Framburður Sævars fyrir dómi

 Sævar kom fyrir dóm 1. apríl 1976 kl.10.09.

saevar

Framburður hans hefst á þessum orðum: "Mættur kveðst vilja taka fram í upphafi, að skýrslur þær sem hann hefur gefið í  þessu máli séu ekki byggðar á hans eigin vitneskju eða reynslu heldur hafi Erla Bolladóttir skýrt sér frá öllum atvikum sem hann sagði frá í eigin persónu hjá rannsóknarlögreglunni."

Með þessu orðalagi hlýtur þessi staðhæfing að teljast all furðuleg, og sem varnartaktík sæmir slík merkingarleysa engan vegin jafn slyngum manni og Sævar var sagður vera. Sævar hafði verið í hámarkseinangrun í 14 vikur. Sé reynt að fá einhverja merkingu út úr þessari fyrstu setningu í framburði Sævars getur hún ekki verið önnur en sú að Sævar sé að reyna að fá dómarann til að skrá niður að hann hafi enga vitneskju um málið aðra en þá sem rannsóknarlögreglan hafi eftir Erlu Bolladóttur. Þyki einhverjum það bíræfin staðhæfing að rannsóknardómarinn hafi hugsanlega sýnt af sér ónákvæmni í að skrá framburð manns fyrir dómi, má benda á að skv. frásögn dómarans sjálfs (Arnar Höskuldssonar) í bréfi til sakadómaranna (22. sept 1977) sleppti hann því jafnvel alveg að skrá framburð Sævars fyrir dóminum, ef hann "vissi betur."

Sævar nefnir síðan nöfn Magnúsar, Einars og Valdimars í því samhengi að Erla gæti hafa verið hrædd við þá. Hann nefnir ekki Sigurbjörn en bætir við tveimur þekktum mönnum úr viðskiptalífinu og segist hafa heyrt talað um að þeir viti allt um Geirfinnsmálið. Ennfremur stendur í dómsskjali: "Mættur kveðst hafa gefið skýrslur þessar til að hægt væri að rannsaka mál þetta, þar sem honum hefði verið sagt að Erla yrði fyrir ónæði og óttaðist um líf sitt."

Semsagt, þrátt fyrir að verulegt ósamræmi hafi verið í grundvallaratriðum í frásögn þeirra Sævars og Erlu um aðild annara en þeirra sjálfra að hvarfi Geirfinns, er nákvæmt samræmi um þetta atriði, þ.e. þeim hafi verið talin trú um að líf Erlu hafi legið við og nauðsynlegt væri að handtaka þá sem stæðu að líflátshótunum gegn Erlu áður en henni yrði gert mein og til að hægt yrði að leysa málið.

Hafi áætlun dómþola um meinsæri verið raunveruleg, verður að teljast furðulegt að frásagnir þeirra af ferðinni til Keflavíkur hafi verið svo ósamstæðar sem raun ber vitni. Fleiri nöfn voru nefnd til sögunnar, nöfn þjóðþekktra viðskipta og stjórnmálamanna. Augljóst er að rannsóknarmenn sáu fljótlega að þetta var "þunnur ís."

Þann 10. Febrúar er tekin skýrsla af Sævari og hefst hún á orðunum: "Mætta hafa verið sýndar myndir af 16 mönnum sem rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt að hafi verið við dráttarbraut Keflavíkur og/eða í bátsferð þ. 19.nóv". Sami formáli var að skýrslu sem sama dag var tekin af Erlu. Þó hvorugu þeirra hafi tekist að þekkja alla þá menn sem þau sögðust hafa séð í dráttarbrautinni, er skýrsla Erlu athyglisverð annara hluta vegna. Af myndunum þekkir hún 9 þeirra 16 manna sem rannsóknarlögreglan kveðst telja "hugsanlegt að hafi verið í dráttarbraut Keflavíkur og/eða í bátsferð þ.19.nóv". Flestir eru þeir umsvifamiklir menn úr íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband