Umbi Roy og Formaðurinn
Miðvikudagur, 26. október 2011
Brynjar Níelsson
Persónulega þykir mér alltaf gaman að hlusta á Brynjar Níelsson. Brynjar talar gjarnan fyrir sjónarmiðum sem eiga sér fáa formælendur. Mikilvægi slíkra manna er gífurlegt fyrir alla þjóðfélagsumræðu. Þegar hann tjáir sig um HRmál 214/1978 vantar þó töluvert á að hann þekki nægilega vel til. Þannig segir hann í Silfri Egils í október 2011 að ómögulegt sé að trúa Erlu, þegar hún lýsir kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir í gæsluvarðhaldinu. Ástæðan sé sú hve langt er um liðið. Það verður að viðurkennast að það viðhorf sem þarna kemur fram er orðið nokkuð fornt. Í dag vita allir að ótal dæmi eru um að kynferðisofbeldi hafi sannast þó svo að áratugir hafi liðið þar til þolandi leysir frá skjóðunni. Og ef út í það er farið væri ekki úr vegi að Brynjar myndi útskýra hversvegna boð bárust til fangavarða í ágúst 1976:Erla á að taka strax 2 pillur og fara síðan strax á P pilluna. (Getnaðarvarnarpillur)
Það vekur óneitanlega nokkra furðu að ung stúlka í þeirri stöðu sem Erla var á þessum tíma skuli vera látin taka slík lyf. Þetta kemur fram í fangelsisdagbók Síðumúlafangelsis , þar sem þetta er skjalfest.
Einnig er minnst á þetta í málsskjölum. Eugynon. (P pilla.)
Sjá: www.mál214.com pdf skjöl, bók XXVI bls. 56.
Ennfremur sjá: Eugynon.
___________________________
Verður að teljast líklegt í þessu samhengi, að þessar, einhverjar 2 pillur sem nefndar eru í fangelsisdagbókinni séu svokallaðar Daginn eftir pillan sem voru þó venjulega tvær, önnur eyddi og sú seinni gjöreyddi. Þær komu fram um 1970 og þekktust líka sem Plan B og EC pill.
Brynjar myndi sennilega fara létt með að útskýra hvernig stendur á því að Erla er látin taka slík lyf.
Getnaðarvarnalyf hafa mjög sérhæfðan tilgang.
En eins og Erla benti á í viðtali í október 2011 , var ekki mikið félagslíf í Síðumúla um þetta leyti....
_______________________________________________
Ómar Valdimarsson
Nýlega hefur Ómar Valdimarsson tjáð sig um þetta mál. Fyrst í Bloggi sínu, sem hann skrifar undir listamannsnafninu Umbi Roy, og síðar í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu. Ómar starfaði sem rannsóknarblaðamaður á Dagblaðinu meðan rannsókn stóð sem hæst. Ómar skrifar grein á Bloggsíðu sína 7. okt. 2011. : Glæpurinn í Geirfinnsmálinu Þar og víðar lýsir hann þeirri skoðun sinni að hann hafi lesið Hæstaréttardóminn og hann sé réttur og sé holl lesning en engin skemmtilesning. Nú er það svo að þó fylgi hafi aukist við endurupptöku málsins (Og hún sé fyrirsjáanleg í langri eða skemmri framtíð) að Ómar er auðvitað ekki einn um þessa skoðun. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig hægt er að kynna sér þetta mál og komast að slíkri niðurstöðu. Hvaða kröfur gera þeir sem samþykkja þetta, til slíks dóms ? Í hverju liggur eiginlega sönnunin að þeirra mati ? Það má svo sem benda á að í dómnum komi hvergi fram sönnun á sakleysi eins eða neins. Þannig að ef lesandi dómsins kemur að lestrinum sannfærður um sekt, er ekki víst að hann finni neitt sem breytir þeirri skoðun hans. Spurningin stendur eftir hvort ríki sem ekki gerir meiri kröfur í slíku máli, geti kallast réttarríki.
*
Mér er efst í huga réttaröryggi borgara þessa lands
*
var haft eftir einum þeirra sem sátu saklausir í 105 daga í Síðumúla, eftir að honum var sleppt. Vissulega raunhæft umhugsunarefni enn í dag.
Dómurinn er 675 bls. Og er að því leyti mjög ítarlegur, að þar eru langar og hárnákvæmar lýsingar á viðurstyggilegum ofbeldisathöfnum sem eru til þess fallnar að vekja óhug hjá lesandanum. Engin efnisleg sönnunargögn eru til staðar en að mati HR liggur sönnunin í því meinta samræmi sem þar kemur fram. Ekkert tillit er hinsvegar tekið til þess hvernig þetta samræmi myndast. Engar skýringar eru heldur á því hvers vegna nákvæmt samræmi allra myndast smám saman um atriði sem síðar kemur í ljós að geta ekki staðist. Dæmi um slíkt er samhljóða lýsingar allra á tegund bifreiðar í Guðmundarmáli, þar sem síðar kom í ljós að bílstjórinn hafði ekki aðgang að þeirri bifreið fyrr en um ári eftir meintan atburð. Eða hvernig samræmi myndast um að hringt hafi verið í bílstjórann og hann beðinn að koma að Hamarsbraut. Löngu síðar kom í ljós vegna gagna sem komu frá Pósti og Síma, að síminn að Hamarsbraut var lokaður umrætt kvöld. Þar með varð öll sagan og allur aðdragandi meints glæps að gjörbreytast, þrátt fyrir að samræmið í fyrri sögunni hafi verið hárnákvæmt hjá öllum. Í Silfri Egils sagði Ómar að í dómnum væri allt sem skiptir máli. Hann hefur þó einn stóran galla að mati undirritaðs: Hann sannar ekki neitt.
*
Þannig orðar Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum formaður Lögmannafélagsins þetta mjög vel í grein sem birtist í Úlfljóti, tímariti lögfræðinema 1997 og heldur lögmaðurinn þar föstu taki í hárnákvæma júríska varfærni, eins og honum er tamt: Í raun og veru hefur aldrei verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnin við hvarf þessara tveggja manna. Fjöldi fólks hefur horfið á undanförnum áratugum á Íslandi án þess að skýringar hafi fundist. Mér finnst eins standa á um þessa tvo menn.Þarna skrifar lögmaður sem nýtur mikillar virðingar eins og kunnugt er. Hann var eitt sinn formaður lögmannafélagsins. Annar fyrrverandi formaður er Ragnar Aðalsteinsson Hrl. En hann hefur einnig tjáð sig nokkuð um þetta mál.
Ýmsir aðrir hafa einnig tjáð sig á svipuðum nótum.
Á undanförnum vikum og mánuðum hefur enn blossað upp umræða um þessi gömlu sakamál. Eins og stundum áður hefur hún verið í nokkrum upphrópunar stíl, oft á grunnum nótum og gjarnan hafa þeir hæst sem minnst þekkja til. Þegar hugsað er til baka , verður fljótt ljóst að múgsefjun og æsingur hefur aldrei verið mikill vinur sannleikans, eða leitar að honum í þessu máli. Hefur það líklega aldrei komið skýrar í ljós en í því andrúmslofti sem ríkti í þessu þjóðfélagi meðan rannsókn þessa máls stóð sem hæst á seinni hluta áttunda áratugarins. Dag eftir dag birtu blöðin, sérstaklega síðdegisblöðin, fréttir af gangi rannsóknarinnar. Yfirleitt voru þó þessar fréttir nánast ómatreiddar yfirlýsingar frá rannsóknaraðilum og virtust hafa þann tilgang einan að sýna hversu ófyrirleitnir og slungnir þeir væru þessir bíræfnu þrjótar sem lögreglan hafði loks náð að fangelsa í Síðumúlafangelsinu. Dagblaðið hóf göngu sína í harðri samkeppni við Vísi, og kepptust þessir fjölmiðlar við að fylla landsmenn óhug yfir því hvernig þessi glæpaflokkur virtist hafa flækst um landið og stráfellt mann og annan... Eitt og annað í fréttaflutningi á þessum árum, sérílagi í upphafi rannsóknarinnar í Reykjavík, reri að því að þessir krakkar væru einhverskonar svar Íslands við Baader Meinhof hryðjuverkaklíkunni þýsku. Almenningur var sannarlega sleginn óhug. Og almenningur heimtaði makleg málagjöld. Og almenningur fékk þau.
En á árinu 1976 var ansi lítið um gagnrýna umfjöllun um þetta mál. Þó var fundið upp nýyrði: Rannsóknarblaðamaður Það virtist þó fremur í merkingunni: Kranablaðamaður sem miðlar lögregluupplýsingum um rannsókn, heldur en að hann ætti að gagnrýna neitt sjálfur, hvað þá heldur rannsaka. Enda var það þá, sem nú, að krassandi fyrirsagnir og óhugnaður seldist oft betur en vönduð, hvað þá gagnrýnin umfjöllun. Tökum lítið dæmi:
Ekki man ég til þess að neinir blaðamenn, jafnvel ekki Umbi Roy, (Ómar Valdimarsson) hafi haft fyrir því á árinu 1976 að spyrja spurningar sem margir spyrja nú: Hvert var eiginlega tilefni þess að Erla Bolladóttir var fyrst spurð um hvarf Guðmundar Einarssonar ? Í fyrstu lögregluskýrslu sem tekin var af EB segir einungis:
Tilefni þess að Erla er mætt hér sem vitni er að lögreglunni hefur borist til eyrna...
Í öllum þeim dálkmetrum sem skrifaðir voru í blöðin um þetta mál var enginn rannsóknarblaðamaður svo djarfur að spyrja hver þessi heimild væri, og þá hversu áreiðanleg.
Ekki var það heldur beysið aðhaldið sem Umbi Roy og kollegar í Rannsóknarblaðamannastétt veittu rannsóknarmönnum í Síðumúla þegar mánuðir og ár liðu án þess að menn virtust neinu nær niðurstöðu í málinu. Sakborningar í hámarkseinangrun árum saman komu sífellt með nýjar sögur. Þróun málsins hafði enga stefnu. Allan tímann sátu rannsóknarblaðamenn sem þægir kórdrengir og biðu þess að fá upplýsingar frá rannsóknarmönnum. Og krydduðu síðan með æsifyrirsögnum en ávallt án allrar gagnrýni.
Varla er hægt að ræða um frammistöðu UmbaRoy og kollega hans án þess að minnast á það sem líklegast er einhverskonar
And-heimsmet í rannsóknarblaðamennsku:
2. febrúar 1977 hélt rannsóknarnefndin blaðamannafund, þar sem þessi mál voru útskýrð í eitt skipti fyrir öll, undir forystu þýska Stjórnmálalögreglumannsins Karls Schütz. (Schütz notar þetta starfsheiti um sjálfan sig í ævisögu sinni).
Að sögn heimildarmanns úr blaðamannastétt var fundur þessi einn sá leiðinlegasti í blaðamanna minnum, og ógnarlangur. Schütz talaði, hægt og siðan sneri túlkur máli hans á íslensku. Nánast önnurhver setning sem út úr Þjóðverjanum kom, endaði á: Þetta er algjörlega öruggt. Leirstyttan stóð á borði, menn reyktu vindla og drukku kaffi. Eitt af þeim atriðum sem Schütz minntist lauslega á var leðurklæddi maðurinn sem sagður var hafa komið inn í Hafnarbúðina og hringt í Geirfinn að kveldi hins 19. Nóv. 1974. Í máli hans kom fram að Sævar Marinó og Kristján Viðar hefðu báðir farið inn í Hafnarbúðina og annar þeirra væri því Leirfinnur. En væntanlega geta allir verið sammála um það að það var hin grunsamlega aðkoma þess manns inn í málið sem varð til þess að hvarf Geirfinns var rannsakað sem sakamál.
Þannig að augljóslega er þarna kjarni málsins.
Geirfinnsmálið snýst ekki aðeins um mannshvarf, heldur meint saknæmt mannshvarf. Ástæða þess að það virðist saknæmt er aðkoma þessa manns: Leirfinns. Það hlýtur að vera öllum ljóst að lausn málsins eða alltént fyrsta skrefið í að leita að lausn er fólgið í að finna þennan mann. En lítum aðeins betur á fullyrðingu Schütz. Ef Leirfinnur er annaðhvort Sævar eða Kristján Viðar er nokkuð ljóst að hann á við Kristján Viðar. Lýsingin á manninum er með þeim hætti að Sævar kemur ekki til greina og verður það ekki útskýrt nánar hér.Fjögur vitni sáu Leirfinn. Öll voru þau látin taka þátt í sakbendingu þar sem Kristján Viðar var í röðinni, með mönnum áþekkum útlits. Ekkert vitni benti á hann. Þá voru vitnin látin skoða Kristján Viðar einan. Ekkert vitnanna hélt því fram að þetta væri maðurinn.
Og hefði maður haldið að þá syrti í álinn... Vitnið sem afgreiddi Leirfinn og sá hann best kom þó með framburð sem ótvírætt og endanlega kollvarpar þeirri tilgátu Þjóðverjans að um hafi verið að ræða Kristján Viðar. Í framburðinum kemur fram að vitnið þekkti Kristján Viðar í sjón. Þannig ef um hann hefði verið að ræða hefði vitnið líklegast kastað á hann kveðju þegar hann hringdi og aldrei hefði verið neinn vafi og varla geta orðið neitt sakamál...
Föstudagur 20.maí 1977 Kl. 14.45 kemur í dóminn sem vitni, Guðlaug Konráðs Jónasdóttir, húsfrú, Melteigi 6, Keflavík, fædd 18/6 1934. áminnt um sannsögli.
Vitnið kveðst hafa verið að störfum við afgreiðslu í Hafnarbúðinni í Keflavík að kvöldi l9. nóvember 1974, en vitnið hafði þá starfað þar i tæp tvö ár. Vitnið segir að mikið hafi verið að gera framan af kvöldinu, en upp úr kl. 22.00 hafi umferð farið að minnka um búðina. Það segir að eftir að hægjast fór um í búðinni hafi Geirfinnur Einarsson komið inn, en ekki kveðst vitnið geta sagt um það nú, klukkan hvað það hefur verið. Það segir að það hafi verið að horfa á sjónvarp, sem var í gangi þarna, er Geirfinnur kom inn og hafi það afgreitt hann. Keypti Geirfinnur einn pakka af sígarettum og var með peninga í höndunum nákvæmlega fyrir þeim. Einhver orðaskipti áttu sér stað milli vitnisins og Geirfinns, sem vitnið þekkti, enda kom hann nokkuð oft þarna, enda vann þar í búðinni kunningjakona Geirfinns og konu hans, Sjöfn Traustadóttir. Var hann þá oft vanur að setjast niður og rabba við þær. Minnir vitnið að það hafi spurt hann eitthvað á þá leið hvað hann væri að flýta sér því vitninu fannst eins og hann væri á óvenju hraðri ferð og væri það ólíkt því, sem vaninn væri hjá honum. Ekki minnist það þess að hann hafi svarað þessu, heldur aðeins glott og farið rakleiðis út.
Rétt upp úr þessu fór að fjölga aftur í búðinni og voru það aðallega sjómenn af bátum í höfninni, sem komu inn og vitnið þekkti. Hins vegar hafi það veitt athygli ungum manni, sem kom inn í búðina og hafi hann litið i kringum sig i búðinni og veitingasalnum, en komið siðan að afgreiðsluborðinu og beðið um að fá að hringja. Vitninu kom maður þessi þannig fyrir sjónir, að það hefði séð hann áður, en gat ekki áttað sig frekar á því. Vitnið segir að maðurinn hafi verið í leður- eða leðurlíkisjakka, brúndröppuðum að lit og hafi verið belti á jakkanum sem hékk laust.
Vitnið hefur lýst manni þessum svo hjá lögreglu, að hann hafi verið grannur, um 1.80 cm að hæð, fremur þykkur til herðanna, með dökkskollitað hár, ljós yfirlitum, augabrúnir miklar og svolítið sambrýndar en nef frekar stórt. Húð hafi virst heilbrigð, en andlitsfall gróflegt og maðurinn verið rauður i kinnum. Segir vitnið þetta vera rétta lýsingu.
Vitnið kveðst hafa mætt í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu, en ekki séð neinn mann þar, er það taldi vera umræddan mann. Það kveðst hafa séð að Kristján Viðar var í öðrum hópnum við sakbendingu, en það hafði séð hann áður og vissi hver hann var, þvi vitninu hafði verið bent á hann, er hann kom eitt sinn í Hafnarbúðina ásamt ákærða Sævari Marinó löngu áður en Geirflnnur hvarf. Vitnið segir að maður sá, er það hefur hér talað um að komið hafi i Hafnarbúðina 19. nóvember 1974 og fengið að hringja þar, hafi ekki verið Kristján Viðar. Hins vegar kunni Kristján Viðar að hafa komið þarna og hringt umrætt kvöld án þess að vitnið veitti því athygli, enda hafi margir fengið að hringja þarna þetta kvöld.
Vitninu eru sýndar myndir af ákærðu i máli þessu. Vitnið kannast við myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó, en það telur sig ekki hafa séð þá í Hafnarbúðinni umrætt kvöld. Vitninu finnst einnig að það hafi séð ákærða Guðjón, en veit ekki hvar.
Vitnið tekur fram, að maður sá, er bað um að fá að hringja og það hefur hér rætt um, hafi verið mjög stutta stund með símann og hafi það jafnvel talið líklegt að hann hafi ekki fengið svar. Það hafi a.m.k. ekkert heyrt hann tala.
Vitninu er lesin skýrsla þess hjá rannsóknarlögreglunni i Keflavík 29. nóvember 1974 og segir það hana rétta. Upplesið, játað rétt.
Aðspurt segir vitnið að ekki hafi verið haft neitt samráð við sig við gerð leirmyndar af manni þeim, er kom í Hafnarbúðina umrætt sinn. Segir vitnið að sér hafi verið sýndar ýmsar myndir, m.a. af Magnúsi Leópoldssyni. Hafi það sagt viðkomandi lögreglumanni, þ.e. Hauki Gudmundssyni, að maðurinn hefði ekki haft ósvipað höfuðlag og svip og Magnús, en það hafi þó engan veginn bent á hann. Kveðst vitnið hafa grunað, að við gerð leirmyndarinnar hafi verið miðað við mynd af Magnúsi, án þess að það væri á nokkurn hátt gert eftir ábendingu þess, því það hafi fyrst vitað um styttuna eftir að hún hafði verið gerð og sá hana ekki fyrr en mynd birtist af henni í sjónvarpi.
Upplesið, játað rétt.
Vitninu er lesinn framburður ákærða, Kristjáns Viðars hér fyrir dómi um komu hans í Hafnarbúðina að kvöldi 19. nóvember 1974. Af þvi tilefni segir vitnið, að það hafi notað tvo sloppa við afgreiðslu i búðinni, blágrænan og hvítan. Telji það liklegast að það hafi verið í þeim blágræna umrætt sinn.
Upplesið, játað rétt.
Vitnið kvedst vera í þjóðkirkjunni og trúa á Guð. Vitnið vann eið að framburði sínum að loknum lögmæltum undirbúningi. Vék frá kl. 16.02.
Dómþingi slitið. Gunnlaugur Briem. Ármann Kristinsson.
Vottar: Haraldur Henrysson. Ásta Einarsdóttir. Ragnar Þorsteinsson.
Framburður vitnisins er með þeim hætti að ekki er einungis ósannað að Kristján sé maðurinn, heldur er skv. öllum hefðbundnum hugmyndum um sönnunarmat ótvírætt sannað að Kristján er ekki maðurinn. Þó helst þessi fjarstæðukennda fullyrðing allt í gegn um rannsókn málsins og svífur í gegnum Hæstaréttardóminn eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Ragnar Aðalsteinsson gerir þetta að umtalsefni í greinargerð sem lögð var fram 1997 til stuðnings endurupptökubeiðni Sævars Marinós: Vitnið sem sá [afgreiddi] þann ókunna mann sem kom og hringdi er Guðlaug Konráðs Jónsdóttir og er haft eftir henni í forsendum héraðsdóms, að það telji sig ekki hafa séð Kristján Viðar og skjólst.m. í Hafnarbúðinni greint kvöld. Það þekkti þá í sjón. Vitnið Ásta Elín Grétarsdóttir taldi að ekki hefði verið um skjólst.m. eða Kristján Viðar að ræða. Sama gildir um vitnin Hrefnu Björgu Óskarsdóttur og Jóhann Guðfinnsson. Ekki er um fleiri vitni að ræða og samkvæmt viðteknu sönnunarmati í opinberum málum má nánast telja sannað að hvorki skjólst.m. eða Kristján Viðar komu á staðinn um kvöldið ...Svo sem gerð hefur verið grein fyrir þá er nánast sannað að hvorki skjólst.m. né Kristján komu í Hafnarbúðina eða annað til að hringja í Geirfinn um það leyti sem talið er að hringt hafi verið til hans. Héraðsdómur áttar sig á þessu og sniðgengur vandann, þannig að þar er ekki að finna skýringu á því hver hringdi í Geirfinn, en ljóst að það voru ekki sökunautar. Í dómi Hæstaréttar er hinsvegar farin sú leið að segja að við þar verði að miða við þótt ósannað sé að Kristján eða skjólst.m. hafi hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðinni. Hæstarétti var ljóst að atburðakeðjan varð að ganga upp til að unnt væri að dæma skjólst.m. Það gerði hún ekki vegna þess að vitni bera um að sökunautar hafi ekki komið þar inn um kvöldið. Hæstiréttur tekur hinsvegar ekki afstöðu til þess hversvegna reynt var að láta styttuna margrómuðu af manninum sem hringdi líkjast Magnúsi Leópoldssyni.
*
Á blaðamannfundinum 2. Febrúar 1977, sem áður var minnst á, voru samankomnir allir helstu rannsóknarblaðamenn íslensku þjóðarinnar. Þeir sátu í andakt og páruðu niður upplýsingar. Lítið var um spurningar, enda fundurinn óheyrilega langur og hægur. En þegar Schütz kveikti í vindli og lét flakka þessa makalausu fullyrðingu; Að Kristján Viðar (eða Sævar) væri Leirfinnur varð nokkur þögn.
En einn blaðamaður rétti þó upp hönd og spurði: Já en hvernig stendur á því að ekkert vitni man eftir að hafa séð þá ? Eftir nokkra þögn fékk Schütz sér smók og sagði rólega:
Þetta sýnir hve fólk gleymir miklu á stuttum tíma
Einskis frekar var spurt við þetta tilefni. Og rannsóknarblaðamennirnir UmbiRoy og félagar fóru heim á kontór og skrifuðu greinar sínar. Hvergi örlaði á gagnrýni. En þeir tóku viðtal við Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra á leiðinni:
Fyrirsögnin var: Martröð er létt af þjóðinni. Þó átti málið eftir að fara fyrir dóm... (!) Samkvæmt þessari yfirlýsingu Dómsmálaráðherrans var þó varla þörf á því.
*
Þegar við hugleiðum þær staðreyndir sem nefndar voru hér að ofan blasir við hvílík ógnar hystería hafði gripið um sig. Heilbrigð skynsemi virðist alveg hafa verið fokin út í veður og vind. Eftir stendur að það vekur furðu að rannsóknarblaðamaðurinn Umbi Roy skuli nú 2011 kjósa að tjá sig um þetta mál með þeim hætti sem hann gerir á bloggi sínu og í sjónvarpi. Tímans rás hefur sýnt að frammistaða hans í þessu máli er honum ekki til vegsauka, fremur en blaðamönnum almennt á þessum árum. Menn tala gjarnan um skort á sönnunargögnum í þessu máli:
Ekkert lík, ekkert morðvopn, ekkert blóð, spor,hár eða slíkt, þrátt fyrir að meintir vettvangar glæpanna séu þekktir, engin motiv, engin þekkt tengsl milli sakborninga og hinna horfnu, engin vitni, o.s.frv. Að athuguðu máli eru þetta þó lítilvægar athugasemdir í samanburði við það að Leirfinnur er ófundinn. Hæstiréttur heldur því blákalt fram að það sé Kristján Viðar. Það er svo augljóslega rangt að það verður að teljast ótrúleg bíræfni af réttinum að halda því fram. Að HR skyldi dirfast að bera fram slíka móðgun við almenna skynsemi árið 1980 er einungis til vitnis um þá örvæntingu sem þá ríkti þar innandyra. Enda hafði æðsti yfirmaður dómsmála í landinu svo gott sem fellt sinn dóm í stærstu fjölmiðlum landsins.
En að sami réttur hafi lagt blessun sína yfir þetta stórfenglega dómsmorð á árinu 1997 er auðvitað enn sorglegra, sérílagi fyrir nútíma íslendinga. Var þá mörgum spurn: Höfum við gengið til góðs...?
(Hæstiréttur 1997 þvoði hendur sínar með því að lög um endurupptöku opinberra mála (XXII kafli) gera ekki ráð fyrir neinu endurmati á gögnum sem lágu fyrir við hina upphaflega dómsuppkvaðningu heldur tekur aðeins til greina "ný gögn" Síðan afgreiddi Rétturinn öll þau nýju gögn sem fram komu í Greinargerð R.A. hvert í sínu lagi með þeim orðum að "þetta atriði eitt og sér" nægir ekki til endurupptöku.)
Það er deginum ljósara að sagnfræðingar framtíðarinnar munu ekki fara fögrum orðum um þessa athöfn og þó sínu ófegurri um síðara skiptið.
Umbi Roy veifar HR dómi nr. 89 frá 1980 og segir hann innihalda allt sem skiptir máli. Einn og annar formgalli hafi verið á málsmeðferðinni en ekkert stórvægilegt dómsmorð hafi gerst.
En eins og bent hefur verið á eru töluverðar líkur á því að það sem aldrei hefur gerst, gerist aftur.
TH
____________________________________________________________________________
Athugasemdir
Þetta er alveg kostulegt:
Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.10.2011 kl. 14:25
takk fyrir samantektina. furðulegt alltsaman.
Hörður Halldórsson, 18.12.2011 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.