjallað um störf dómara, og þau skoðuð með hliðsjón af þeim gögnum sem lágu fyrir við uppkvaðningu dómanna. Jón hefur sérstakan nokkuð hressilegan stíl og er yfirlýsingaglaður víða í síðari hlutanum. Ekki verður þó vart við annað en að hann færi rök fyrir sínu máli og sumt er sérlega athyglisvert. Frá bæjardyrum okkar í ritnefnd vefsíðunnar mal214.com má svosem segja að fátt nýtt komi fram í bók Jóns Daníelssonar, enda eru í okkar tengslaneti fólk sem hefur varið árum og áratugum í að velta sér upp úr hinum ýmsu smáatriðum í skjölum málsins. En sumt gerir Jón betur en áður hefur verið gert og má þar nefna einkum tvennt:
1. Hvernig hann tekur fyrir tímalínuna að kveldi 19. nóv. 1974 og færir sterk rök fyrir því að dómfelldu hafi ekki haft tíma til að komast til Keflavíkur. Töluverð umfjöllun er í bókinni um þetta atriði og er sá kafli ansi vel samsettur og sterkur.
2. Annað er líklegast það atriði bókarinnar sem mest hefur verið fjallað um en það er að Jón skyldi hafa þá hugkvæmni að fara með bréf sem Sævar skrifaði dómurum í Sakadómi 1977, til skjalavarðar í Ríkissjónvarpinu og finna heimild um sjónvarpsþátt þann sem Sævar lýsti í bréfinu. Finna síðan þáttinn á Youtube og sýna með þessu fram á að Sævar virðist hafa haft fullgilda fjarvistarsönnun. Þetta innlegg er ansi öflugt hjá rannsóknarblaðamanninum, og alveg ljóst að því verður seint svarað hvernig Sævar gat hafa séð þáttinn, hafi atburðir gerst með þeim hætti sem haldið er fram í dómi Hæstaréttar. Mestu máli skiptir þó að hvergi í málsskjölum er sjáanlegt að neitt hafi verið gert til að athuga hvort lýsing Sævars hafi verið rétt. Dómarar staðfestu að þeir fengu bréf hans og höfðu aðeins eina athugasemd við það. Fjallaði hún um að í frásögn Sævars hafi hann skrifað að sýningu á Kjarvalsstöðum hafi lokið kl. 22.00 en þeir telja að henni hafi lokið allt að klukkutíma fyrr. En auðvitað bendir þetta til þess að það skipti í raun engu máli hvaða upplýsingar kæmu fram, sakborningar skyldu dæmdir sekir hvað sem tautar og raular.
Í tímans rás hafa Íslendingar hafa sennilega upp til hópa verið fremur íhaldssamt fólk. Halda með landsliðinu, kjósa sömu stjórnmálaflokkana og eru seinþreyttir til vandræða svona almennt. Hluti af þessari pragmatísku íhaldssemi birtist í því mikla trausti sem dómskerfið nýtur og einnig lögreglan. Þó af og til heyrist ramakvein frá fólki sem telur sig hafa verið beitt misrétti, nýtur lögregla og dómskerfi meira trausts en flestar aðrar stofnanir samfélagsins. Dæmigert viðhorf hins skynsama íslendings er þó á þá leið að þó kerfið sé brogað, þá sé önnur sjálfstæð ástæða til að treysta því; það er það skásta sem við höfum. Og þegar dómstólaleiðin hefur verið á enda gengin, fari best á því að þar sé jafnframt endir allrar þrætu.
Þegar dómur var kveðinn upp í Hæstarétti 22. febrúar 1980 í máli 214/1978 reyndi töluvert á þetta traust sem dómskerfið hafði notið fram að því. Gífurlegur samhugur myndaðist meðal þjóðarinnar um að þessir bíræfnu þrjótar sem þá sátu á sakamannabekk vegna meintrar aðildar að tveimur mannshvörfum skyldu fá makleg málagjöld. Á fimmta ár var liðið frá því að fyrstu sakborningar voru handteknir og yfirheyrslur hófust, á sjöunda ár frá fyrra mannshvarfinu. Fólk var orðið ansi þreytt... og enn þrættu sakborningarnir. Þó almenningur skildi ekki alveg hversvegna menn voru dæmdir sekir, var ekki um annað að ræða en treysta kerfinu.
Einhverntíma var þetta orðað þannig:
Hafi einhver dottað undir 18 klukkustunda langri sóknarræðu Þórðar Björnssonar, gat sá hinn sami varla efast um að öllum spurningum hafi þar verið svarað
Fyrstu árin eftir að dómar féllu ríkti að mestu consensus um að ekki væri æskilegt að þessu mál yrðu rædd, amk hvorki hátt né mikið. Einstaka kverúlant lét í sér heyra, fyrsta innleggið á opinberum vettvangi var líklegast bók Stefáns Unnsteinssonar Stattu þig drengur Í framhaldi af útgáfu bókarinnar átti Lísa Pálsdóttir stutt en merkilegt símaviðtal við Sævar í RÚV og þótti mörgum það mikið hneyksli að slíkur maður fengi að tjá sig. Í stuttu máli sagt ríkti nánast fullkominn þögn um málið, þar til Sævar hafði afplánað sinn dóm og hóf baráttu sína fyrir endurupptöku árið 1994.
Þetta mál er stærsta og umtalaðast sakamál 20 aldarinnar á Íslandi. Margir muna eftir máli O.J. Simpsons, snemma á 10. áratugnum. Meðan það mál gekk yfir voru ótal sjónvarps og útvarpsstöðvar með stöðugar fréttir og umræður um það mál, nánast stanslaust allan sólarhringinn í næstum 3 ár. Hvað sem fólki þykir um slíka feikna umfjöllun um sakamál í vinnslu, þá er ljóst að þarna mætti ríkja einhver millivegur.
Það hefur aldrei myndast hefð fyrir umræðu um dómsmál hér á landi.
Nú er öldin að mörgu leiti önnur, nýjar kynslóðir eru mættar til leiks, fólk sem vill vita eitthvað um þessi miklu sakamál spyr gjarnan þeirrar einföldu spurningar hver sé ástæða þess að menn voru dæmdir sekir. Staðreyndin er nöturleg, það eru engin svör við því, enginn skilur afhverju og enginn spurði neins. Bara þögn og þöggun. Viðhorfið var á þá leið að málið er alltof flókið til að venjulegt fólk skilji það, treystum dómskerfinu, ýfum ekki upp gömul sár, þetta eru fagmenn undir stjórn þrautreynds erlends snillings og síðast en ekki síst:
Það er Hæstiréttur sem á lokaorðið og þar með lýkur öllum þrætum.
Þeim hefur fækkað en þeir eru enn til, sem eru andvígir endurupptöku málsins. Helsta vopn þeirra hefur frá upphafi verið þöggunin. En með auknu upplýsingastreymi, opnari fjölmiðlun, interneti og nýjum kynslóðum kemur smátt og smátt fram gagnrýnin og opinská umfjöllun sem varpar ljósi á þetta myrka tímabil í sögu réttarfars á Íslandi.
Bókin Sá sem flýr undan dýri er upplýsandi innlegg í þessa umræðu.
TH
Athugasemdir
Kærar þakkir.
Sæmundur Jóhannsson (IP-tala skráð) 18.10.2016 kl. 17:24
Fínasti dómur um afar góða bók. Snjallt hvernig Jón fer í raun tvisvar í gegnum málið: fyrst frá sjónarhorni gagnrýnisleysisins — hinnar opinberu útgáfu málsins — en síðan undir smásjánni.
Af mörgu góðu má meðal annars fagna þeirri áherslu Jóns að gefa kerfinu mennska ásýnd: undirstrika og ítreka þá staðreynd að ábyrgðina á fantaskapnum bera menn með nöfn og andlit — ekki bara andlitslaust og hálfósýnilegt kerfi. Allt of oft hefur það heyrst að „svona hafi nú kerfið verið þá“ — vissulega „gallað“ en samt bara „barn síns tíma“ ... — að svona lagað gæti ekki gerst í dag — og svo framvegis. Bók Jóns minnir rækilega á — og rökstyður — að ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá manneskjum af holdi og blóði, manneskjum með nöfn og andlit, enda kerfið hundrað prósent sköpun mannsins en ekki byggt á náttúrulögmálum.
Margar góðar bækur hafa verið skrifaðar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. En misminni mig ekki er þetta fyrsta bókin þar sem málið er kerfisbundið tekið fyrir með þessum hætti — það er að segja: með þeim ofangreinda tvískipta strúktúr sem Jón byggir bókina á. Bók Þorsteins Antonssonar, Áminntur um sannsögli, er til að mynda stórgóð — skoðun hans á málsskölunum alveg brilljant — en mörgum hefur hún reynst torveld lestrar og ruglingsleg. Mér þykir það reyndar ekki, en skil hvaðan sú tilfinning kemur.
Bók Jóns er aftur á móti einstaklega auðlesin en um leið afar skörp — og gefur skýra krónólógíska sýn á málið. Hún væri til að mynda tilvalið lesefni í skólum — en það er stórfurðulegt að málið sé ekki fyrirferðarmeira í Íslandssögukennslu en raun ber vitni. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er auðvitað ekki bara lykilmál í nútímaréttarsögu landsins, heldur einnig — og kannski fyrst og fremst — meiriháttar þjóðfélagsstúdía.
Bestu þakkir að vanda, Tryggvi og Sigþór, fyrir allt ykkar óeigingjarna og ómetanlega starf.
Snorri Páll (IP-tala skráð) 25.10.2016 kl. 10:11
Takk fyrir innleggið Snorri
Ég get tekið undir allt sem þú segir, einnig varðandi bók Þorsteins Antonssonar. Bók Jóns Dan er ekki síður fróðleg en mun þægilegri aflestrar og aðgengilegri. Mér finnst merkilegt að spekulera í hvernig viðhorf almennings hefur þróast í tímans rás, í því liggur ákveðin þjóðfélagsstúdía eins og þú nefnir. Nú eru flestir á því að nauðsynlegt sé að endurupptaka málið. Ég hef sagt þetta allar götur síðan málsskjölin rak á mínar fjörur sumarið 1980. Fékk dellu fyrir málinu og aflaði mér verulegra óvinsælda með þessum pælingum, var hent út úr mörgum partíum á þessum árum...
Við Sigurþór (og fleiri) stofnuðum vefsíðuna 1995
Sigurþór Stefánsson er líklega sá maður sem mest allra hefur stúderað þessi málsskjöl. Honum bregður fyrir í þessari stiklu:
http://www.vice.com/en_uk/video/picture-perfect-jack-latham-322
sem annars fjallar um verk breska ljósmyndarans Jack Latham. Þó inn á milli séu efnisatriði málsins ekki 100% á hreinu hjá honum, er bókin er engu að síður sannkallað listaverk að mínu áliti.
Tryggvi Hübner, 26.10.2016 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning