Sakbending fjögurra vitna
Mánudagur, 20. júlí 2015
Fjögur vitni sáu manninn sem hringdi. Í dómi HR 1980 er fjallað um þau:
- Um vitnið Á.E.G. segir:
Vitnið mætti tvisvar í sakbendingu hjá lögreglu en ekki sá það neinn í þeim hópum manna sem það taldi sig geta bent á sem mann þann sem komið hefði í Hafnarbúðina umrætt sinn og hringt.
- Um vitnið H. B. Ó. segir :
Vitninu voru sýndar myndir af Kristjáni, Sævari og Guðjóni. Vitnið kveðst ekki geta staðhæft hvort einhver þeirra hafi komið í Hafnarbúðina til að hringja.
- Um vitnið J.G. segir:
Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari. Vitnið kveðst ekki geta sagt um hvort þessir menn hafi komið inn í Hafnarbúðina.
- Um vitnið G.K.J. segir:
Vitnið kveðst hafa mætt í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu en ekki hafa séð neinn mann þar, sem það taldi vera umræddan mann. Það kveðst hafa séð að Kristján Viðar var í hópnum við sakbendingu en það hafði séð hann áður og vissi hver hann var. Vitnið segir að framangreindur maður hafi ekki verið Kristján Viðar.
Ekki var um fleiri vitni að ræða en þessi fjögur samhljóða vitni. Með framburði þeirra er ljóst að það var enginn sakborninganna sem hringdi í Geirfinn að kvöldi 19. nóv. 1976. Hér liggur fyrir stöðugur og samhljóða framburður fjögurra vitna þess efnis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning