Álit landlæknis 1996
Þriðjudagur, 29. júlí 2014
Á fundi náðunarnefndar í dómsmálaráðuneytinu í mars 1996 kynnti Landlæknir Ólafur Ólafsson niðurstöður nýrra rannsókna á áhrifum einangrunar á fanga. Niðurstöðurnar eru á þá leið að einangrun sé óráðleg lengur en 3-4 vikur, vegna hættu á margvíslegum heilsuvanda og geðrænum erfiðleikum. Úlfljótur, tímarit félags lögfræðinema hefur fjallað um þessar niðurstöður, einnig hafa þær verið birtar í erlendum vísindatímaritum.
Morgunblaðið fjallaði um fund landlæknis 14. mars 1996. Í grein Morgunblaðsins segir m.a:
,,Komist er að þeirri niðurstöðu að gæsluvistarföngum er mun hættara við vistun á geðsjúkrahúsum síðar meir, en föngum sem ekki hafa setið í einangrun.
Til dæmis leiddi rannsókn á 63 norskum föngum, sem setið höfðu í einagrun mislengi, í ljós svefnleysi, þunglyndi, skerta hæfni til einbeitingar, kvíða og depurð. Föngum með líkamlega kvilla eða sálarlega fyrir gæsluvarðhald, versnaði meðan á því stóð. Ennfremur voru bornir saman 27 gæsluvarðhaldsfangar í strangri einangrun sem hvorki fengu bréf né heimsóknir og jafnmargir sem ekki voru í ströngu gæsluvarðhaldi.
Fangarnir sátu að meðaltali 7-8 vikur í gæsluvarðhaldi, styst tvær vikur og lengst tuttugu, og voru skoðaðir aðra hverja viku. Ellefu föngum sem þjáðust af geðsjúkdómum og stríddu við vímuefnavanda og fangelsiskvíða var sleppt við rannsókn. Leiddi samanburðurinn í ljós marktækan mun á heilsufari hópanna. Í þeim fyrri var langtum meira um skerta einbeitingarhæfni, þunglyndi, lyfaneyslu, höfuðverk, óþægindi frá maga og truflanir á skynjun. Þeir sem lengst voru einangraðir, í 14 vikur að meðaltali, sýndu fyrrgreind einkenni í ríkari mæli, og alvarlegs þundlyndis varð vart hjá sjö þeirra. Kvörtuðu margir undan vaxandi truflunum á skynjun. Segir loks í grein landlæknis að áþekkar rannsóknir frá Bandaríkjunum og Danmörku hafi leitt í ljós svipaðar niðurstöður.
Ólafur leggur til í ljósi niðurstaðnanna að einangrun vari ekki lengur en þrjár til fjórar vikur.
Það var mikið rætt fyrir nokkru að gæsluvarðhaldsvist á Íslandi gæti orðið ansi löng. Þetta hefur þó færst til betri vegar á undanförnum árum. Markmiðið er hins vegar það að meira tillit verði tekið til heilsufarssjónarmiða en áður, þótt það hafi vissulega verið gert til þessa að einhverju leyti," segir Ólafur."
Í grein Morgunblaðsins kemur einnig fram að tíðni sjálfsvíga er hærri hjá föngum sem setið hafa í einangrun en hjá samanburðarhópi. Þess má geta að Sævar M. Ciesielski sætti hámarkseinangrun í 106 vikur í Síðumúlafangelsi, aðrir sakborningar litlu skemur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning