1. júní 2015
Mánudagur, 1. júní 2015
Í dag, fyrsta júní 2015 er liðinn sá frestur sem settur saksóknari, prófessor Davíð Þór Björgvinsson fékk, til að skila niðurstöðu vegna kröfu Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar um endurupptöku á HR máli 214/1978. Heimildir herma að í dag megi vænta niðurstöðu hvað varðar mál Erlu og Guðjóns en Davíð Þór hefur unnið að málinu frá 3. október 2014.
Þvíer ekki úr vegi að velta fyrir sér framhaldinu.
Í grein Mbl 3. okt 2014 er fjallað um ummæli Davíðs í umræðuþættinum Undir sönnunarbyrðinni á RUV 1997.:
"Það sem einkennir þetta sakamál er það að niðurstaðan er nánast eingöngu byggð á játningum sakborninga. Það er reynt með ýmsum hætti að styðja þessar játningar sýnilegum sönnunargögnum, og það gengur mjög illa. Þetta er allt mjög rækilega rakið í héraðsdóminum og tekið svo til orða að þessi sýnilegu sönnunargögn, önnur en játningar sakborninga, tengi ekki sakborninga með óyggjandi hætti við þessa atburði." "Kjarninn er þessi: Þetta mál hangir allt á þessum játningum, og því skiptir það höfuðmáli þegar verið er að meta það hvort skilyrði séu til fyrir endurupptöku, að það komi fram nýjar upplýsingar til viðbótar þeim sem lágu fyrir þegar dómarnir voru kveðnir upp sem sýni það og sanni að það hafi verið stórfelldar brotalamir við rannsókn málsins. Þegar ég sagði að Hæstarétti yrði vandi á höndum, þá átti ég einfaldlega við það, að það kann að koma upp sú staða að það verði mjög erfitt fyrir þá að endurupptaka málið ekki"
Davíð sagði einnig að útlit væri fyrir að auk þess sem sakborningarnir hefðu verið beittir harðræði hefðu ýmsar réttarfarsreglur og reglur um rannsókn brotamála verið brotnar.
Þarna kemur fram að DÞB telur erfitt að neita um endurupptöku ef nýjar upplýsingar koma fram. Skýrsla IRR nefndarinnar kom fram 21.mars 2013.
Þar er fjallað um málið af mikilli nákvæmni og í fyrsta sinn af réttarsálfræðilegri nútímaþekkingu. Aldrei áður í 40 ára ferli þessa máls hefur slík skoðun farið fram Einnig inniheldur skýrslan mikilvæg ný gögn hvað varðar framferði rannsóknarmanna í Síðumúla á bilinu des. 1975 til feb. 1977 Skýrslan byggir á öllum eldri gögnum og greinargerðum sem fram hafa komið. Niðurstaða skýrslunnar er mjög afgerandi og ótvíræð:
Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að þeir framburðir sem sakfelling byggir á eru ýmist óáreiðanlegir eða falskir. Nefndin leggur til 3 hugsanlegar leiðir til endurupptöku málsins:
1. Að saksóknari hlutist að eigin frumkvæði til um endurupptöku.
2. Að sakborningar fari fram á endurupptöku. (Sú leið sem nú er í ferli)
3. Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Þær raddir hafa heyrst að ekki komi til álita að heimila endurupptöku á þætti Erlu Bolladóttur í málinu, þar sem sakarefnið að baki þriggja ára fangelsisdómi yfir henni hafi einungis verið vegna hinna röngu sakargifta. Það verður þó að telja ólíklegt að sú verði niðurstaðan. Skv. dómi Hæstaréttar frá 1980 eru 4 sakfelldir fyrir samantekin ráð um rangar sakargiftir. Verði dómurinn ómerktur hvað varðar aðild hinna dæmdu að mannshvarfi í Keflavík, er ekki lengur um að ræða neitt tilefni (motiv) til samantekinna ráða um slíkt samsæri. Það væri undarlegt ef niðurstaðan ætti að verða sú að fólk sem ekki á aðild að mannshvarfinu hafi tekið saman ráð um að varpa sök á þá sem lögreglan handtók saklausa í janúar 1976 og hafði í haldi í 105 daga, allt þar til Erla játaði að hafa myrt hinn horfna með riffli.
En þá var hinum fjórum saklausu mönnum loks sleppt.
Verði niðurstaða setts saksóknara sú að mæla ekki með endurupptöku allra þátta dómsins, er ljóst að þá munu umræður og deilur halda áfram, líkt og verið hefur allar götur síðan 1980. Sú gjá sem að margra mati hefur verið hefur milli dómskerfis og þjóðar mun verða óbrúuð. Þeir dómfelldu sem nú krefjast endurupptöku og sýknu munu ekki leggja árar í bát. Skýrsla IRR nefndarinnar talar sínu máli og fram hjá henni verður ekki litið. Réttarúrræði eru til staðar, auk þess möguleika sem IRR nefndin leggur nr. 3: Að Alþingi beiti sér með beinum hætti fyrir endurupptöku málsins.
Mörgum kann að þykja sá möguleiki nokkuð langsóttur, að hann skuli nefndur í upptalningunni sýnir hins vegar hvílíka áherslu nefndin leggur á mikilvægi endurupptökunnar.
Einnig má nefna að vér vesælir Bloggarar sem ritstýrum síðu þessari, höfum starfað sem maurar um árabil að því að vinna gagnagrunn sem inniheldur allar skráðar lögregluskýrslur í HR málinu nr 214/1978. Sá grunnur verður í textaskjölum sem tengd verða stafrænni leitarvél. Áætlað er að þessari vinnu ljúki í júlí 2015. Augljóst er að gagnagrunnur þessi mun verða öflugt tæki og gjörbreyta aðstöðu og möguleikum þeirra sem vilja kynna sér málið og fjalla um það í framtíðinni.
TH.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning