Var tilefni til samantekinna ráða?

Var tilefni til samantekinna ráða?leirfinnur

Þær raddir hafa heyrst, jafnvel hjá málsmetandi mönnum að þó verulegur vafi liggi á um þátt dómfelldu hvað varðar mannshvörfin, sé eini öruggi þáttur málsins hinar röngu sakargiftir. Og hafi dómþolar staðið fyrir hinum röngu sakargiftum, sanni það þátt þeirra í hvarfi Geirfinns. En með þeirri athugun sem á liðnum áratugum hefur farið hefur fram á fyrirliggjandi gögnum úr Geirfinnsmáli hafa verið leidd sterk rök að því að Keflavíkurferðin hafi aldrei verið farin og dómþolar eigi engan þátt í hvarfi Geirfinns. Þar sem nánast öll umfjöllun um Geirfinnsmál hefur í u.þ.b. 20 ár verið um þetta, verður ekki farið útí það hér en vísað til greinargerðar Ragnars Aðalsteinssonar. Vegna þeirra sem lítið þekkja til skal þó nefnt eitt dæmi:Það sem öðru fremur varð til þess að hvarf Geirfinns var rannsakað sem sakamál voru komur leðurklædda mannsins í Hafnarbúðina og símtöl hans. Allt bendir til að sá maður hafi boðað Geirfinn á stefnumót og það hafi orðið örlagaríkt. Þrátt fyrir gríðarlega leit fannst leðurklæddi maðurinn, sem fékk viðurnefnið "Leirfinnur", því miður ekki. Miklar rannsóknir sýndu hinsvegar fram á með óyggjandi hætti að maður þessi gat alls ekki hafa verið neinn dómþola. Engu að síður er í dómi Hæstaréttar augljóslega ranglega "miðað við" að Kristján V.Viðarsson sé "Leirfinnur". Það getur ekki talist annað en stórkostlegt hneyksli, því eins og fram kemur í greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar hlýtur öllum að hafa verið ljóst að hér var um rangan mann að ræða:

…Vitnið sem sá [afgreiddi] þann ókunna mann sem kom og hringdi er Guðlaug Konráðs Jónsdóttir og er haft eftir henni í forsendum héraðsdóms, að það telji sig ekki hafa séð Kristján Viðar og skjólst.m. í Hafnarbúðinni greint kvöld. Það þekkti þá í sjón. Vitnið Ásta Elín Grétarsdóttir taldi að ekki hefði verið um skjólst.m. eða Kristján Viðar að ræða. Sama gildir um vitnin Hrefnu Björgu Óskarsdóttur og Jóhann Guðfinnsson. Ekki er um fleiri vitni að ræða og samkvæmt viðteknu sönnunarmati í opinberum málum má nánast telja sannað að hvorki skjólst.m. eða Kristján Viðar komu á staðinn um kvöldið…

Framburður allra fjögurra vitnanna sem sáu "Leirfinn" er samhljóða um að Kristján Viðar sé ekki maðurinn. Það sem þó vekur e.t.v. mesta athygli er að aðalvitnið, afgreiðslukonan sem afgreiddi "Leirfinn" lýsir því yfir við sakbendingu að hún þekki Kristján Viðar í sjón og hafi þekkt hann fyrir umrætt kvöld. Af framburði hennar má helst skilja að ef um Kristján Viðar hefði verið að ræða hefði hún einfaldlega tilkynnt lögreglunni nafn mannsins. Vandséð er hvernig dómþolar gætu hafa fundið sér annað tilefni til samantekinna ráða um rangar sakargiftir en raunveruleg afskipti af hvarfi Geirfinns, og þar með einnig því atferli að boða hann á stefnumótið í Hafnarbúðinni. En með samhljóða framburði allra fjögurra vitnanna sem sáu manninn "Leirfinn", er sannað að sá sem raunveruleg ástæða var til að gruna um græsku var enginn dómþola. Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að rétt gæti verið að leita með opnum huga haldbetri skýringa á þeim hörmulegu mistökum sem áttu sér stað er "klær réttvísinnar" læstust um Einar Bollason, Magnús Leopoldsson, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband