Hver valdi Magnús Leopoldsson ?

Hver valdi Magnús Leopoldsson?

Af einhverjum ástæðum virðist frumrannsóknarmönnum hafa verið mjög í mun að framkvæmdastjóri Klúbbsins yrði bendlaður við hvarf Geirfinns. Þannig hefur vitni úr frumrannsókninni, afgreiðslukona úr Hafnarbúðinni, greint frá því að strax við upphaf leitar að leðurklædda manninum hafi henni verið sýnd mynd af framkvæmdastjóranum, Magnúsi Leopoldssyni. Konan kvartar sérstaklega undan því fyrir dómi, að leirmyndin sem sögð var gerð eftir lýsingu sjónarvotta, hafi verið látin líkjast Magnúsi "of mikið". Afgreiðslukonan er sú sem afgreiddi manninn með símtal og sá hann best allra.

valtyr_sigursson

Í mynd Sigursteins Mássonar "Aðför að lögum" var m.a. stutt viðtal við Magnús Gíslason teiknara og fréttamann í Keflavík. Formleg yfirlýsing sama efnis er í greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar. Í yfirlýsingunni segir Magnús frá því að í nóv. 1975 hafi lögreglumaður afhent honum ljósmynd af Magnúsi Leopoldssyni, með þeim fyrirmælum að hann skyldi gera teikningu eftir ljósmyndinni. Teiknarinn vissi þá ekki hver maðurinn á ljósmyndinni var. Fylgdu aukreitis þau fyrirmæli að hársveipur skyldi ná fram á ennið og augabrúnir nokkuð dekktar. Teikninguna ætti síðan að birta í fjölmiðlum og lýsa eftir manninum á myndinni. Um væri að ræða þann sem talinn var hafa hringt úr Hafnarbúðinni og boðað Geirfinn á hið örlagaríka stefnumót. Áður en Magnús Gíslason lauk teikningunni hafði leirstyttan verið gerð og var teikningin því aldrei notuð. Þessi frásögn þótti mörgum engu að síður ótrúleg og sannarlega ný gögn í málinu ef rétt væri. Þeir fjölmörgu sem neituðu að trúa slíku atferli á íslenska lögreglumenn neyddust síðan til að sannfærast, þegar lögreglumaðurinn S.N. sem afhenti myndina staðfesti í útvarpsviðtali að rétt væri frá greint. Ekki hefur verið upplýst nánar hver átti þá hugmynd að beina grun að Magnúsi Leopoldssyni með þessum hætti. En með þeim gögnum sem fyrir liggja er ljóst að frumrannsóknarmenn í Keflavík urðu þarna fyrstir til bendla Magnús Leopoldsson við hvarf Geirfinns. Sjálfsögð krafa er að upplýst verði hversvegna framkvæmdastjóri Klúbbsins varð fyrir valinu og hver valdi hann. Hvað var það á þessu stigi málsins sem beindi grun að honum? Ekki var Erlu Bolladóttur til að dreifa... Fleiri spurningar hljóta einnig að vakna þegar þetta er athugað: Þar sem í raun var verið að lýsa eftir Magnúsi, hvers vegna var þá ekki ljósmyndin einfaldlega birt? Magnús Gíslason er vissulega frábær teiknari, og gat léttilega teiknað auðþekkjanlega mynd af framkvæmdastjóra Klúbbsins, en hversvegna þessi millileikur, að láta gera teikningu eftir ljósmynd? Engin skýring hefur verið gefin. Gæti skýringin verið sú að forstjóra Klúbbsins hafi aukist hárprýði eftir að myndin var tekin, og hann orðinn fullorðinslegri til augnanna? Vissulega hafði það gerst en einnig verður að teljast sennilegt að sá sem stóð fyrir aðgerðinni hafi ekki viljað láta bendla sig við hana og því viljað finna sér einskonar skjól í teikningunni sem pöntuð var í nóv 1974. Ekki gat hann skákað í skjóli hins ævintýralega framburðar sem Erla gaf 23. Jan 1976. Reyndir og vanir lögreglumenn hafa verið manna skeleggastir í gagnrýni sinni á þá "óhefðbundnu rannsóknaraðferð" sem þarna var beitt. Sunnudaginn 8. mars 1998 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Gísla Guðmundsson fv. rannsóknarlögreglumann. Þar segir Gísli: "Ekki er með nokkru móti hægt að skilja hvað mönnum gengur til með slíkum vinnubrögðum og get ég ekki flokkað þetta undir neitt annað en stórfellt refsivert brot í opinberu starfi."

Bjarki Elíasson fv. yfirlögregluþjónn segir ennfremur í viðtali í heimildarmyndinni Aðför að lögum: "Þetta byrjaði sem rannsókn á hvarfi manns sem ekkert var óeðlilegt við að yrði rannsakað. En þegar ekki tókst að upplýsa það var það tengt alls óskyldum málum, forsendurnar fengnar fyrirfram og rannsakað út frá því. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra".

Hafi einhver í raun og veru hug á að finna uppruna rangra sakargifta í Geirfinnsmáli þá liggur beinast við að athuga hver frumrannsóknarmanna í Keflavík var það sem stóð fyrir því að senda lögreglumanninn S.N. með myndina af forstjóra Klúbbsins til Magnúsar Gíslasonar teiknara. Og hvers vegna? Það verður vafalaust upplýst einn góðan veðurdag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband