Dómþolar voru ekki höfundar sögunnar um dráttarbrautina
Mánudagur, 20. júlí 2015
Í okt. 1975, á þeim tíma sem rannsóknin á hvarfi Geirfinns Einarssonar lá að mestu niðri, barst rannsóknaraðilum til eyrna að maður nokkur hefði sagt frá því að hann hefði verið staddur í dráttarbraut Keflavíkur að kveldi 19. nóv 1974 ásamt Geirfinni og fleiri mönnum. Maður þessi verður ekki nafngreindur hér öðruvísi en G.A. Hann var tekinn til yfirheyrslu eftir að börn mannsins bentu lögreglunni á að hann hefði sagt þeim af þessari reynslu sinni. Í fyrstu skýrslu mannsins 23. okt 1975 kemur fram að G.A, sem hafði átt við áfengisvanda að stríða, hafði verið undir áhrifum áfengis er hann sagði tveimur börnum sínum sem bæði voru fullorðið fólk, frá atburðarás kvöldsins 19. nóv 1974. Um hafi verið að ræða ölvunarraus og enginn fótur fyrir frásögninni. Frásögnin var í stórum dráttum á þá leið að G.A. fór á sendibifreið frá Reykjavík til Keflavíkur, hitti þar Magnús Leopoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og fleiri menn (ekki nafngreindir). Þeir ætluðu að hitta Geirfinn í Hafnarbúðinni en komu of seint og misstu af Geirfinni. Að sögn G.A. fór Magnús inn í Hafnarbúðina og hringdi í Geirfinn. Geirfinnur kom aftur og síðan var ekið á tveimur bifreiðum niður í dráttarbraut Keflavíkur. Þaðan fóru G.A. og Geirfinnur á bát út fyrir höfnina og Geirfinnur kafaði eftir áfengi sem þar hafði verið hent útbyrðis úr flutningaskipi. Þeir fóru tvær ferðir, sóttu smyglið en í þriðju ferðinni kom eitthvað fyrir og Geirfinnur kom ekki upp eftir köfunina. G.A. beið drykklanga stund en sneri síðan til lands einn. Smyglinu var hlaðið í sendiferðabifreiðina og aðra bifreið sem þar var einnig til taks. Smyglinu var síðan ekið til Reykjavíkur. G.A. tók fram að hann hefði tekið þátt í slíkum leiðangri áður og fengið greiddar kr. 70.000- fyrir.
Ekki verður því haldið fram hér að þessi saga G.A. eigi við rök að styðjast. En með tilliti til þess að þessi frásögn kemur fram 23.okt 1975 -þremur mánuðum áður en fyrsta skýrsla dómþola í Geirfinnsmáli kemur fram, verður að teljast einkennilegt samræmi sem þarna myndast. Hvergi fyrr í frumrannsókn málsins höfðu komið fram vísbendingar um að dráttarbrautin í Keflavík væri vettvangur meints glæps. Og auk staðsetningarinnar eru fjölmörg atriði stór og smá í frásögn G.A. sem koma heim og saman við hinar ýmsu skýrslur sem dómþolar skrifuðu undir á vormánuðum 1976 og héldust sum hver alla leið í gegn um dóm Hæstaréttar 1980. Helstu sameiginleg atriði með frásögn G.A. og dómi Hæstaréttar eru eftirfarandi:
1. Ferð úr Reykjavík til Keflavíkur
2. Tvær bifreiðar eru notaðar í báðum sögunum, sendiferðabifreið og fólksbifreið.
3. Spírasmygl spíraviðskipti með þátttöku Geirfinns.
4. Klúbbmenn eru nefndir. (Fyrst nefndir af G.A. en ekki af dómþolum.)
5. Dráttarbraut Keflavíkur er sögð vettvangur atburðanna.
6. Jafn stór hópur manna er í dráttarbrautinni í báðum sögunum. Auk Geirfinns og klúbbmannanna Magnúsar og Sigurbjörns segir G.A. tvo aðra hafa verið með sér.
7. Upphæðin sem G.A. segist hafa fengið greidda: kr. 70.000.00- er sú sama og Sævar á að hafa boðið Geirfinni fyrir áfengi.
Sé saga G.A. hinsvegar borin saman við fyrstu framburði Sævars og Erlu aukast líkindin enn því þá er bátsferðin einnig inni í myndinni, og atburðarásin er að mestu leyti á sama veg. Að þessu athuguðu hljóta ýmsar spurningar að vakna. Til dæmis: Hvernig gátu frumrannsakendur málsins fundið umgjörð og vettvang glæpsins án þess að hafa aðgang að vitnum eða vísbendingum öðrum en ölóðum manni sem hvergi kom
nærri ? Möguleikarnir eru 3:
Tilviljun, sem er hin opinbera skýring þar til annað kemur í ljós.
Sakborningar hafi áður en þau voru handtekin komist yfir frumrannsóknargögn, kynnt sér þau og síðan vísvitandi hagað frásögn sinni til samræmis við frásögn G.A.
Rannsóknaraðilar hafi lagt sakborningum til vettvanginn. -Skýring dómfelldu.
Ennfremur mætti spyrja hver líkindin séu fyrir því að maður sem í ölæði nefnir fyrir tilviljun "réttan" vettvang glæpsins fyrstur manna, skuli einnig fyrir tilviljun nefna sömu upphæð og varð í niðurstöðu Hæstaréttar tilefni átakanna, auk annara atriða stórra og smárra. Hvernig svo sem þetta er túlkað er ljóst að sagan um Keflavíkurferðina og þátttöku "Klúbbmanna" í henni, var til áður en dómþolar, þau Erla, Sævar og Kristján höfðu sagt orð um Geirfinnsmál. Sé fótur fyrir sögunni verður það að teljast ein af hinum fjölmörgu furðulegu tilviljunum í þessu risavaxna sakamáli að G.A. skyldi geta sagt söguna "fyrirfram" með slíkri nákvæmni.
Þann 17.feb. 1976 tekur rannsóknarlögreglumaðurinn Eggert N. Bjarnason stutta skýrslu af G.A. Þar staðfestir G.A. að hann hafi sagt þessa sögu við yfirheyrslu í okt. 1975, 3 mánuðum áður en dómþolar segja söguna. Ætla mætti að rannsóknarlögreglumanninum hafi verið allnokkuð brugðið er hann gerir sér grein fyrir því að saga sú sem toguð hafði verið upp úr dómþolum í löngum og ströngum yfirheyrslum, var til, nánast í öllum smáatriðum í þá u.þ.b. 4 mánaða gamalli skýrslu frá manni sem einungis hafði rausað þetta í ölæði. Ekki varð þó þessi uppgötvun tilefni til neinna sérstakra aðgerða að hálfu rannsóknaraðila.
Dómþolar hafa allir, við ýmis tækifæri haldið því fram að þeim hafi verið lögð til sagan áður en þau gáfu fyrstu skýrslur í málinu. Hverjum og einum skal látið eftir að meta hvort af framansögðu megi finna stuðning við þann framburð dómþola.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning