Valtýr Sigurðsson á BBC: "We have lot of proofs..."

 

Þann 15. maí 2014 var fluttur á BBC Radio World Service útvarpsþátturinn “The Reykjavik Confessions”, þar sem fréttamaðurinn Simon Cox fjallaði um svonefnd Guðmundar og Geirfinnsmál.

Simon Cox tekur það skýrt fram í þættinum að hann hafi reynt mikið að fá viðbrögð þeirra sem störfuðu við rannsókn málanna á sínum tíma en ekki haft erindi sem erfiði, nema hvað hann náði tali af Valtý Sigurðssyni. Valtýr var einmitt yfirmaður frumrannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík.. Fátt af því sem Valtýr segir kemur á óvart, hann er greinilega sáttur við dóm Hæstaréttar og telur að hinir dæmdu séu sekir. Í lok viðtalsins talar hann um að margar vísbendingar hafi verið um að atburðir hafi gerst með ákveðnum hætti í Keflavík. “Yes, clues but no proof” segir Simon Cox og innir Valtý eftir sönnunum.

Þá segir Valtýr:

“We have lot of proofs that Erla was in Keflavík” 

“Við höfum margar sannanir fyrir því að Erla Bolladóttir var  í Keflavík.”  

Frá bæjardyrum undirritaðs er tilefni til að staldra við og hugleiða aðeins þessa fullyrðingu Valtýs.

Þarna er yfirstjórnandi frumrannsóknarinnar í viðtali við BBC World service. Ætla má að við þessar kringumstæður nefni Valtýr þann þátt málsins sem hann telur öruggastan, og telur helst styðja þá fullyrðingu að hinir dæmdu séu sekir. Þannig að við skulum athuga nánar hversu öruggar eru þessar “mörgu sannanir” ("lot of proofs") sem Valtýr nefnir.

Erla var fyrst hneppt í gæsluvarðhald vegna Geirfinnsmáls í des. 1975 og var síðan í haldi samfellt frá 4. maí til 22. desember 1976. Á þessu tímabili  eru skráðar 105 yfirheyrslur yfir Erlu. Réttargæslumaður Erlu var þó aðeins viðstaddur samskipti hennar við rannsakendur í eitt skipti af þessum 105.Í þessum 105 (skráðu) yfirheyrslum yfir Erlu ber ýmislegt á góma, eins og vænta má. Til dæmis ferð til Keflavíkur. Framburður hennar og annarra sakborninga var mjög reikull. Þannig koma fram í þessum yfirheyrslum  nokkrar útgáfur af  meintri ferð Erlu til baka frá Keflavík. Á tímabili virtist svo sem hún hefði verið samferða öðrum sakborningum til Reykjavíkur á Land Rover bifreið en á öðrum tímabilum útskýrir hún ferð sína til baka með því að hún hafi farið ¨á puttanum” til Reykjavíkur. Í niðurstöðu Hæstaréttar er notuð sú útgáfa sögunnar að Erla hafi dvalist næturlangt í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni og síðan húkkað sér far til Reykjavíkur. Skýrsla er tekin af EB 23. jan 1976. Þrátt fyrir að flestu sem þar kemur fram um atvik, sé hafnað í dómi Hæstaréttar,  er þetta atriði látið halda sér, þ.e. að Erla hafi farið á puttanum til Reykjavíkur að morgni 20.nóv. Hún segist hafa farið með Moskvitch bifreið fyrri hluta leiðarinnar, að Grindavíkurafleggjara en fengið far með vörubíl þaðan og til Hafnarfjarðar. Hún tekur ekki fram tegund né lit vörubílsins en í síðari skýrslum talar hún um að ökumaðurinn hafi sagst hafa starfað við malar eða grjótnám  og hafi reykt pípu.

Vörubílstjórinn

Snemma vors 1976 lýsti lögregla eftir malar eða grjótflutningabifreið sem gæti hafa tekið stúlku upp í að morgni 20. nóv.1974  Þann 11. apríl 1976 gefur sig fram maður (Á.R.) sem oft átti þarna leið um þetta leyti á vörubifreið. Hann starfaði um þetta leyti við að flytja  síldartunnur frá Siglufirði til Keflavíkur og ók þessa leið því oft og reglulega. Fram kemur í ökudagbók mannsins að hann hafði ekið þessa leið 20. nóv. Í skýrslunni segir hann:

“Í einni af þessum ferðum man ég eftir því  að ég tók upp í bifreiðina stúlku á Reykjanesbrautinni.”  Maðurinn heldur því hvergi fram að hann muni hvaða dag hann tók stúlkuna upp í. Í dagbókinni kemur fram að hann hafi ekið þessa leið þennan dag. En það gerði hann líka marga aðra daga haustið 1974, jafnvel oft í hverri viku, þar sem hann hafði þann starfa að keyra leiðina. Í framhaldi af skýrslunni fór fram sakbending þar sem Á.R. sá Erlu Bolladóttur ásamt fjórum öðrum stúlkum. (20% líkur m. v. random.)

Ekki gat hann bent á neina þeirra sem stúlkuna sem hann kvaðst hafa tekið upp í.

Eftir stendur:

  1. Samkvæmt dagbók mannsins ók hann þessa leið 20. nóv.
  2. Maðurinn ók leiðina oft og reglulega um þetta leyti.
  3. Í einni af þessum ferðum þá um haustið tók hann stúlku upp í.
  4. Hann þekkti stúlkuna ekki við sakbendingu.

Nóg um þetta, varla er þetta sönnunin sem Valtýr talar um.

Moskvitch maðurinn:

Auglýst var einnig eftir ökumanni Moskvitch bifreiðar sem Erla hafði sagst hafa fengið far með að Grindavíkurafleggjaranum. Ökumaðurinn G.S.J. gaf sig fram og gaf skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 30. mars. 1976.

Í skýrslu hans kemur fram að hann muni eftir að hafa tekið stúlku upp í einhverntíma um haustið 1974 og ekið henni þessa leið, frá afleggjaranum að Höfnum og að Grindavíkurafleggjara. Hann geti ekki dagsett það nákvæmlega hvenær hann hafi tekið stúlkuna upp í né heldur á hvaða tíma dags.

Í skýrslunni segir: “Ég minnist þess að ég var hjá dóttur minni í Sandgerði eina nótt haustið 1974 og þá gæti þetta komið heim og saman við þann atburð sem um er rætt”

Í þessari  skýrslu sem tekin er 30. mars 1976 kveðst hann hafa ekið á Skoda bifreið sem hann átti. Hvergi er minnst á Moskvitch.Þó hafði lögreglan ekki lýst eftir ökumanni Skoda bifreiðar, heldur Moskvitch.

Að skýrslutöku lokinni fór fram sakbending þar sem “nokkrar stúlkur” stilltu sér upp.Ekki er tekið fram hve margar. Maðurinn kveðst telja að ein þeirra stúlkna sem stillt var upp “kæmi til greina” og benti á Erlu Bolladóttur.

Ökumaður Skoda/Moskvitch bifreiðarinnar mætti síðan fyrir Dómþing Sakadóms Reykjavíkur þann 26. maí 1977. Hann hefur mál sitt á því að hann hafi: “Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974 tekið stúlku upp í bifreið sína í Keflavík” Vitnið staðfestir að bifreið þess hafi verið af gerðinni Skoda 1000. Einnig segist hann nú hafa “eitt sinn um þetta leyti fengið lánaða bifreið hjá vinnufélaga sínum og hafi þetta verið Moskvitch og gulgræn að lit að vitnið minnir og frekar illa farin."Telur vitnið “jafnvel sennilegt” að það hafi verið á þeirri bifreið. Hann kveðst nú ekki hafa gist í Sandgerði,heldur hafi fóstra hans átt afmæli 19. nóvember 1974. Hann hafi verið í afmælisveislunni í Garðabæ ásamt fjölda fólks um kvöldið en síðan farið af stað árla morguns og ekið suður í Sandgerði. 

Sakbendingin frá 30. mars er rifjuð upp og staðfestir maðurinn að í sakbendingunni hafi Erla hafi verið: “líkust stúlkunni", af þeim stúlkum sem stillt var upp. 

Maðurinn þekkir Erlu á mynd sem honum er sýnd í þessu dómþingi sem fram fór eins og áður sagði 26. maí 1977. 

***** 

Í þessum tveimur skýrslum er margt athyglisvert.

Í sakbendingunni 30.mars 1976 heldur hann því hvergi framað Erla sé sú sem hann tók upp í bílinn. Hann kveðst hinsvegar telja að ein stúlknanna “komi til greina”. Hann bendir á Erlu og er  honum þá sagt að þetta sé Erla Bolladóttir. 

Í skýrslunni fyrir dómi lýsir hann því þannig að honumhafi þótt Erla “líkust” stúlkunni, af þeim stúlkum sem stillt var upp.

Einnig vekur það nokkra athygli að bifreið sú sem var í eigu mannsins á þessum tíma var alls ekki af Moskvitch gerð. Skv. bifreiðaskrá 1974 ók hann um á bifreið af gerðinni Skoda 1000. Fyrir dómi hefur hann mál sitt á því að hann hafi "Einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974" tekið stúlku upp í. Talar síðan um afmælisveisluna og segist síðan "eitt sinn um þetta leyti" hafa fengið lánaða Moskvitch bifreið hjá vini sínum og er vitnið óklárt á því hvor tegundin var notuð, “annaðhvort Moskvitch eða Skoda”

Athyglisvert er í þessu samhengi að í beinu framhaldi af því að þessar upplýsingar komu fram breyttist framburður Erlu á þann veg að hún hættir að tala um Moskvitch bifreið, heldur hafi verið um að ræða “annaðhvort Moskvitch eða Skoda”

Ekki aðeins er samræmi milli tegundanna sem þau nefna, heldur er einnig samræmi í óvissu þeirra, um hvaða tegund var um að ræða. Þetta samræmi hlýtur að teljast sérkennilega fullkomið. Allavega er umhugsunarefni hvernig slíkt samræmi getur myndast.

Þetta atriði minnir óneitanlega nokkuð á atriði sem margir kannast við úr svonefndu Guðmundarmáli en þar áttu bifreiðir það til að breytast úr einni tegund í aðra. Þá vekur það furðu hve stutt og ónákvæm skýrslan um sakbendinguna er. Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp. Maðurinn segist hvergi í skýrslunni hafa tekið Erlu upp í bílinn. En hann telur að Erla komi til greina. Sú "niðurstaða" virðist fullnægja allri forvitni, ekkert meira er skráð og maðurinn fer.Maðurinn þekki Erlu af mynd sem honum var sýnd í dómþinginu 26. maí 1977.Þar virðist eiga að vera um einhverkonar stuðning að ræða við sakbendinguna. Varla hafði þó liðið dagur um nokkurra mánaða skeið að ekki væru myndir af Erlu og öðrum sakborningum á forsíðum dagblaða, ásamt frásögnum af glæpaverkum þeirra. Það hefði því líklega verið meiri leitun um þessar mundir að þeim Íslendingi sem ekki hefði þekkt persónuna á myndinni. 

Eftir stendur:

  1. Hann man ekki hvar:

Hann segist í fyrstu skýrslunni muna, að hafa tekið stúlku upp í við afleggjarann að Höfnum, nokkuð fyrir utan Keflavík, ofan við Njarðvík. Í þeirri síðari segir hann að það hafi verið á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu, inni í miðbæ Keflavíkur. 

  1. Hann man ekki hvenær:

 Í fyrstu skýrslunni segir hann:

“Ég get ekki fullyrt á hvaða tíma dags,né heldur get ég dagsett þennan atburð” Þ.e.a.s. hvenær hann tók stúlku upp í Skoda/Moskvitch bifreiðina.Í þeirri síðari talar hann um afmælisveisluna 19. nóv. En segir jafnframt að þetta hafi verið “einhvern tíma um haustið eða veturinn 1974” 

Þarna er mótsögn, þannig virðist hann ekki viss um það hvort hann sé öruggur eða óöruggur hvað varðar dagsetninguna. (Þetta minnir óneitanlega nokkuð  á lýsingu eins sakborninga í málinu, þegar hann kvaðst eftir langt gæsluvarðhald, vera orðinn "50% viss" um að hafa drepið mann.)

  1. Fyrir dómi breytir maðurinn framburði um ferðir sínar þessa daga í grundvallaratriðum frá lögregluskýrslunni.

Í fyrri skýrslunni segist hann hafa gist í Sandgerði. Í síðari skýrslunni segist hann hafa farið árla morguns til Sandgerðis, stoppað þar í örstutta stund og haldið síðan af stað til Reykjavíkur. 

Hvergi kemur fram hver hafi verið tilgangur ferðarinnar um morguninn, né hvaðan hann fór, eða hvar hann gisti um nóttina, þ.e.a.s. samkvæmt síðari framburði sínum. En hann var búsettur á Seltjarnarnesi.

Samkvæmt síðari framburði mannsins, 26. maí 1977, ók hann til Sandgerðis, morguninn eftir afmælið, síðan aftur til Reykjavíkur (Seltjarnarness?) Síðan suður aftur til Grindavíkur. Hann var mættur til vinnu í Grindavík samdægurs skv. sama framburði sínum fyrir dómi. 

  1. Hvergi í sakbendingunni heldur hann því fram að Erla sé stúlkan sem hann tók upp í, haustið 1974. Einungis að það "komi til greina" og orðar það svo fyrir dómi að honum hafi þótt Erla "líkust stúlkunni" af þeim sem stillt var upp. 
  1. Sakbending eftir myndum fyrir dómi er augljóslega merkingarlaus vegna spilliáhrifa frá fjölmiðlum.

Ekki aðeins höfðu myndirnar verið birtar, heldur einnig játningar sakborninga og yfirlýsingar frá Karl Shütz um að málið væri "algjörlega öruggt". Hvergi sást örla á vafa um sekt sakborninga. Einnig hafði birst yfirlýsing frá ráðherra dómsmála: "Martröð er létt af þjóðinni" Vitnið hefur þannig ýmis tilefni til að telja málið öruggt, með eða án síns framburðar og hefur engar forsendur til að gera sér grein fyrir því að hvorki er um efnisleg gögn né önnur vitni að ræða.

  1. Sakbendingin og skýrslan um hana er stórkostlega gölluð, ónákvæm og furðulega knöpp, m.v. hugsanlegt mikilvægi vitnisins. Hvergi er tekið fram hve mörgum stúlkum var stillt upp.(Í hinni árangurslausu sakbendingu þegar vörubílstjórinn mætti voru þær fjórar auk Erlu. Með því eru 20% líkur á "árangri" m.v. slembiaðferð)
  1. Hann man ekki hvaða tegundar bifreiðin var sem hann ók. En nefnir þó við yfirheyrsluna báðar sömu tegundir og Erla telur koma til greina. Hafi maðurinn tekið farþega upp í bílinn “einhverntíma þarna um haustið eða veturinn”, hefur væntanlega verið um eina tegund bifreiðar að ræða, af einni tegund. Í dómsniðurstöðu Hæstaréttar eru báðar tegundir enn nefndar.Að maðurinn skuli ekki muna hvaða tegund bíllinn var, rýrir vissulega trúverðugleika vitnisins. Hitt hlýtur þó að teljast mun merkilegra: Að samræmi skuli vera í óvissu þeirra um hvora tegundina var um að ræða. 

Þar sem ekki er um önnur vitni að ræða, þá er komið að hinum efnislegu sönnunargögnum: 

Í einni af yfirheyrslunum 105 yfir Erlu Bolladóttur kemur fram að hún segist hafa beðið í yfirgefnu húsi nærri Dráttarbrautinni aðfaranótt 20. nóv. 1974. Þar hafi hún reykt nokkrar sígarettur. Rannsóknarmenn miðuðu við að um væri að ræða “Rauða húsið” nálægt Dráttarbraut Keflavíkur. Húsið var mannlaust og opið og hafði verið það lengi. (Tilvalið t.d. fyrir unglinga að reykja þar inni.) Rúmlega 26 mánuðum eftir meinta atburði, 23. janúar 1977 fór lögregla á vettvang ásamt Erlu. Gat hún bent á ákveðið herbergi og taldi sennilegt að hún hafi beðið þar. Ekki fundust neinir stubbar í því herbergi sem Erla nefndi. Hinsvegar er skýrt tekið fram í skýrslunni að 5 sígarettustubbar hafi fundist í húsinu. Athygli vekur að ekki er minnst á áætlaðan aldur þeirra né tegund. En hafi þeir verið á að giska tveggja til þriggja ára gamlir og af Winston gerð, er hér ef til vill komin ein af þeim mörgu sönnunum sem Valtýr nefnir í BBC viðtalinu. 

Varla getur það þó verið. Erla er talin hafa reykt Winston en það mun reyndar hafa verið vinsæl tegund á þessum árum. 

Eftir stendur að sannað er með þessum efnislegu sönnunargögnum:

  1. Að sígarettur hafi verið reyktar á þessum slóðum á árunum ca. 1974 – 1977. Ekki er þó vitað af hvaða tegund.

Þar sem ekki er um aðrar vísbendingar (clues) að ræða en þá framburði vitna sem hér hafa verið raktir og þau efnislegu sönnunargögn sem nefnd hafa verið:

Er því hér með virðingarfyllst og staðfastlega haldið fram að það sé með öllu ósannað að Erla Bolladóttir hafi verið í Keflavík aðfaranótt 20. nóvember 1974.

***

T.H.

Nánar:

Valtýr og umfjöllun BBC

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband