"Martröð létt af þjóðinni"
Föstudagur, 19. júní 2009
"Martröð létt af þjóðinni"
var haft eftir Dómsmálaráðherra Ólafi Jóhannessyni, þegar rannsókninni lauk með miklum blaðamannafundi 2. febrúar 1977, þar sem hinn þýski pólitíski rannsóknarmaður Karl Schütz kynnti niðurstöður sínar. Martröðinni var þó engan veginn létt af dómskerfinu, því nú skyldi málið dómtekið. Dómur féll í Hæstarétti 22. Febrúar 1980. Þó einstaka "kverúlanti" þætti á þeim tíma að seilst væri um skör fram í að dæma menn seka án fullnægjandi gagna, ríkti einhugur með þjóðinni um að dæma skyldi. Hvatinn að þessari samstöðu íslendinga var þó fremur sá að þjóðin var langþreytt á þessu vafstri, en að fólk hefði raunverulega skilning á málatilbúnaðinum. Hafi venjulegir íslendingar dottað yfir hinni 15 klst. löngu sóknarræðu ríkissaksóknara gátu þeir varla efast um að öllum spurningum hafi þar verið svarað. Almenningur treysti einfaldlega fagmönnum til verksins. En í 20 ár hefur verið fjallað um málið í ótal blaðagreinum, bókum, útvarpsþáttum, sjónvarpsþáttum og einni heimildarmynd. Þó umfjöllun hafi á köflum verið grunn, hefur hún orðið til þess að sífellt fleirum hefur orðið ljóst að ekki var allt með felldu við afgreiðslu málsins. Ekkert nýtt hefur komið fram sem styður við niðurstöðurnar en atriðin sem varpa vafa á sekt dómþola í málinu virðast verða fleiri eftir því sem árin líða. Segja má að fæst af því séu ný gögn, fram komin eftir dóm Hæstaréttar 1980. Heldur er um að ræða atriði sem mönnum hafði yfirsést en koma í ljós við nánari athugun og samanburð á fyrirliggjandi málsskjölum. Í áranna rás hafa menn fengið tóm til að grúska í hinum fyrirliggjandi gögnum og afla nýrra. Þar sem um er að ræða yfir 10.000 bls. af skýrslum og skjölum, er "eðlilegt" að dómurum málsins hafi yfirsést eitt og annað, rétt eins og verjendum sakborninga og öðrum, enda registur málsins með afbrigðum lélegt. Einnig hafa komið fram ný gögn sem dómurum var ókunnugt um við dómsuppkvaðningu. Hið gríðarlega umfang málsins varð til þess að vankantar ríkjandi réttarkerfis komu betur fram en nokkru sinni. Það sjá menn best eftirá, enda hafa verið gerðar verulegar breytingar síðan. Önnur afleiðing þessa ógnarlega umfangs var sú að handhægt svar við áleitnum spurningum var jafnan tiltækt: "Það er nú svo margt annað í þessu máli "
En með gögnum á borð við greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar og úrlausn Hæstaréttar vegna endurupptökubeiðninnar er mun aðgengilegra nú en áður að öðlast heildaryfirsýn yfir málið. Á vefsíðu sem sett hefur verið upp á slóðinni er hægt að kynna sér málið. Þar er að finna nánast allt sem skrifað hefur verið um málið í íslenska prentfjölmiðla á undanförnum árum. Einnig Hæstaréttardóminn frá 1980, úrlausn Hæstaréttar frá 1997, auk málsskjala, greinargerða, og gagna af ýmsu tagi. Þannig hefur aðgengi að upplýsingum aukist, enda eru þeir ófáir, fagmenn jafnt og leikmenn sem í tímans rás hafa með aukinni þekkingu endurskoðað afstöðu sína.
Umfjöllun um Hæstaréttarmálið nr. 214/1978, Guðmundar-og Geirfinnsmál, hefur á undanförnum áratugum verið mikil og misjöfn. Þeir sem af ýmsum ástæðum virðast álíta niðurstöður málsins réttar, hafa einkum mætt gagnrýni með því að beina umræðunni að því hvort þær upplýsingar sem varpa rýrð á niðurstöður hafi legið fyrir við dómsuppkvaðningu eða ekki, fremur en að taka gagnrýnina málefnalegum tökum. Það sem vitnar best um þetta er að sjálfsögðu hin annars vandaða úrlausn Hæstaréttar frá 15. Júlí 1997.
Málflutningur "endurupptökusinna" hefur hinsvegar einkennst af óvæginni gagnrýni á störf lögreglunnar almennt. Slíkar "níhiliskar" alhæfingar eru alls ekki til þess fallnar að beina umræðunni á skynsamlegar brautir. Bent skal á að þrautreyndir og grandvarir lögreglumenn hafa ekki verið eftirbátar annara við að benda á vankanta málsins. Enda illt fyrir heila starfsstétt að liggja undir ámæli vegna afglapa örfárra manna. Við frumrannsóknina í Keflavík starfaði lítill hópur manna og sumir þeirra aldeilis engir kórdrengir. Einn rannsóknarmanna Geirfinnsmáls hefur einn íslenskra lögreglumanna hlotið fangelsisdóm fyrir ólöglega handtöku og tilbúin sönnunargögn sem hann kom fyrir á vettvangi "glæpsins". Var það í máli leigubílstjóra sem sakaður var um vínsölu á suðurnesjum, eins og mörgum er í fersku minni. Menn hljóta að spyrja hvort eitthvað sé líkt með þeirri "rannsóknartækni" sem var beitt í máli leigubílstjórans og þeirri sem notuð var við teiknimyndargerðina af framkvæmdastjóra veitingahússins Klúbbsins.
Við upphaf framhaldsrannsóknar Geirfinns- og Guðmundarmáls voru aðalstarfskraftar tveir rannsóknarlögreglumenn og einn rannsóknardómari. Löngu áður en dæmt var í undirrétti höfðu komið fram verulegar athugasemdir við störf þeirra frá einum af dómurum málsins. Var dómurunum þó allt til ársins 1997 ókunnugt um að fölsuð opinber gögn höfðu verið fyrir þá lögð. Um er að ræða falsað "staðfest" endurrit úr dagbók Síðumúlafangelsis. Skv. hinu falsaða endurriti var ekkert bókað um að Sævar hafi fengið ómannúðlega meðferð. Ófölsuð staðfestir dagbókin hinsvegar að verulegu harðræði var beitt. Um þetta segir m.a. í úrlausn Hæstaréttar :
Þegar framangreind atriði eru virt í heild er ljóst að dómfelldi sætti ólögmætri meðferð í gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsi, einkum í apríl og maí 1976, í nokkuð meiri mæli en kunnugt var um við úrlausn málsins
Þó marga hafi rekið í rogastans við að lesa harðræðislýsingar þær sem sleppt var í endurriti úr dagbókinni, er hitt e.t.v. mikilvægara, að þetta atriði sannar að svo langt var gengið af opinberum embættismanni að falsa opinber gögn til að leyna því harðræði.
Á upphafsárum þessa máls kom fram á Íslandi nýyrðið "rannsóknarblaðamaður". Nokkrir slíkir voru mættir á blaðamannafund sem haldinn var 2. febrúar 1977. Þar kynnti þýski rannsóknarmaðurinn Karl Shütz niðurstöður rannsóknarinnar, þ.á.m. að maðurinn sem nefndur var "Leirfinnur", væri Kristján Viðar Viðarsson og að Sævar hefði einnig farið inn í Hafnarbúðina. Af því tilefni spurði rannsóknarblaðamaður nokkur hvers vegna ekkert hinna fjögurra vitna hefði þekkt þá við sakbendingar. Enginn benti á það sem meira er, að aðalvitnið þekkti Kristján við sakbendingu og staðfesti endanlega að ekki hefði verið um hann að ræða... Svar hins "pólitíska lögreglumanns", eins og Shütz kýs sjálfur að skilgreina sig í æviminningum sínum, verður lengi í minnum haft:
"Þetta sýnir hve fólk gleymir miklu á stuttum tíma" var svarið.
Tryggvi Hübner.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.